Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Varmársamtökin 2ja ára

Þrátt fyrir að Varmársamtökin hafi ekki náð markmiði sínu um verndun Álafosskvosar og að beina umferð að nýju Helgafellsshverfi í annan farveg heldur en í gegnum útivistar- og verndarsvæðið meðfram Varmá, þá hafa þau haft veruleg áhrif og geta gegnt mikilvægu hlutverki til framtíðar. Í fyrsta lagi sér fólk hversu hratt sveitin er að breytast í borg með litlum kössum á lækjarbakka og í öðru lagi skynjar það mikilvægi þess að vandað sé til skipulagsvinnu. Meginþema aðalskipulags Mosfellsbæjar "sveit í borg" má ekki verða orðin tóm. Almenningur þarf að vera virkur og mótandi aðili um eigin umhverfi. Fyrir þessi gildi, mikilvægi útivistar, tengsl við náttúruna og þátttöku íbúa í mótun bæjarfélagsins, hafa Varmársamtökin staðið vaktina. 

Þann 8. maí eru tvö ár frá stofnun Varmársamtakanna og því við hæfi að halda framhaldsaðalfund samtakanna þann dag. Hann verður í Listasal Mosfellsbæjar í Kjarna og hefst kl. 20.30. Áður en aðalfundur hefst mun fulltrúi frá Mosfellsbæ segja frá undirbúningi að nýju miðbæjarskipulagi. Gert er ráð fyrir almennum umræðum um skipulagið að lokinni kynningu. Á dagskrá fundarins er tillaga að lagabreytingu og kosning í stjórn. Ljóst er að mörg áhugaverð verkefni eru framundan og mikilvægt að fjölmenna á fundinn. Einnig er nauðsynlegt að fá til stjórnarsetu dugmikið fólk, með hjartað á réttum stað, sem er tilbúið í að taka þátt í góðu flæði hugmynda og sköpunar, til eflingar mannlífs í Mosfellsbæ.


Alvöru jökladrama

Hvað er helst til ráða á jökli í snjóbyl, þegar leiðsögumaðurinn hefur fallið ofan í stóra sprungu, svarar ekki kalli og engin hreyfing er merkjanleg á línunni? Þesssari spurningu stóð ég frammi fyrir ásamt fimm öðrum ferðafélögum í 1450 m hæð á Öræfajökli í gær. Engin möguleiki var að ná símasambandi og láta hina ferðafélagana, sem voru tengdir saman á þremur öðrum línum, vita að við værum stödd í miklum vanda. En þeir höfðu  því miður orðið viðskila við okkur á leiðinni niður. Við höfðum gengið upp í 1700 m hæð á leið okkar á Hvannadalshnjúk, þar af fjóra tíma í skafrenningi og nokkuð sterkum vindi. Í þeirri hæð var ákveðið að snúa við þar sem það væri fullreynt að ekki væri fært á hnjúkinn að sinni.

Á leiðinni niður þá fara þrír hópar sem tengdir eru saman hver í sína línuna af stað og fjórða línan er örlítið á eftir. Þá hrasar ferðafélagi lítillega og við þurfum að stoppa og hinar tvær línurnar halda áfram og hverfa úr augsýn. Leiðsögumaðurinn var með gps tækið í bakpokanum og treystir á að hann sé á sama niðursporinu, en eftir rúmar tíu mínútur sé ég að þriðji, fjórði og fimmti maður frá mér eru sestir niður. Skafrenningurinn er það mikill að það er lélegt skyggni og erfitt að kallast á milli. Sá sem var næstur mér segist ekki vita hvað er um að vera. Eftir nokkurra mínútna biðstöðu ákveð ég að losa mig úr línunni til að kanna aðstæður, en ég var aftastur. Hélt helst að vandamálið snérist um að einhver hefði aftur dottið.

Þegar ég kom að þriðja ferðafélga á línunni sem áður hafði hrasað sagðist hún halda að eitthvað alvarlegt hafi gerst framar. Ég færi mig áfram meðfram línunni og spyr fjórða mann, sem veit ekki hvað er í gangi, sama er með fimmta mann. Þegar komið er að sjötta manni sést hvað hefur gerst. Framundan blasir við stór sprunga sem hefur opnast þvert á stefnu okkar. Sprungan er um tíu metrar á breidd og nokkurra metra haf yfir. Sjötti félagi á línu hafði kastað sér til hliðar svo hún færi ekki ofan í sprunguna líka. Við það hafði hún farið úr réttri átaksstefnu við tog línunnar ofan í sprunguna, en hafði náð öxinni af bakpokanum og barðist hetjulega við að halda sér fastri. Ég kallaði til félagana að færa sig til vinstri svo að togið frá línunni hjálpaði henni frá því að dragast líka ofan í sprunguna.

Þegar álagið hafði dreifst jafnt á félagana ákvað ég að ganga örlítið nær sprungunni og kalla nokkrum sinnum og heyrði ekkert svar. Ekki var heldur hægt að greina neitt líf með hreyfingum á hluta línunnar sem lá upp úr sprungunni. Ákvað að vissara væri að reyna að hringja í 112 og láta þá koma skilaboðum til hinna um að snúa við. En þá var ekkert samband. Spurði aðra hvort þeir væru með síma og fékk að prufa hjá einum, en þar náðist ekki heldur samband. Nú var mannskapurinn að verða kaldur og fáir góðir kostir. Ég fór til fimmta manns í línunni og kallaði til hinna að byrja að toga. Öskraði endurtekið 1, 2 og 3! Við mjökuðumst smáspöl, aftur smáspöl og aftur smáspöl. Þegar að nálgaðist að bilið að brúninni væri jafn langt og milli okkar hinna, þá vildi ég fara örlítið í átt að brúninni og kalla til leiðsögumannsins. En sú sem næstum hafði farið ofan í sprunguna bannaði mér að fara. Ég hafði einhvers staðar heyrt að erfiðast væri fyrir þann sem fellur ofan í sprungu að komast yfir brúnina.

Við héldum áfram þunganum á línunni. Eftir smástund sáum við leiðsögumanninn koma í augsýn skríðandi á fjórum fótum. Það var mikill léttir að sjá að hann væri á lífi og með meðvitund. Þegar hann er kominn um tvo til þrjá metra frá sprungunni þá staðnæmist hann og leggur höfuðið fram á handleggina ofan á snjóínn eins og í bænastöðu. Hann dvelur svona kyrr. Annaðhvort er léttirinn svona mikill eða að eitthvað er að. Ákveð að ganga í rólegheitum í attina til hans, tek yfir öxlina á honum og spyr hvort að hann sé óslasaður. Þá segir hann; "Þið hefðuð ekki átt að draga mig upp, þið hefðuð getað klippt mig í sundur á brúninni". Einmitt það sem að ég hafði haft áhyggjur af að væri vissara að kanna, hvort hann væri komin að brúninni og myndi svara. Hann hafði náð að vagga sér eins og selur yfir skörina. Þarna var leiðsögumaðurinn óslasaður og það var aðalmálið.

Nú var okkar vandi þó ekki allur leystur. Hann varð að skilja pokann eftir ofan í sprungunni og í honum var gps tækið. Ein af félögum í hópnum var með slíkt tæki, en það var nýlega keypt og hafði ekki verið látið safna staðsetningarpunktum yfir leiðina þegar við fórum upp. Í nokkra stund ráfuðum við í skafrenningnum til að sannfærast um rétta leið. Sáum síðan smá hrygg sem að við fórum niður eftir og þá lentum við inn á slóð. Sporin sáust ósljóst í snjónum eftir þá sem farnir voru á undan. Eftir nokkur hundruð metra göngu fór vindinn að lægja eftir því sem við komum neðar og færðumst út af ísbreiðunni. Í um 700 m hæð hittum við á tvo af hinum leiðsögumönnunum sem að voru snúnir til baka. Við höfðum tafist um tvo klukkutíma í okkar ævintýri miðað við hina hópana.

Vissulega voru það vonbrigði að ná ekki að komast á Hvannadalshnjúk, en í staðinn fengum við merkilega lífsreynslu og þjálfun í því að begðast við óvæntum aðstæðum. Í lokin var aðalfögnuðurinn að allir hefðu haldið lífi og limum. Ferðalangar voru sáttir við ferðina og við erum sannfærð um að það má af þessu sitthvað læra.

Survivors

Hópurinn fagnar þegar komið var niður í betra veður og búið að hitta á hina leiðsögumennina

ÍsmaðurinnÍsdrottning

Búin að taka sólgleraugu niður og losa um trefil frá andliti. Hann var orðinn nokkurra sentimetra klakabrynja. Sibba samkennari, sem næstum var farin í sprungu, með slatta af klakahröngli


Blóm vikunnar Maríustakkur

Maríustakkur er algengur um allt land nema ef vera skyldi á sumum svæðum inn á miðhálendinu. Til eru einnig nokkrar undirtegundir. Blómið er einnig nefnt daggarblaðka vegna þess að raki vill safnast á opin og bylgjótt blöðin. Á þessari mynd má einmitt sjá nokkra dropa. Marústakkur vex oft í grónum bölum og meðfram lækjum. Þessi planta var á grasbala innarlega í Hvannagili, Stafafelli í Lóni, í júlí 2005.

Þar sem nú er komið fram yfir fyrsta sumardag ætla ég að taka hlé yfir sumartímann í von um að allir sjái nóg af blómum á komandi vikum. Held áfram með haustinu að skipta vikulega um blómategund á toppi síðunnar.


"Fólk er búið að fá nóg"

Síðustu daga erum við búin að heyra endurtekið af "aðgerðaleysi" ríkisstjórnarinnar og jafnvel oftar hefur verið sagt "fólk er búið að fá nóg". En það er skrítið að fá nóg af þeim sem ekkert er sagður gera. Erum við ef til vill búin að fá nóg af góðærinu, eyðslunni og spennunni? Eru nýju trukkarnir sem fengnir voru með bílaláni orðnir of margir og samkeppnin það hörð að það er ekki rekstrargrundvöllur? Erum við það skuldsett að niðursveifla stuðlar að alls herjar rótleysi og taugaveiklun. Sennilega eigum við nóg af efnislegum gæðum?

Nú þurfum við að læra að lifa lífinu í jafnvægi og sátt. Ekki sveiflast frá því að vera þjóðin sem var fyrir áramót að kaupa upp Danmörku, Bretland og lönd um álfur allar og í þjóðina sem var eftir áramótin að stefna með alla banka landsins í gjaldþrot. Þetta eru merki um alvarlega taugaveiklun í þjóðarsálinni. Sennilega var skynsamlegast fyrir ríkisstjórnina að gera fátt og vera ekki þátttakandi í óróanum. Þannig gefst líka svigrúm til að við áttum okkur á því hvert og eitt að við berum ábyrgð.

Í löndum þar sem að er slíkt undirliggjandi óöryggi og misskipting verður áherslan á að efla lögregluna. En meðalið sem við þurfum helst og mun reynast best og mest er kærleikur og innri ró. Það á við jafnt um vörubifreiðastjóra sem eru "búnir að fá nóg" og víkingasveitir sem eru komnar með hátt hlutfall af einstaklingum sem hafa litla hæfni í mannlegum samskiptum en snöggir til að lenda í hasar. Af þeim sökum treystir almenningur ekki lögreglunni nægjanlega vel.

Kærleiksmiðstöðvar og skilningur væri betri sending en að efla lögreglustöðvar og valdbeitingu. Kirkjurnar gætu gegnt slíku hlutverki ef þaðan yrði miðlað margvíslegu mannbætandi starfi. Þar er trúlega of mikið klerkaveldi til að blómstri farvegur sjálfsprottins manngildis og ástúðar. Staður þar sem við getum glaðst án tilefnis, þar sem við getum þakkað fyrir að vera búin að fá nóg.


Gleðilegt sumar!

Fórum nokkur árlega línuskautareisu úr Mosó á Seltjarnarnes. Gaman er að festa þennan sið í sessi og hvet ég alla að skrá nú þegar í minnisbók næsta árs að hjóla, skauta, hlaupa Mosó-Nes. Línan. Ég og Guðfinnur bílasali styttum okkur reyndar leið í miðbæinn. Fannst ég geta komist upp með þetta, þar sem að gangan á Hvannadalshnjúk er næstu nótt, aðfaranótt laugardags.

Lína-MosóLína-SkúlagataLína-Victor


Ofbeldi elur af sér ofbeldi

Í landinu hafa hinar og þessar mælistikur efnahagslífs þróast á verri veg á síðustu vikum. Aðalvandinn fyrir heimilin er vaxtaokur. Flutningabílstjórar hafa því miður gengið of langt. Þeir hafa af einhverjum ástæðum ofmetnast af þeim stuðningi sem að mótmæli þeirra fengu í byrjun. Kröfur þeirra eru óljósar og illskiljanlegt að beina aðgerðum sínum gegn almenningi í umferðinni eða að lítilsvirða heimsókn leiðtoga úr stríðshrjáðu landi.

Mótmælin hafa nú staðið um nokkurt skeið og ekki hefur verið gripið inn í þessar aðgerðir. Sjónvarpið sýndi lögreglumenn í þessu tilfelli biðja bílstjóra að fjarlægja bílana og opna þessa mikilvægu samgönguæð eftir allnokkurn biðtíma. Það gekk ekki eftir. Þá var tilkynnt með fyrirvara að gripið yrði til aðgerða af hálfu lögreglu til að opna veginn. Tekið fram að piparúða yrði beitt. Þá sáust bílstjórarnir fara í bíla sína og sækja allskyns vökva, WD40 og fleira. Svona fíflagangur gefur Birni Bjarnasyni réttlætingu fyrir því að breyta samfélagi okkar í lögregluríki.


mbl.is Mótmælin fóru úr böndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Línan - Sumardaginn fyrsta

SkauthjólhlaupÁ sumardaginn fyrsta hefur myndast hefð fyrir því að fara milli Mosfellsbæjar og Seltjarnarness skautandi, hjólandi eða hlaupandi. Tekin smá upphitun undir góðum tónlistartakti fyrir brottför. Lagt af stað klukkan 10 að morgni frá Varmárlaug og endað í Seltjarnarneslaug. Farið eftir göngustígum norðan megin Mosfellsbæjar og Grafarvogs. Gert hádegishlé í Elliðaárdalnum og farið meðfram suðurströnd Reykjavíkur og út á Seltjarnarnes. Strengirnir látnir líða úr líkamanum í lauginni.

Helgarlagið Como Quieres Que Te Quiera

Held hér áfram að setja inn tengingu á myndbönd með lögum sem að hafa gripið mig í leit að suðrænni sveiflu á síðustu tveimur árum. Lagið þessa helgi er Como Quieres Que Te Quiera með Rosario Flores. Móðir hennar var þekkt á Spáni sem "flamenkó drottningin" fyrir söng sinn og faðir hennar innleiddi katalónska blöndu af rúmbu- poppi í þeim anda sem gert var alþjóðlega frægt af hljómsveitinni Gipsy Kings.

Rosario hefur unnið til verðlauna fyrir tónlist sína, sem er með áhrifum frá sigaunastíl og flamenkó tónlist, en hún er einnig þekkt fyrir leik sinn í kvikmynd Pedro Almadovar Talaðu við hana frá 2002.

 


Nýjan dagskrárstjóra

ÍslandEvrópa 

Það munar ansi miklu á yfirlýsingu Geirs Haarde frá því í gær um að upptaka evru og aðild að ESB komi ekki til greina og niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins í dag, þess efnis að tæp 70% íslensku þjóðarinnar vilja hefja umsóknarferli sem gæfi af sér drög að samningi til þjóðaratkvæðis.

 

Samfylkingin verður að standa fast á sínum stefnumálum sem að eru í miklum samhljómi við væntingar kjósenda. Í gær var flokkurinn með glæsilega ráðstefnu "kvótakerfi á krossgötum". Þar sem áhersla var á nauðsyn þess að taka tillit til niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í dag sjáum við muninn á stefnu forsætisráðherra gærdagsins og framtíðarsýnar þjóðarinnar í Evrópumálum.

 

Í báðum þessum málum þarf flokk sem að er eins afgerandi og mögulegt er. Þingflokkur og ráðherrar Samfylkingarinnar geta ekki látið eins og þau séu "innmúruð" í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru grundvallarmál þar sem jafnaðarmenn hafa unnið vel heimavinnuna. Ef eitthvað á að vera á dagskrá þá eru það þessi mál.

 

Það þarf einfaldlega að skipta um dagskrárstjóra, ef hann er með ómögulega efnisskrá. Lýðræðið og vilji kjósenda þarf að verða partur af prógramminu.


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir Esjuna

Lífið er að lifna úr vetrardvala og mannlíf að eflast í borginni við sundin. Fór í miðbæjarreisu í gærkvöldi til móts við nema úr Borgó sem voru með dimmision fagnað á Sólon. Rölti svo aðeins um miðbæinn og það var áberandi mikið af útlendingum. Tók meðal annars stutt spjall við Norðmenn og Bandaríkjamenn.

Þetta útstáelsi sem var vel fram yfir miðnætti var ekki að öllu leyti skynsamlegt. Planlögð var 22 km ganga upp á Þverfellshorn, á Hábungu, eftir hryggnum, niður Laufaskörð og Móskarðshnjúka. Fór til móts við göngufólk að bílastæðinu við Esju kl. 9. Ákveðið var að endurmeta gönguplön í ljósi þess að trúlega væri mikill snjór í Laufaskörðum og vandræði að þurfa að snúa til baka eftir langa göngu.

Um næstu hlegi á laugardegi verður gengið á Hvannadalshnjúk. Hópurinn er nú orðinn 15 manns. Sjö af þeim fóru á Esjuna, en einn fór aðeins upp að steininum og til baka. Aðrir héldu áfram og upp úr klettabeltinu og upp á háhrygginn þannig að útsýni opnst til norðurs og vesturs.

Ákveðið var að fara ekki til hægri um Hábungu til Laufaskarða og Móskarðshnjúka, heldur til vinstri og fara norðan Kerhólakambs niður á Kjalarnesið og koma niður af fjallinu um kílómeter norðan við Grundarhverfi.

Gangan gekk vel þó að enn væri töluverður snjór í yfir 600 m hæð og þar neðar tækju við aurbleytur á köflum. Farið var í um 850 metra hæð, gengið um 14 km á sex tímum. Göngufólk var sannfært um að allir væru tilbúnir fyrir hæsta fjall landsins.

Veðurspá Sigga storms um mikla sólartíð föstudag og laugardag gekk ekki alveg eftir þó veðrið væri mjög gott. Mikið var af fólki á göngu í Esjunni. Meðal annars rákumst við á fleiri að þjálfa sig fyrir hnjúkinn. En eftir að við vorum komin upp á Þverfellshornið mættum við engum og sáum ekki nokkurn mann.

Esjuganga


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband