Færsluflokkur: Lífstíll

Maðurinn er óður!

Þetta myndskeið var mér bent á að væri á YouTube. Svo virðist sem að karldansarinn hafi mjög óheflaðan dansstíl, enda áður en hann fór til London að læra meira í orkuríkum og frjálsum þrekdönsum. Þannig að "ungar jafnt sem aldraðar" mega vara sig, ekki síst ef Raggi Bjarna er í góðri sveiflu.


Kraftur ljóss og lífs

Andoxun4

Litarefni plantna gegna mikilvægu hlutverki í fyrstu skrefum fæðukeðjunnar bæði við það að vernda vefi plöntunnar gegn óæskilegri geislun og að beisla orku sólarljóssins. Síðustu tvo áratugi hafa rannsóknir einnig sýnt hversu holl þau eru fyrir vefi mannslíkamans í hlutverki sínu sem andoxunarefni. Í stuttu máli má segja að oxun á fitusýrum eða erfðaefni geti haft í för með sér ýmis óæskileg áhrif á líkamsstarfsemina. Þannig geta skemmdir innan á æðaþeli verið fyrstu skref æðakölkunar eða stökkbreytingar á erfðaefni leitt til krabbameinsmyndunar. Geislun og hvarfgjörn efni (sindurefni) eru helstu ástæður oxunar lífrænna efna. Reykingar og mikið brasaður matur getur aukið magn sindurefna, sem meðal annars stuðla að súrefnisatóm í líkamanum verða í óstöðugu ástandi í líkamanum og hafa tilhneigingu til að hvarfast við vefi líkamans og meðal annars innleiða ótímabæra öldrun. Andoxunarefni gegna hlutverki slökkvitækja sem að slá á og draga úr þessum ferlum.

Litarefni plantna skiptast í tvo meginflokka. Annarsvegar eru fituleysanleg litarefni karotenóíðar sem finnast einkum í grænmeti, eins og papriku, tómötum og gulrótum. Það andoxunarefni sem fyrst fékk athygli og er mest rannsakað er beta-karoten en það er í miklu magni í gulrótum. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á vernd og hollustu beta-karotens. Hinn meginflokkur litarefna er vatnsleysanlegur og nefnist flavóníðar og finnst einkum í litsterkum ávöxtum og berjum t.d. appelsínum, kíví, jarðaberjum og bláberjum. Þessir tveir flokkar sjá því um vernd gegn geislun og sindurefnum í mismunandi svæðum líkamans. Þau vatnsleysanlegu gegna mikilvægu hlutverki í blóði og vessum á meðan að hin fituleysanlegu gegna mikilvægara hlutverki við að vernda himnur og dýpra í vefjum. E- vítamín og C-vítamín gefa einnig vernd sem andoxunarefni í sitthvorum hlutanum, vatnsleysanlega og fituleysanlega umhverfinu. Nú hafa verið greind yfir 4000 litarefni í náttúrunni og að þó þau hafi öll það sameiginlegt að miðla krafti lífs og ljóss, þá eru þau líka breytilegur flokkur efna og hvert með sína virkni.

Í matvælaefnafræði fyrir tæpum 20 árum valdi ég að skrifa um áhrif karotenefna sem næringarefni til verndar gegn ýmsum krabbameinum. Það var áhugavert. Síðan í framhaldsáfanga í næringarfræði þá vann ég stutta samantekt með Ingu Þórs prófessor í næringarfræði um mataræði hjartasjúklinga. Þá var þetta algjörlega nýtt svið í næringarfræði og yfirleitt ekki tekið inn í ráðleggingar. Finnst gaman að hugsa til þess nú í dag þegar hollusta þessara efna er orðin viðurkennd. Það er ef til vill engin tilviljun að í dæmigerðum amerískum morgunverði með steiktu beikoni, pulsum og eggi er yfirleitt drukkinn appelsínusafi. Hið brasaða kjötmeti sem kemur af pönnunni er uppfullt af sindurefnum sem tilbúin eru til að ráðast á líkamann, ef ávaxtasafinn myndi ekki slökkva bálið. Þannig ætti reykingamaðurinn að vernda vefi sína með því að fá sér gulrætur, salatblað og ávaxtasafa eftir að hann er búin að láta reykmettað eitrið flæða ofan í lungnarásirnar. Það er áhugavert að spá í hverjar eru þarfir hvers og eins. Ráðleggingar ganga oft út á um 5 stykki af ávöxtum og grænmeti á dag. Það er líka áhugavert að hugsa um það að litarefni plantna myndast í mismiklu magni eftir því hversu geislunin (t.d. útfjólublá) er mikil inn í vistkerfið og því gæti verið æskilegt að borða fituleysanlegu litarefnin úr manns eigin umhverfi til að gefa hlutfallslega rétta vörn.

Ber


Þunglyndislyf gagnlítil

Þó þér þyki lífið erfitt er ekki þar með sagt að eitthvað sé að boðefnaframleiðslu þinni í heilanum. Í raun er ekkert sem segir að ævigangan eigi að vera sársaukalaus, sorgarlaus, áfallalaus. Það sem hefur gert okkur Íslendinga að heimsmeisturum í notkun þunglyndislyfja er sú staðreynd að við göngum öðrum framar í að meðhöndla blæbrigði lífsins sem sjúkdóma.

PillurÍ dag eru birtar niðurstöður rannsóknar í tímaritinu The Public Library of Science Medicine sem sýna að þunglyndislyf eins og t.d. Prozak eru gagnlítil nema hugsanlega í alvarlegustu tilvikum. Í seinasta mánuði hafði önnur grein í New England Journal of Medicine komist að hliðstæðri niðurstöðu. Þessar rannsóknir gefa tilefni til víðtæks endurmats á slíkri lyfjagjöf og áherslum í meðferð við þunglyndi og depurð.

Fjölmörg dæmi eru af jákvæðum áhrifum slíkra lyfja. En gera verður kröfuna um að þau skili meiri árangri heldur en ef ekkert hefði verið að gert og að þau geri meira heldur en þegar gefin er lyfleysa (placebo) til samanburðar. Flestir taka framförum án inngrips og trúin á að lyf virki (placebo) skilar oft miklum áhrifum. Nú hefur þessi viðamikla rannsókn sýnt að þau gera ekkert meira en það, nema hjá þeim sem eru allra veikastir og hafa röskun í boðefnaframleiðslu.

Við notum þessi lyf meira en aðrar þjóðir. Læknar hafa varið það með þeim hætti að hér sé vangreint vandamál eða sjúkdómur betur meðhöndlaður heldur en hjá öðrum þjóðum. Þessi gögn draga slíkt mjög í efa og benda einmitt til sóunar á gífurlega miklu fjármagni í gagnlitla meðferð. Auka þarf mikið áherslur á hugræna atferlismeðferð, tilfinningaþjálfun og hreyfingu sem lífstílstengd úrræði. Í þessar leiðir þarf að veita fjármagni. Að rjúfa félagslega einangrun og einmanaleika, ásamt aukinni hreyfingu og gleði hefur sýnt sig að geta stórminnkað notkun slíkra lyfja á öldrunarstofnunum.

Hér er áhugaverð grein geðlæknisins Dr Ken Gillman um hvernig lyfjaiðnaðurinn hefur leitt lækna og almenning inn á villigötur


Vatnið er grunnurinn

VatnMosi

Ef maður vill tæma hugann og upplifa hreinleika þá er fátt sem laðar betur fram þá tilfinningu en að hlusta á rennandi vatn. Mín fjallalind er Víðidalsá í Lóni, sem mér finnst öllum öðrum tærari. Þar hef ég oft fengið mér sundsprett með göngufélögum á sumrin ef það er sól og hlýtt í lofti. Áin er köld, að koma úr snjósköflum í nokkurra hundruð metra fjarlægð.

Mestu verðmæti okkar hér á landi er hið tæra vatn, þó að okkur finnist stundum óþarflega mikið af því falla af himnum ofan. Til forna skiptu menn grunneiningum heimsins í eld, loft, mold og vatn. Það er mikill sannleikur í því enn í dag. Það er eitthvað sérstakt við alla þessa fjölbreytni vatnsins. Við áttum á tímabili tvo Kanarífugla og þeir fóru alltaf að syngja þegar skrúfað var frá vatni eða að rigndi á þakið.

Vatn er einn besti svaladrykkurinn. Mikilvægt er að í skólum og fjölmennum vinnustöðum sé gott aðgengi að vatnshönum. Það er samt líkt og með margt annað að neysla vatns þarf að byggja á réttri vitund um þorsta. Þannig hefur komið í ljós að það skilar engum ávinningi að þamba einhverja 1-2 aukalítra á dag til að hreinsa líkama eða heilsueflingar. Allt hefur sitt jafnvægi.

 

VatnKlaki


Eitur eða unaður

Sykur eða glúkósi er aðgengilegasti orkugjafinn. Blóðsykur er einn aðalþáttur efnaskipta og er einn af áhrifaþáttum um svengd. Þar að auki er næmi á sætt bragð fremst á tungunni, þannig að þegar maðurinn rekur tungu í matvæli er mikilvægt að greina þau sem hafa sætt bragð.

Unnin sykurEn Adam og Eva voru ekki lengi í Paradís. Þannig geta flestar nautnir orðið að fíkn. Unnin sykur er hrá orka án næringarefna. Því er ráðlagt að neysla hans fari ekki fram yfir 10% af heildarorku. Hinsvegar sækist hin streitutengda óreiða hversdagsins eftir sykrinum, hinum aðgengilega orkugjafa.

Margir halda því fram að sykurfíkn sé vandamál sem þurfi að bregðast við. Ein birting fíknar er að nota efni til að hafa áhrif á líðan og tilfinningar. Allir þekkja það hversu örgeðja börn eru eftir að hafa fengið sælgæti. Sykurneysla hefur einnig slík áhrif á fullorðna þó að þeir geti betur temprað viðbrögðin.

Streituhormónið kortisól innleiðir pirring og vanlíðan og það kallar einnig á sykur. Meiri sykur í bland við meiri óreiðu og spennu. Þannig getur þróast vítahringur fíknar sem að er áhrifavaldur í þróun offitu. Því er slökun og kyrrð hugans tengd því að taka eftir bragði, upplifa og njóta á meðan stress einkennist af lítilli vitund og sækni í orkurík matvæli.

SmoothieLitið hefur verið til þess sem jákvæðrar breytingar á neysluvenjum barna og ungmenna að þau hafi aukið neyslu á mjólkurvörum. En var það áhugi á meira kalki eða hollum próteinum sem kallaði fram þessa auknu neyslu? Nei, hún náðist með því að breyta mjólkurvörum í sælgæti. Skyr.is eða hvað það helst heitir er með miklu magni af viðbættum sykri. Reyndar má það segja í heild um íslenska matargerð, að honum er víða laumað inn.

Nú höfum við fjölskyldan keypt okkur blandara og þar fara nú ofan í ber, ávextir, grænmeti og óunnar mjólkurvörur. Hver hágæða "smoothies" þykknidrykkur er galdraður fram. Það að prófa sig áfram með bragð og samsetningar eflir næmni og vitund. Maður nærir líkama og sál. Gerir sér eitthvað gott á skapandi hátt.

Með þessum hætti er hægt að gera kolvetnaneysluna að hollustu og unaði, í stað þess að vera óvirkur viðtakandi á matvælum með miklu innihaldi af unnum sykri, sem gefur skyndiorku en litla næringu. Það er í raun skondið að helstu "menningarstaðir" hvers hverfis í borginni skuli vera sjoppurnar. Afhverju ekki að setja upp staði sem bjóða upp á holla kolvetnaneyslu.


Kvefpestir

Kvef2Á þessum tíma árs valda kvefpestir og flensur röskun á daglegri rútínu. Í síðustu viku voru margir nemendur mínir fjarverandi vegna veikinda. Nú hef ég verið að berjast þessa baráttu með beinverki, þurran hósta og sáran háls. Hef búið nokkur ár erlendis og man ekki eftir því að kvefpestir væru að taka svona mikinn toll frá hversdaglegu amstri. Er tíðni og algengi eitthvað meira hér á landi? Allavega, ég hugga mig við það að þegar maður er búin að þrauka pestatímabilið, sem stendur nú yfir, að þá fer að verða stutt í vorið og að klakaböndin bresti.


Sakna selhreifa en hákarl er óætur

Á þessum tíma árs hámar landinn í sig úldin eða misjafnlega geðfelldan mat. Líkt og við skötuátið á Þorláksmessu telst það til hetjudáðar að koma ofan í sig vel rotnuðum líkamsleifum hákarls. Það hlítur að vera eitthvað að skynfærum fólks sem finnst hákarl eða skata vera góður matur. Innarlega á tungunni nemum við beiskt bragð og líka einkenni úldinnna eða eitraðra matvælia. Flestum er það eiginlegt að snúa af leið þegar slíkur matur er kominn innarlega í munnholið og skirpa leifunum út úr sér.

000097dtEn á Íslandi er sá siður að bíta á jaxlinn og rembast við að koma þessu ofan í sig og verða meiri maður á eftir. En í raun er þetta jafn vitlaust og að halda hendinni á heitri eldavélarhellunni eða að leika sér að því að snerta strenginn á rafmagnsgirðingu. Einhver þrá eftir kvalalosta. Það er nú þó hitt og þetta sem mér þykir ágætt af þorramat og í heildina er þetta hinn besti siður. Til dæmis næ ég að upplifa kikkið úr því að fá skot af ísköldu brenivíni. Finna uppvakningu og upptendrun alls búksins, þegar óþverrinn hríslast um mann. Fékk meðfylgjandi mynd lánaða af vefnum.

En eitt er það sem ég sakna sérstaklega úr hinu dýrslega hlaðborði. Það eru súrsaðir selhreifar. Þeir eru sérstakt lostæti. Ólst upp við að drjúgan hluta úr árinu væri til tunna af því góðmeti. Þar var langbestur dindillinn af selnum. Hann er svo feitur og góður súrsaður. Skítt með staðsetninguna og hlutverk hans á skepnunni. Svo minna hreyfarnir á hendur og putta. Þessu smjattaði maður á sem barn líkt og ungviðið nú á kjúklingaleggjum og brauðstöngum. 

Annaðkvöld stendur til að fara með og hitta á vinafólk í Hlégarði. Þar verður haldið Þorrablót dalbúa. Fyrir utan að treysta á að þar verði skemmtilegt samsafn af frumlegu og furðulegu fólki að þá má gera ráð fyrir að í kjölfarið verði þriggja til fjögurra skyrtna ball. Því þar verða Sigtryggur Bogomil Font ásamt Flís.


Blóm vikunnar Eyrarrós

Blogborder12Blóm vikunnar er Eyrarrós. Hún er algeng um mest allt land og vex einkum á áreyrum eða grýttum jarðvegi. Þessi teygði sig í átt til sólar þann 8. ágúst 2004 í skriðu stutt frá Stórahnausgili í Kollumúla, Stafafelli í Lóni. Að mæta einni slíkri rós í skriðu sem er jafn grófgerð eins og í þessu tilfelli, dregur svo skýrt fram andstæður náttúrunnar. Viðraði þá hugmynd að hún yrði þjóðarblóm við mér plöntufróðari menn, en þeim fannst að þrátt fyrir fegurðina að þá væri hún líka algeng á suðlægari slóðum og því ekki nógu íslenskt einkenni.

Blogg er fitandi

FyrirEftirÍ fyrsta skipti á ævinni er ég nokkrum kílóum of þungur. Ég hef alltaf verið 84 kg og ekki þurft að hafa áhyggjur af því þó að ég sletti úr svona hálfum rjómapela yfir morgunkornið. Nú er þetta allt í einu orðið meira. Ég er ákveðinn að láta ekki af rjómadrykkjunni. Það hefur heldur ekkert með það að gera að jólafríið sé nýbúið eða að ég sé kominn á þann aldur að kílóin læðist að manni, án þess að spyrja um leyfi. Búin að finna skýringuna - BLOGGIÐ ER FITANDI.

Frekar en að hætta að skrifa og lesa blogg, hætta í rjómanum, þá þarf bara að auka flæðið og dansinn með hækkandi sól. Já, ein skýringin gæti auðvitað verið að ég sé bara eins og gerist hjá mörgum spendýrum, t.d. hestum, að þeir bæta á sig smá einangrun til að standa af sér köldustu mánuðina. Allavega, til öryggis þá ætla ég að innleiða þá reglu að ég verði að hreyfa mig jafn mikið og ég dvel meðal vina netsins.


Stjórnleysi og stress er eitraður kokteill

VinnuálagÍ grein sem birtist í gær í European Heart Journal er sýnt fram á að vinnutengd streita er sterkur áhættuþáttur hjartasjúkdóma. Um er að ræða langtímarannsókn, The Whitehall Study, þar sem opinberir starfsmenn mættu endurtekið til skoðunar og mælinga. Meðal annars mat á því hvort að þeir hefðu stjórn á vinnuálagi eða væru í vinnu með miklar kröfur og tímapressu.

Samkvæmt rannsókninni eykur vinnuálag líkur á hjartasjúkdómum um tæp sjötíu prósent. En eftir er að sýna betur fram á hvaða þættir eru að verki í þessum tengslum. Tauga- og hormónakerfið, breytingar á lífsmynstri (reykingar, svefnleysi, hreyfingarleysi, óhollt mataræði) eða sem er líklegast að báðir þættir séu að verki.

Þessi rannsókn sýnir með meira afgerandi hætti en áður að streita hefur áhrif á líkamlega þætti og þróun hjarta- og æðasjúkdóma. Hægt er að nálgast greinina frítt á netinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband