14.5.2007 | 11:57
Samræður og samvinna
Vinnulag Alþingis hefur sett verulega niður með stjórnunarstíl Sjálfstæðisflokksins, sem ríkt hefur síðustu 16 árin. Lengst var þó gengið í þessa átt, þegar tveir menn töldu sig hafa umboð til að flækja þjóðina inn í stríðsrekstur í fjarlægum löndum. Framkvæmdavald og ráðuneyti fóðra þingið á frumvörpum sem síðan eru drifin í gegn hvert á eftir öðru með hollustu við meirihlutavald. Til dæmis komust einungis tvö léttvæg mál frá stjórnarandstöðu fram á síðasta þingi. Það þarf að skapa þroskaðra andrúmsloft á Alþingi þar sem að það verði ríkjandi viðhorf að allar góðar hugmyndir, hvaðan sem þær koma, geti haft vigt og vægi. Auðvitað þarf einnig að liggja fyrir að tiltekinn fjöldi þingmanna sé tilbúin að verja nýja ríkisstjórn gegn vantrausti.
Það jákvæðasta sem mun koma út úr þessum kosningum er að vinnubrögð ofríkis og valdastjórnmála munu treglega ganga fram. Eina sterka meirihlutasamstarfið væri Samfylking og Sjálfstæðisflokkur. En það er ekki í takt við áherslur Samfylkingarinnar á lýðræði að mynda slíka valdablokk með Sjálfstæðisflokknum. Það væri líka með ólíkindum ef VG hefði þor til að mynda slíka valdablokk og það var ánægjulegt að heyra yfirlýsingu Kolbrúnar Halldórsdóttur um nauðsyn þess að innleiða eðlisbreytingar á vinnubrögðum Alþingis, þannig að allir sætu við sama borð. Það er líka ánægjulegt að heyra viðhorf Bjarna Harðarsonar og fleiri að það sé full ástæða til að skoða myndun félagshyggjustjórnar. Akur samvinnu og samræðna er framundan og hann verður frjór og gjöfull fyrir heimilin í landinu og eflingu lýðræðisvitundar. Þetta tvennt er það sem helst þarf í áherslum nýrrar ríkisstjórnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2007 | 08:55
Tapsárir fyrir kosningar?
Það er merkilegt að horfa á innlegg Morgunblaðsleiðara og Geirs H Haarde á lokametrunum. Geir byrjar sitt fyrsta innlegg í formannaþætti í gærköldi á því að reyna að hræða fólk frá því að kjósa annað en Sjálfstæðisflokkinn. Þá mun sennilega stóri ránfuglinn koma og éta þig! Leiðari Morgunblaðsins í dag heitir "Áhætta". Þar er rakið í löngu máli hvað mikil skelfing muni koma yfir Ísland ef að stjórnartaumarnir færu nú eftir sextán ár úr höndum Sjálfstæðisflokks. Það sem að er svolítið skondið að aldrei þessu vant er ekki hægt að gera athugasemd við þennan leiðara, eins og vanalega er hægt. Á blog.is er hnappur sem vísar á ritstjórnarskrif og segir "Hefurðu skoðun? Segðu þitt álit". Óttinn er greinilega það mikill að það er ekki hægt að taka "áhættu" með að önnur viðhorf heyrist en þau sem sett eru fram í leiðaranum. Því ef maður vill segja sína skoðun kemur;
"Ekki er hægt að bæta athugasemdum við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdum eru liðin."
Það er leitt til þess að vita að ritstjóri Morgunblaðs, okkar húsbóndi hér í bloggheimum skuli vera staddur í þessari úlfakreppu tilfinningalífs. Maður sér fyrir sér Styrmir Gunnarsson, Geir H. Haarde, Björn Bjarnason og Árna Johnsen nagandi á sér neglurnar í Valhöllinni. Þetta eru menn sem að hafa svo gott af því að hér verði innleidd ný vinnubrögð og áherslur í stjórnmálum. Heimilin í landinu eiga það skilið að það sé litið á þau sem rekstrareiningu sem beri að efla og styrkja. Afhverju var svona auðvelt að skerða barnabæturnar en svona erfitt að afnema stimpilgjöldin, afhverju er svona auðvelt að lækka skattlagningu á þá hæst launuðu en svona erfitt að láta persónuafsláttinn fylgja verðlagsþróun?
Við höfum ekkert að óttast en tengslanet flokks og fjölskyldna sem vanvirðir lýðræðið þolir alveg smá frí frá þátttöku í ríkisstjórn. Það væri hollt að skipta um, eiginlega nauðsynlegt.
X - S fyrir skoðanafrelsi
X - S fyrir segðu þitt álit
X- S fyrir sól í sinni, úti og inni
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.5.2007 kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2007 | 03:04
Kirsuberjatréð
Fyrir utan gluggann á stofunni, í garðinum okkar hér í Mosfellsbæ er kirsuberjatré. Við hliðina á því er álíka stórt tré, koparreynir. Þau eru tákn upphafs og endis á sumrinu. Kirsuberjatréð er í blóma snemmsumars, með fallegum bleikum blómum, en koparreynirinn er komin með þétta og mikla hvíta berjaklasa síðla sumars.
Í Japan og Washington eru hefðir og hátíðahöld þegar kirsuberjatren hafa blómgast. Sérstakir spávísindamenn álykta út frá tíðarfari og veðurspám í byrjun mars hvenær kirsuberjatrén muni blómstra í Washington. Í vor var spáð að trén yrðu í hámarks blóma um fjórða apríl. Þetta er nauðsynlegt að vita með fyrirvara því að fjöldi ferðamanna leggur leið sína til höfuðborgar Bandaríkjanna til að vera þar staddur þegar blómin opna sig og gefa þannig tákn sumarkomunnar. Blómgunin getur verið breytileg hvað nemur allt að fimm vikum milli ára. Ég var einu sinni staddur í Washington á þessum tíma og áttaði mig ekki strax á þessu kirsuberjatali.
Kirsuberjatréð fyrir framan stofugluggann er sérstakur yndisauki og krydd í tilveruna. Tók þessa mynd af því í gær, en það hefur verið smátt og smátt að bæta á sig blómum. Hef trú á því að það verði öll blóm útsprungin á morgun, laugadaginn 12. maí. Þá eru kosningar, sem ég vona að munu einkennast af því að fólk kjósi að breyta til, fá svolítið krydd í hversdagsleikann. Gefa þreyttum hvíld og gefa Samfylkingunni góða kosningu. Opna á þann möguleika að hæf kona verði forsætisráðherra landsins. Flokkurinn hefur verið að bæta á sig blómum síðustu vikurnar og mikilvægt að tryggja að allt verði í hámarksblóma á kjördag.
FRELSI JAFNRÉTTI KÆRLEIKUR
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 01:56
Einfaldlega best
Til þess að auka jafnrétti kynjanna við starfsmannaráðningar þá hefur þess oft verið krafist að séu karlar fleiri í umræddum störfum og umsækjendur metnir jafnhæfir þá eigi að ráða konu í starfið. Tel að allir, hvar í flokki sem þeir standa, geti viðurkennt að Ingibjörg Sólrún stendur fyllilega jafnfætis þeim körlum sem að eru í forystu annara flokka. Út frá því viðmiði er það spennandi að hún verði brautryðjandi sem kona í starfi forsætisráðherra, líkt og hún var sem borgarstjóri.
Í formannaþætti Stöðvar 2 í kvöld varð málið enn skýrara, því það var samdóma niðurstaða allra álitsgjafa að hún hefði staðið sig best. Þessi frammistaða hennar og mat auðveldar kjósendum við að fara yfir starfsumsóknirnar á laugardaginn. Það er ánægjulegt að sjá hversu örugg og málefnaleg hún er í framgöngu. Hún hefur náð sér á flug eftir ómaklega gagnrýni síðustu missera. Landsfundurinn virðist hafa fyllt hana sjálfsöryggi og orku. Nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn að fara að vara sig, ef hún fer að taka upp trompin sem dugðu til að fella íhaldið í þrígang í borginni. Í kvöld þurfti ekki að beita reglunni um að kona skuli valin ef umsækjendur eru jafnhæfir. Hún var einfaldlega besti leiðtoginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2007 | 15:43
Sameinumst um að sameinast
Mér hefur lengi fundist það einn helsti galli á íslenskri kosningalöggjöf að kjósendur fá í raun engu ráðið um hvaða ríkisstjórn stjórnar landinu að loknum kosningum. Einhver orðaði það þannig að það væri sama hvað hann kysi, hann væri alltaf að kjósa Framsóknarflokkinn. Fólk vill geta sent skilaboð sem hafa inntak með atkvæði sínu. Fella ríkisstjórnina eða sveitastjórnina. Að kjósa áherslur til vinstri eða hægri. Síðan gerist eitthvað allt annað. Þannig voru án efa flestir sem kusu vinstri græna í sveitastjórn Mosfellsbæjar síðastliðið vor að vinna að því að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins, en þau atkvæði voru á endanum nýtt til að endurreisa þann meirihluta. Hef haldið því fram að þá sé betra að mynda þjóðstjórn allra flokka heldur en að leika sér með skilaboð kjósenda.
Það er áhugavert að sjá frásögn í Fréttablaði dagsins af afstöðu varaformanna stjórnmálaflokkanna til æskilegs samstarfsflokks. Þar velur Guðni Ágústsson Samfylkinguna, Katrín Jakobsdóttir velur Samfylkinguna, Margrét Sverrisdóttir velur Samfylkinguna, Magnús Þór velur Samfylkinguna, Ágúst Ólafur velur Vinstri græna, en Þorgerður Katrín kemur sér hjá því að taka afstöðu. Hinsvegar má ætla að hún veldi Samfylkinguna ef eftir væri gengið, miðað við að hún hefur viljað skreyta Sjálfstæðisflokkinn með þeirri fullyrðingu að hann sé stærsti jafnaðarmannaflokkur landsins. Hinsvegar er það skoðun mín að stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki komi ekki til álita nema að ljóst sé að velferðarstjórn verði ekki mynduð og heldur ekki nema að jafnræði sé milli flokkana varðandi styrkleika.
Það gæti verið ein leið að leysa þennan lýðræðisvanda að gefa kjósendum ekki bara möguleika á að kjósa sinn flokk heldur einnig að velja sér samstarfslokk. Þetta gæti verið siðferðilegur vegvísir fyrir formenn flokka og forseta í stjórnarmyndunarviðræðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2007 | 10:23
Hverjir munu sigra kosningarnar?
Það verður ótrúleg niðurstaða ef Sjálfstæðisflokkurinn, algjörlega óverðugur, bætir við sig verulegu fylgi í komandi kosningum. Spilling og hroki sem einkennt hafa flokkinn eru ekki eiginleikar sem ástæða er til að verðlauna. Sú tegund af valdastjórnmálum sem þeir ástunda með því að flokksvæða ríkisstofnanir eða selja þeim er uppfylla "réttu" skilyrðin er ekki ástæða að umbuna. Setja útvalda í stöður dómara, seðlabankastjóra eða sýslumanna er vanvirða við jafnræði og það meginviðmið að menntun og hæfileikar séu meginforsendur við stöðuveitingar.
Viðhalda þenslu fyrir verktaka, banka og fjármagnseigendur sem stuðlar að því að vaxtakjör heimilanna í landinu eru 3-5% hærri heldur en vera þyrfti gerir íhaldið ekki að vænlegum kjölfestufjárfesti í næstu ríkisstjórn fyrir hinn almenna borgara sem vill tryggja hag heimilisbókhaldsins. Skattar hafa hækkað nema á þá tekjuhæstu og skatthlutfall á fjármagnstekjur er lægst hér á landi af OECD ríkjum. Þannig hafa verið innleiddar eðlisbreytingar á skattkerfinu sem mun stuðla að gliðnun, ójöfnuði og átökum í samfélaginu. Þetta snýst ekki um öfund heldur frelsi einstaklingana til að geta verið þátttakendur í samfélaginu á heilbrigðum og réttlátum forsendum.
Mál Jónínu Bjartmarz hlítur að falla undir þann hatt. Eina mál sögunnar þar sem tekst að fá ríkisborgararétt á 10 dögum. Þingmenn allsherjarnefndar höfðu í gögnum sínum nafn ráðherrans af því að hún hafði sótt um landvistarleyfi. Saman hafa Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur innleitt verstu sort af fyrirgreiðslupólitík. Þar sem fólki og fyrirtækjum er umbunað á grundvelli fjölskyldutengsla eða flokkshollustu. Það er verið að brjóta mannréttindi með því að taka einhvern fram fyrir í röðinni á grundvelli slíks tengslanets.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.5.2007 kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.5.2007 | 15:47
Af göngum um fell og fjöll
Í dag fimmtudag hefjast fellagöngur í Mosfellsbæ. Á þriðjudögum og fimmtudögum er gengið á eitt fell kl. korter yfir fimm. Göngurnar hefjast í Álafosskvos og taka 2-3 klukkutíma. Í dag er gengið á Helgafell og gefst fínt útsýni yfir framkvæmdasvæðið fyrir neðan. Tilvalið er að hafa með sér minni háttar nesti og snæða á toppnum. Næsta þriðjudag er gengið á Reykjafell, síðan Mosfell, Reykjaborg og Úlfarsfell.
Fyrir þá sem vilja lengri sumarferðir í göngu þá tek ég að mér að skipuleggja gönguferðir fyrir einstaklinga og hópa að Stafafelli í Lóni (Lónsöræfi). Tilvalið er fyrir vini, fjölskyldur, vinnuhópa, gönguklúbba og hlaupahópa að skella sér í slíka ferð. Set upp myndakynningu og kem með tillögu að ferðatilhögun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2007 | 23:12
STAFAFELL; Saga, náttúra, útivist
Nú á sunnudagskvöld verð ég með kynningar- og myndakvöld undir heitinu STAFAFELL; Saga, náttúra, útivist. Þar mun ég kynna "landið hennar mömmu", Stafafell í Lóni, sem að er ein af stærri jörðum landsins. Síðustu tuttugu árin hef ég gengið slóðir forfeðra, skipulagt og leiðsagt göngufólki í styttri og lengri gönguferðum. Á Stafafelli var kirkjustaður og prestsetur í gegnum aldirnar. Erfið jörð segir í vísitasíum biskupa. Á sama tíma og Sigfús Jónsson hljóp uppi kindur inn í Víðidal var séra Jón Jónsson að skrifa mikið fræðirit Vikingasögu um herferðir norrænna manna heima á prestsetrinu. Sveitin, Lón, var sú fjölmennasta í Austur-Skaftafellssýslu. Tuttugu manns voru með fasta búsetu á prestsetrinu, þrjár hjáleigur skammt undan og fjallabúskapur á nokkrum stöðum.
Árið 1907 er samþykkt á Alþingi heimild til sölu á kirkjujörðum og jörðin seld með gögnum öllum og gæðum 1913. Matsmenn gæta hagsmuna ríkisins og salan staðfest af ráðherra. Ekkert er talað um veikari eignarrétt inn til landsins. Það kom því verulega á óvart að annar ráðherra skyldi gera kröfu í meira en helming jarðarinnar með tilkomu þjóðlendulaga. Tryggvi Gunnarsson núverandi umboðsmaður Alþingis og þáverandi lögmaður og höfundur þjóðlendulaga sagði að það væri útilokað að kröfur yrðu gerðar inn á þinglýst eignarlönd. Þjóðlendulögunum væri ætlað að skera úr um afrétti eða almenninga og einskis manns lönd. Útfærslan varð allt önnur. Nú hefur ríkinu tekist með Hæstaréttar úrskurði að ná undir sig um tvö hundruð ferkílómetrum þessa lands, sm það hafði áður selt og afsalað öllum réttindum yfir. Þeim úrskurði hefur nú verið vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Stafafell er landfræðilega skýrt afmörkuð eining af vatnaskilum, ám og fjallatindum. Að stórum hluta eru merki jarðarinnar inn til landsins einnig hreppa og sýslumörk. Út af landi liggur eyjan Vigur sem gaf af sér hlunnindi í dún og sel. Fyrir miðri sveit er Bæjarós en Jökulsá í Lóni hafði áður víðtækt frelsi um láglendið en hefur nú verið römmuð inn í einn farveg með varnargörðum og vegagerð. Í Lóni millilenda um 70% af álftastofninum að vori og hausti á leið sinni til Skotlands og meginlandsins. Af þessum slóðum er hvað styst vegalengd til meginlandsins fyrir farfuglana. Á vetrum geta verið hundruðir hreindýra á sandinum og láglendi. Svífa fjaðurmögnuð yfir girðingar og ná miklum hraða. Í Jökulsá gengur silungur, sem hefur án efa verið búbót fyrir fjallabúskap til að þrauka af veturinn. Stafell gefur einstakt og fjölbreytilegt þversnið af náttúru landsins. Gróðurlausir sandar og melar, víðáttumiklar mýrar með tjörnum, birkivaxnir hvammar og skógar með bómskrúði í botni, líparítskriður í öllum litatónum og hallandi basalthraunlög, hrikaleg gil og gljúfur, upp af þeim tilkomumiklir tindar, jöklar og grýttir melar sem liggja að vatnaskilum og kallast á austfirsku "hraun".
Hlutverk staðarins sem kirkjustaður og prestsetur, ásamt staðsetningu jarðarinnar við torfæruna Jökulsá og í forgrunni hins mikla fjallasals gerði bæinn að miðstöð samskipta og leiðsagnar. Þar var símstöð og póstdreifing. Brú var byggð fyrir bíla á Jökulsá 1952 og gangandi umferð í Kollumúla 1953. Árið 1976 ákveða landeigendur að friðlýsa hluta jarðarinnar, en það er ekki fyrr en 1997 að unnin er heildarstefnumörkun fyrir jörðina í útivistar- og ferðamálum. Þá er ákveðið að göngubrú komi við Eskifell, ásamt því að helstu tjald- og skálasvæði verði í Eskifelli og Kollumúla. Þjónustumiðstöð verði í byggð sakmmt fr´þjóðvegi. Unnið hefur verið að uppbyggingu samkvæmt þessu plani. Göngubrú, 95 metra löng hengibrú, var byggð árið 2004 og nú í sumar verður vígður nýr skáli við Eskifell. Sagt er að "stafur" merki á Austurlandi, "fjalllendi sem skagar fram á milli dala". Segja má að að þjónustumiðstöð í byggð, skálar í Eskifelli og Kollumúla verði vitar á leið ferðafólks um stafina þrjá sem mynda jörðina og göngubrýrnar tvær gera jörðina að samfelldu útivistar- og verndarsvæði.
Með hugmyndum sem fylgja lögum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem samþykkt voru á nýloknu þingi er ráð gert að yfirtaka land sem tilheyrt hefur Stafafelli í 1000 ár. Landeigendur voru ekki afhuga viðræðum um að Stafafell gengdi veigamiklu hlutverki sem ein af meginstoðum þjóðgarðsins og að þjónustumiðstöð yrði í Lóni. Hinsvegar í endanlegri tillögugerð bendir margt til þess að undirbúningur að stofnun þjóðgarðsins hafi verið rekin áfram á öðrum forsendum en útivistarmöguleikum eða náttúruverndargildi einstakra svæði. Ekki er minnst einu orði í umfangsmikilli greinargerð um stofnun þjóðgarðsins á Stafafell í Lóni. Það er þakklætið fyrir vilja landeigenda um friðlýsingu hluta jarðarinnar frá 1976. Meginmarkmið virðist vera að landið sem þjóðgarðinum tilheyri verði nógu stórt (sbr. stærsti þjóðgarður í Evrópu) og að hann dragi nógu marga ferðamennn til landsins. Meiri áhersla er á gjaldeyristekjur af þjóðgarðinum, heldur en að útskýra hvaða sögulegar og náttúrufarslegar heildir er verið að varðveita.
Sókn er besta vörnin segir einhvers staðar og því munu landeigendur halda áfram að byggja upp jörðina sem útivistar- og verndarsvæði. Að halda sjálfstæði sínu og verjast ágangi og ásælni ríkisins. Stefnt er að stofnun Hollvinasamtaka Stafafells (VIST) sem mynda bakland í þeirri baráttu að tryggja að jörðin haldist sem söguleg, landfræðileg og útivistarleg eining. Jafnframt verður leitað eftir stuðningi fjársterkra aðila sem kæmu að uppbyggingu þjónustumiðstöðvar. Nú þegar, liggur fyrir frumhugmynd að uppbyggingu vandaðra tjaldstæða og sérstæðrar þjónustumiðstöðvar. Gert er ráð fyrir að meginþjónustuhús verði gert úr náttúruefnum, einkum gabbró og líbaríti og lögun þess minni á vörðu. Það er viðeigandi að tákn Stafafells; Útivistar- og verndarsvæðis (STAFAFELL; Park of recreation and conservation) sé álft og hreindýr, sem vísa til hálendis og láglendis, ásamt því að skírskota til jafnvægis í lífríkinu.
Allir eru velkomnir á kynningar- og myndakvöldið. Kynntar verða einnig gönguferðir sumarsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.4.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2007 | 01:23
Öryggi og aðbúnaður fyrr og síðar
Sjónvarpsfréttir í kvöld sögðu frá miklum fjölda verkamanna sem að hafa veikst við gerð aðrennsligangna á Kárahnjúkasvæði. Viðtöl og frásögn voru sláandi. Vakti upp spurningar um hvort að tafir við framkvæmdirnar væru farnar að stuðla að ómannúðlegra starfsumhverfi. Að tímapressa og krafan um að ná útreiknuðum gróða gæti jafnvel bitnað á lífi og heilsu. Við þessa frétt rifjuðust upp fyrir mér kynni mín af pólsk ættuðum forritara og tæknimanni við Pittsburgh háskóla. Ég kynntist honum þegar ég dvaldi þar en ég varð svolítið hissa hvað hann var róttækur í stjórnmálum. Hann gaf mér þá skýringu að tveir úr fjölskyldunni hefðu dáið í kolanámuslysi í Harwick, skammt frá Pittsburgh árið 1904. Þar dóu 181 menn í öflugri sprengingu. Slysið var hægt að rekja til vanrækslu í öryggismálum og ófullnægjandi loftræstingar.
"The cause of this explosion at about 8:15 A.M., was a blown-out shot, in a part of the mine not ventilated as required by law. Sprinkling and laying of the dust had been neglected; firedamp existed in a large portion of the advanced workings. The explosion could be transmitted by the coal dust suspended in the atmosphere by the concussion from the initial explosion, the flame exploding the accumulations of firedamp and dust along the path of the explosion, carrying death and destruction into every region of the workings".
Eftir sprenginguna fóru tveir menn inn í námugöngin, björguðu 17 ára strák, en létust báðir út frá gaseitrun. Eigandi námunnar var Andrew Carnegie (sbr. Carnegie Mellon University og bankar) og taldi vinur minn að hann hefði hugsað mun meira um rekstrahagnaðinn en aðbúnað verkamannana. Í framhaldi af sprengingunni stofnaði Carnegie sjóð til handa fjölskyldum þeirra sem látist hafa við björgunaraðgerðir eða á annan "hetjulegan" hátt. Vinur minn hafði flokkað Andrew Carnegie sem hinn illa innrætta arðræningja sem nýtti sér bág kjör forfeðra hans með lágum launum og lélegum aðbúnaði.
Verum vakandi fyrir því að huga vel að þessum körlum sem að eru búnir að vera hér á landi, fjarri fjölskyldum í vetrarhörkum og veikjast nú að því er virðist út af slæmum aðbúnaði. Mannúð á sér engin landamæri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2007 | 07:04
Íhaldsmenn, athyglisbrestur og íbúalýðræði
Finnst að heimurinn, sitt hvoru megin Atlantsála, hafi verið að þróast í ólíkar áttir varðandi mannréttindi og lýðræði. Innan Evrópu hefur áhersla verið á að útfæra, skilgreina og dýpka félagsleg réttindi einstaklingsins. Þannig hefur margskonar löggjöf sem rekja má til þátttöku okkar í Evrópusamstarfi aukið rétt einstaklinga til þátttöku í stjórnsýslu og ákvörðunum. Á sama tíma hefur í forsetatíð Bush bandaríkjaforseta verið sótt að réttindum einstaklinga. Rýmkaðar reglur til að fylgjast með fólki sem að stjórnvöld gruna um að vera óvini ríkisins og Guantanomo hefur orðið tákn þess hversu langt valdhafar geta gengið í að svipta fólk mannréttindum. Þar sem hundruðum er haldið án skilgreindrar ástæðu, dóms og laga.´
Óttinn er öflugt vopn í pólitík. Því hefur Bush beitt ötullega. Hann varð forseti út á þær fullyrðingar að Írak byggji yfir gereyðingarvopnum og nauðsyn þess að Bandaríkin færu í stríð gegn hryðjuverkum. Síðan getur hver og einn metið það hvort að Bandaríkin hafi aflað sér fleiri vina en óvina með vafstri sínu í Írak. Nú er komið í ljós að sagan um gereyðingarvopn var uppspuni stjórnvaldsins til að fá lýðinn til að sameinast að baki forsetanum. James Bovard skrifar um eðlisbreytingar bandarísks samfélags í bókunum Lost Rights og Attention Deficit Democracy. Þar sem að hann gerir grein fyrir því hvernig þróun hins bandaríska samfélags færist í auknum þunga á stofnanir framkvæmdavalds, forseta, her og hæstarétt. Hann skrifar;
"As long as enough people can be frightened, then all people can be ruled. Politicians cow people on election day to corral them afterward. The more that fear is the key issue, the more that voters will be seeking a savior, not a representative and the more the winner can claim all the power he claims to need".
Sumt af þessu er íslenskur raunveruleiki. Er ekki verið að ræða um nauðsyn þess að koma upp varaliði eða íslenskum her? Er ekki tiltekin stjórnmálaflokkur að setja sem flesta flokksmenn sína í Hæstarétt? Er báknið farið burt, eins og Heimdellingar kröfðust um árið, eftir sextán ára setu Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn? Síður en svo. Það sem hefur breyst er að það er búið að flokksvæða stofnanirnar og byggja undir ráðuneyti og framkvæmdavald. Áhersla sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið á sterka leiðtoga, sem að oft hefur komið niður á lýðræðislegri umræðu innan flokksins. Það má ekki spyrjast út að það séu skiptar skoðanir um mál, því þá er það talið til veikleika. Mín skoðun er að það sé styrkleiki stjórnmálaflokka að það sé svigrúm fyrir breytileg viðhorf innan þeirra. Það er galli á flokksstarfi að halda skoðunum niðri með ótta eða foringjadýrkun. Þannig endum við oft með stjórnmálamenn með "athyglisbrest" í þeim skilningi að þeir vita hina einu réttu útgáfu af sannleikanum og þurfa ekki að leita umboðs eða umsagnar um nokkurn hlut. Nema ef til vill að minna okkur á það á fjögurra ára fresti að allt fari á verri veg í landinu, ef þeir fái ekki áframhaldandi umboð. Sakna landsföðurs í líkingu við Steingrím Hermannsson. Hlýlegur karakter sem lagði sig fram um að setja sig inn í aðstæður fólks og hlusta eftir vilja fólks við stefnumótun.
Samfylkingin og Morgunblaðið eru helstu fánaberar þess að útfærðar verði leiðir í átt að auknu íbúalýðræði og að almenningur geti kosið um stærri mál. Varmársamtökin héldu íbúaþing í gær undir yfirskriftinni "Heildarsýn; Vesturlandsvegur-Mosfellsbær". Þetta var mjög góður fundur. Frambjóðendur allra flokka mættu í pallborð um íbúalýðræði og skipulagsmál, nema að Sjálfstæðisflokkurinn sendi ekki fulltrúa. Þar held ég að flokkurinn hafi sýnt lýðræðinu vanvirðingu. Margt bendir til að Mosfellsbær vilji ekki eiga samræður við íbúana á opinn og heiðarlegan hátt um þróun bæjarfélagsins. Þó er það von mín að bæjarstjórn taki nýjum hugmyndum samtakanna um vegtengingar við Helgafellshverfi af opnum huga, frekar en að etja hverfum og íbúum saman í ómálefnalega umræðu og ótta. Í Mosfellbæ er nefnilega engin hryðjuverkaógn og við gætum haft þetta svo huggulegt og skemmtilegt teboð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)