Færsluflokkur: Lífstíll

Plágur samræðunnar

Eyjaskeggjum á ísaköldu landi norður við heimskautsbaug hefur iðulega verið lýst sem lokuðum persónum. Við erum víst afkomendur víkinga, sem voru í senn hetjur og sagnamenn. Allskyns sögur af snarræði og mannraunum komu fólki í gegnum myrkur og kuldatrekk aldanna.  

Nú í dag gæti orðræðan verið breytt, orðin persónuleg og hlýleg. Að fólk skiptist á skoðunum, viðruðu hvert við annað sína drauma og þrár. Tjáningin væri opin og einlæg, óvænt og litrík. Þroskandi fyrir mannleg samskipti, lofsöngur til sköpunarverks og tilvistar.

Margir hafa flóttaleið út úr núinu inn í samræðu um fótbolta og bókmenntir. Án þess að hika er ætlast til þess að maður viti eitthvað um knattleiki eða skáldsögur. Yfirleitt er ekki ætlast til að sami maðurinn sé fjölvitur nema um annaðhvort boltann eða sagnamálin.

Venjulega er auðvelt að átta sig á því hvorum hópnum fólk tilheyrir. Bókaormar eru ekki í trimmgöllum og boltamenn eru ekki með kringlótt gleraugu. Þannig gengur þessi félagslega sortering upp og það er sjaldan að annar hópurinn sé áreittur af hinum.

Síðan eru það menn eins og ég sem að eru í senn vörpulegir og gáfulegir, klæðumst lopapeysu og erum í strigaskóm, hláturmildir og alvarlegir. Það er útilokað að átta sig á því hvorum hópnum slík manngerð tilheyrir. Áreitið verður tvöfalt og við erum alltaf reknir á gat.

Er satt að segja alveg uppgefinn á að reyna að skálda í eyðurnar við slíkar aðstæður. Ef einhver spyr mig um hvernig leikurinn hafi farið hjá Liverpool í gær eða hvort ég hafi lesið tiltekna bók eftir Kafka þá langar mig mest að knúsa þá og spyrja hvernig þeim líði, innra með sér, núna.


Fullkominn, heilnæmur og auðmjúkur

"Ég er tilbúinn að stökkva upp á þrep sjálfsþekkingar" sagði Bergur Þór leikari þar sem að hann túlkaði Dante í uppfærslunni á Dauðasyndunum í Borgarleikhúsinu í kvöld. Þetta var aukasýning og því miður er sýningum nú lokið. Verkið er alveg kjörið fyrir hina taugaveikluðu íslensku þjóðarsál.

Við skemmtum okkur alveg konunglega allan tímann. Frábær naflaskoðun klædd í einfaldan og persónulegan búning. Samskipti leikara við gestina í salnum er skemmtilegur spuni og andrúmsloftið varð fyllt af eftirvæntingu. Margt óvænt gæti gerst.

Boðskapurinn er að við eigum val. Við höfum frjálsan vilja. Við getum valið hið góða eða hið illa. Á leiðinni heim eftir að hafa farið með Dante í gegnum hreinsun alla leið niður til heljar og séð hann svífa á heiðríkju hugans eftir að hafa fundið ljósið, þá langaði mig að finna og miðla orðum sem eru falleg og nærandi.

Orð kvöldsins á aðventu eru; FULLKOMINN, HEILNÆMUR og AUÐMJÚKUR. Finnið rólega djúpa öndun með því að telja upp að fimm, í takti kyrrðar, á útöndun og innöndun. Hvíslið síðan, með sama hrynjanda og opnu hjarta, þessum fallegu orðum að ykkur sjálfum í trúnaði. Vilji er allt sem þarf.


Litarefni plantna gefa vernd

carotenoidsFlavonoids

Andoxunarefni gefa vörn gegn virkni sindurefna. Karoten efni gefa vörn í fituleysanlega hluta líkamans. Þau eru litarefni grænmetis eins og t.d. í paprikum og tómötum. Flavóníðar gefa vörn í vatnsleysanlega hluta líkamans. Þeir finnast í ávöxtum eins og berjum, kíví, appelsínum.

Læknar hafa hinsvegar iðulega mætt umræðunni um áhrif andoxunarefna af mikilli tortryggni. Þess má geta að stór faraldsfræðileg rannsókn sýndi fyrir nokkru að þunglyndislyf hefðu lítil áhrif í langtímarannsókn. Þegar litið var til þess hluta sem náði sér án lyfja bættu lyfin litlu við.

Það er sannfæring mín að litarefni plantna gefa vernd gegn hvarfgjörnum efnum, sem herja á vefi líkamans. Þannig væri auðveld að bera saman ferli öldrunar hjá hópi einstaklinga sem hafa reykt í tuttugu ár og hópi sem að hefur verið grænmetisætur í tuttugu ár.

Gott að fá sér appelsínusafa með beikoninu, grænmeti með hamborgarahryggnum og eina gulrót eftir að menn eru búnir að reykja. Það er eitthvað í þessari rannsókn sem að er vitlaust og hún afskrifar ekki hollustu andoxunarefna.

Ef til vill verða efnin að vera í samverkun við önnur efni í fersku formi plantna eða ef til vill hefði verið gott að hafa ekki svona einsleitan hóp með hugsanlega neikvæða afstöðu.


mbl.is Bætiefnin hindruðu ekki krabba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég boða yður mikinn fögnuð - smástund

"Hann" ætlar að taka einhverjar pásur í stórrigningum á fimmtudag og laugardag. Jafnvel má þá búast við sólskinsstundum. Seinni part sunnudags og á mánudag verður aftur komið í sama farið.

Hvar er þessi heiðríkja, stilla og haustlitir sem að maður vill hafa á þessum árstíma? Hlýindi sem fygja rigningu geti þó haft sína kosti. Hitaveitureikningurinn verður lægri.

Reglan um að ef þú ert óánægður með íslenskt veður þá þurfir þú ekki að bíða nema fimm mínútur og þá séu orðnar veðurbreytingar, virðast ekki eiga við þetta haust frekar en í fyrra.

Til stóð að safna í fjallarútu og sigla af stað í Núpstaðaskóg um síðustu helgi, en hætt við vegna rigningarútlits. Hver veit nema að veður verði fyrir fjallaferð um helgina. 


Humarsúpa og hálsbólga

 Humarsúpa

Mín reynsla af kvefpestum er sú að þær fæ ég ekki nema eftir nokkura daga leti. Að lokinni stífri líkamlegri keyrslu í leiðsögn og skipulagningu gönguferða á fjöllum hafði ég í vikunni tekið tvo daga í hlutlausum gír, lesa blöðin og leggja mig, fara á fætur og leggja mig aftur. Slíkt háttalag boðaði ekki gott, því ég var tveimur dögum síðar komin með einhverja kvefpest, hálsbólgu og óáran í kroppinn. Eins og oft gerist líka á önninni í kennslu að þá pikka ég helst upp pestir í miðannarleyfi, jóla- eða páskafríi.

Ég er áhugamaður um samspil sálar og líkama. Finnst það hart ef ég þarf að taka upp það viðmið að hætta slökun með öllu. Trúlega er betra að minnka ofurkeyrsluna og taka reglulegar slökun. Til dæmis að hlýða bara reglum almættisins um að halda hvíldardaginn heilagan. Ætli þa geti ekkið verið þrungið visku, með tilliti til starfsemi ónæmiskerfisins að slappa af á sjö daga fresti. Gera eitthvað allt annað og losa sálartetrið undan hversdagslegum kröfum og tímaleysi.

Af einhverjum ástæðum hafa verkaskipti á heimili hér við kvöldmáltíðir þróast þannig að húsfreyjan eldar en húsbóndinn vaskar upp. Hún hittir síðan iðulega á fólk sem verið hefur með mér í gönguferðum til fjalla og fær frásagnir af tilþrifum mínum í eldamennsku fjarri mannabyggðum. Nú er hún í dag búin að vera með pestina og er raddlaus. Ég ákvað því að útbúa humarsúpu, við góðar undirtektir. Við fengum okkur hvítvín frá Chile, sem heitir Montes Alpha (Chardonnay).

Já, alveg rétt það er sunnudagur á morgun, en ég sem ætlaði að klára að skrifa líffræðibókina, svo hún verði tilbúin í fjölföldun á mánudag. Svo þyrfti ég að vinna aðeins í garðskálanum sem við erum að lagfæra og ... og.... og...


Línan - Sumardaginn fyrsta

SkauthjólhlaupÁ sumardaginn fyrsta hefur myndast hefð fyrir því að fara milli Mosfellsbæjar og Seltjarnarness skautandi, hjólandi eða hlaupandi. Tekin smá upphitun undir góðum tónlistartakti fyrir brottför. Lagt af stað klukkan 10 að morgni frá Varmárlaug og endað í Seltjarnarneslaug. Farið eftir göngustígum norðan megin Mosfellsbæjar og Grafarvogs. Gert hádegishlé í Elliðaárdalnum og farið meðfram suðurströnd Reykjavíkur og út á Seltjarnarnes. Strengirnir látnir líða úr líkamanum í lauginni.

Yfir Esjuna

Lífið er að lifna úr vetrardvala og mannlíf að eflast í borginni við sundin. Fór í miðbæjarreisu í gærkvöldi til móts við nema úr Borgó sem voru með dimmision fagnað á Sólon. Rölti svo aðeins um miðbæinn og það var áberandi mikið af útlendingum. Tók meðal annars stutt spjall við Norðmenn og Bandaríkjamenn.

Þetta útstáelsi sem var vel fram yfir miðnætti var ekki að öllu leyti skynsamlegt. Planlögð var 22 km ganga upp á Þverfellshorn, á Hábungu, eftir hryggnum, niður Laufaskörð og Móskarðshnjúka. Fór til móts við göngufólk að bílastæðinu við Esju kl. 9. Ákveðið var að endurmeta gönguplön í ljósi þess að trúlega væri mikill snjór í Laufaskörðum og vandræði að þurfa að snúa til baka eftir langa göngu.

Um næstu hlegi á laugardegi verður gengið á Hvannadalshnjúk. Hópurinn er nú orðinn 15 manns. Sjö af þeim fóru á Esjuna, en einn fór aðeins upp að steininum og til baka. Aðrir héldu áfram og upp úr klettabeltinu og upp á háhrygginn þannig að útsýni opnst til norðurs og vesturs.

Ákveðið var að fara ekki til hægri um Hábungu til Laufaskarða og Móskarðshnjúka, heldur til vinstri og fara norðan Kerhólakambs niður á Kjalarnesið og koma niður af fjallinu um kílómeter norðan við Grundarhverfi.

Gangan gekk vel þó að enn væri töluverður snjór í yfir 600 m hæð og þar neðar tækju við aurbleytur á köflum. Farið var í um 850 metra hæð, gengið um 14 km á sex tímum. Göngufólk var sannfært um að allir væru tilbúnir fyrir hæsta fjall landsins.

Veðurspá Sigga storms um mikla sólartíð föstudag og laugardag gekk ekki alveg eftir þó veðrið væri mjög gott. Mikið var af fólki á göngu í Esjunni. Meðal annars rákumst við á fleiri að þjálfa sig fyrir hnjúkinn. En eftir að við vorum komin upp á Þverfellshornið mættum við engum og sáum ekki nokkurn mann.

Esjuganga


Að vera eðlilegur

Skil mjög vel að karlar hafi áhuga á konum. Ekki síður að þeir hafi stundum áhuga á að sjá þær naktar. Skil hinsvegar ekki þá sem tala af óvirðingu til kvenna, né þá sem taka þátt í að greiða fyrir dans eða afnot af kvenlíkamanum. Skil vel femínista sem berjast gegn öllum aðstæðum þar sem konur eru þvingaðar til athafna í nafni fjármagns. Skil hinsvegar ekki að þær mæti ekki aðstæðum af opnari huga og telji ætíð að þær séu réttbærar til að dæma. Skil ekki að þær ætli öllum körlum að vera mögulegir ofbeldismenn. Með því setja þær málin í gagnslausan stríðsrekstur, án umbóta og skilnings.

Kynvíddin verður ekki afgreidd með rökræðum menntakvenna. Þar eru tilfinningar og innbyggð líffræðileg ferli sem móta hugsanir og hegðun. Því þarf að efla skilning á eðli og ástæðum tilhneiginga okkar og hvata. Karlar þurfa að axla ábyrgð á sínum veruleika, væntingum og þrám. Þannig að þeir finni skynsamlegri farveg en að vera að pukrast á karlakvöldum undir einhverjum dónabröndurum. Ekki er heldur hægt að ætlast til þess að þeir fari að tjá sínar upplifanir samkvæmt einhverri rökrás femínista. Það verður að gefa körlum svigrúm að vera kynverur á eigin forsendum, en án þess að í því felist réttur til að sýna öðrum virðingarleysi.

NormalÞetta eru svona hugrenningar í framhaldi af færslu um "frjósemisdansa". Ég fékk viðbrögð við þeim skrifum á báða vegu, sem ég er ánægður með. Hörðustu karlarnir vilja fá að gera hvað sem er og hörðustu konurnar vilja ekki leyfa körlum að hafa neinar meiningar um þessi mál. Segi iðulega hvað mér finnst án þess að það sé eftir flokkslínum eða að ég hugsi mikið út í það hvað ég eigi að segja miðað við stétt og stöðu. Því geta fylgt ókostir til skamms tíma litið, en það skilar sér að lokum að vera bara blátt áfram og ...... eðlilegur!

 

 


Þríhyrningur

Þríhyrningur2

 Uppleið2Þakklæti2

Síðasta sunnudag var farið upp í skarðið við Móskarshnjúka eða eins hátt og veður leyfði. Í dag var ekið til móts við sólríkt Suðurland með það að markmiði að fara í Fljótshlíðina og ganga á Þríhyrning (667 m). Byrjað var á kirkjuskoðun að Breiðabólsstað hjá sr. Önundi Björnssyni. Hann er höfðingi heim að sækja og ánægjulegt að sjá myndarskap í margvíslegum framkvæmdum á staðnum.

Keyrðum upp hjá Tumastöðum, en eftir göngu á tindinn héldum við áfram hring fram hjá Keldum á Rangárvöllum. Nokkuð stífur vindstrengur var í fjallinu en ekki snjór til vandræða. Við fengum frábært útsýni til allra átta. Út til Eyja, yfir Eyjafjallajökul, í átt að Hlöðufelli og yfir sunnlenskar sveitir. Ég var með tuttugu kílóa hlunk til að þyngja mig og auka þrekið fyrir göngu á Hvannadalshnjúk. Hann var mjög þakklátur þegar búið var að skila honum niður aftur.

Næsta fjall er Heiðarhorn í Skarðsheiði á sunnudegi eftir viku. Allir eru velkomnir að slást í hópinn. Lagt verður af stað frá bílastæðinu við Krónuna í Mosfellsbæ klukkan tíu að morgni.

____________________________

Farið verður á morgun, laugardag, vegna verri veðurspár á sunnudag.


Að þjálfa þrek á fjöllum

Daginn er farið að lengja og innan tíðar munu sólargeislarnir losa landið úr klakaböndum. Í takt við þann gang náttúrunnar fer hugur minn og fleiri í ríkari mæli að leita til fjalla. Síðustu tvær helgar var sérlega gott veður. Fyrir tveimur vikum gengum við nokkur upp með Varmá, fjallalindinni sem rennur í gegnum Mosfellsbæ, en misvitrar gjörðir draga úr heilbrigðu flæði hennar í gegnum byggðina. Síðustu helgi var farið á Esjuna í einstakri blíðu og þá var mikill fjöldi þar á göngu. Farið var aftur í dag en þá var veðrið ekki eins gott. Snjóhraglandi í efsta hlutanum.

Hópur sem að er að undirbúa göngu á Hvannadalshnjúk um mánaðamótin Apríl/Maí mun ganga á fell og fjöll næstu vikurnar. Allir eru velkomnir að slást í för með ef tími og aðstæður henta. Næsta sunnudag eftir viku verður gengið á Móskarðshnjúka. Göngufólk hittist klukkan 11 á planinu fyrir framan Krónuna í Mosfellsbæ.

GBO og MMG

Feðgar við Varmá ofan byggðar fyrir tveimur vikum.

Esja

Fólk á göngu í Esjunni um síðustu helgi

Guðmundur Þórhallsson

Guðmundur Þórhallsson samkennari í snjóhraglanda í Esjunni í dag

Móskarðshnjúkar2

Móskarðshnjúkar eru verkefni sunnudags eftir viku. Þeir liggja austur úr Esjunni í átt að Skálafelli. Á myndinni sést ofan í Mosfellsdal á vinstri hönd. Þessa mynd er að finna hér og vonandi er það eiganda að meinalausu að nýta hana til kynningar á næstu göngu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband