Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
18.4.2008 | 18:13
Á skóli fyrst og fremst að vera skemmtilegur?
Unglingarnir okkar, sem hafa athyglina í tónhlöðunni, tölvuleikjum, kvikmyndum, tónleikum, böllum, gera það skilyrði að allt sem þau taka sér fyrir hendur uppfylli öll helstu viðmið um skemmtilegheit. Þau eru iðulega ofdekruð eða á að segja spillt, af eltingarleik okkar eftir veraldlegum gæðum og tímaleysi foreldrana til að virkja þau inn í metnaðarfull verkefni. Þessi kynslóð hefur þó fleiri tækifærum úr að moða en nokkur önnur, sem Ísland hefur alið.
Rótleysi samfélagsins skapar hinsvegar þörfina fyrir endalausar flugeldasýningar tilfinningalífsins. Nemandinn mætir með þær væntingar að skólinn sé með skemmtiefni daginn út og inn. Það að nemendur nái aukinni færni eða skilningi á eðli og fyrirbærum náttúrunnar verður aukaatriði. Á endanum gefum við öll eftir í kröfum og skólinn fer að verða eins og dagvistun. Þannig bendir margt til þess að hlutur raungreina innan fjölbrautakerfisins sé að verða óviðunandi undirbúningur að háskólanámi.
Nú er otað að stórum hluta ungmenna tækifærum sem þau nýta sér ekki. Allur útbúnaður í húsnæði og tækni til kennslu er til fyrirmyndar. Á háskólastigi eru fjöldi greina í raunvísindum, verkfræði, heilbrigðisvísindum og íþróttafræðum þar sem færni og þekking í raungreinum kemur að góðum notum. Nemar hafa aftur á móti tilhneigingu til að safnast fyrir í félagsgreinum af því að þær eru sagðar léttar og skemmtilegar. En á sama tíma eru þau búin að fækka tækifærum til háskólanáms.
Sveitungar mínir Kvískerjabræður náðu einstakri færni í tungumálum og náttúruvísindum í mikilli einangrun með útvarp og bækur sem einu kennslutækin. Í kyrrð og þögn sveitabúskaps var það umbun allri annarri æðri að ná betri tökum á lærdómi af ýmsum sviðum. Það var nægjanleg skemmtun ein og sér að skilja ferðir farfugla eða framgang jökla. Þeir bjuggu sér til tækifæri úr engu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.4.2008 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.4.2008 | 01:12
Að vera eðlilegur
Skil mjög vel að karlar hafi áhuga á konum. Ekki síður að þeir hafi stundum áhuga á að sjá þær naktar. Skil hinsvegar ekki þá sem tala af óvirðingu til kvenna, né þá sem taka þátt í að greiða fyrir dans eða afnot af kvenlíkamanum. Skil vel femínista sem berjast gegn öllum aðstæðum þar sem konur eru þvingaðar til athafna í nafni fjármagns. Skil hinsvegar ekki að þær mæti ekki aðstæðum af opnari huga og telji ætíð að þær séu réttbærar til að dæma. Skil ekki að þær ætli öllum körlum að vera mögulegir ofbeldismenn. Með því setja þær málin í gagnslausan stríðsrekstur, án umbóta og skilnings.
Kynvíddin verður ekki afgreidd með rökræðum menntakvenna. Þar eru tilfinningar og innbyggð líffræðileg ferli sem móta hugsanir og hegðun. Því þarf að efla skilning á eðli og ástæðum tilhneiginga okkar og hvata. Karlar þurfa að axla ábyrgð á sínum veruleika, væntingum og þrám. Þannig að þeir finni skynsamlegri farveg en að vera að pukrast á karlakvöldum undir einhverjum dónabröndurum. Ekki er heldur hægt að ætlast til þess að þeir fari að tjá sínar upplifanir samkvæmt einhverri rökrás femínista. Það verður að gefa körlum svigrúm að vera kynverur á eigin forsendum, en án þess að í því felist réttur til að sýna öðrum virðingarleysi.
Þetta eru svona hugrenningar í framhaldi af færslu um "frjósemisdansa". Ég fékk viðbrögð við þeim skrifum á báða vegu, sem ég er ánægður með. Hörðustu karlarnir vilja fá að gera hvað sem er og hörðustu konurnar vilja ekki leyfa körlum að hafa neinar meiningar um þessi mál. Segi iðulega hvað mér finnst án þess að það sé eftir flokkslínum eða að ég hugsi mikið út í það hvað ég eigi að segja miðað við stétt og stöðu. Því geta fylgt ókostir til skamms tíma litið, en það skilar sér að lokum að vera bara blátt áfram og ...... eðlilegur!
Lífstíll | Breytt 20.4.2008 kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.4.2008 | 23:53
Blóm vikunnar Ólafssúra
15.4.2008 | 18:45
Frjósemisdansar í Mosó
Amma sagði eitt sinn við mig þegar ég var strákur, að ekkert væri fegurra en kvenlíkaminn. Þá var Bjarni Fel að lýsa listdansi á skautum. Man að ég varð hugsi. Fannst það vera skrítið að hún tiltæki sérstaklega líkama kvenna, en ekki karla, þegar hún hugsaði um fegurð. Hún væri jú kona. En sennilega er hægt að tengja mýkt, dulúð og hinn seiðandi kraft einvörðungu við hin líkamlegu form kvenna. Það er engin synd að viðurkenna þessa staðreynd. Það má dást að slíkri fegurð jafnt og annarri fegurð.
Hef verið með hesta í Mosfellsbæ í 15 ár en hef aldrei verið boðaður á karlakvöld hestamannafélagsins Harðar. Sennilega er ég of mikil kerling! En félagar mínir þarna eru búnir að kynda elda kröftugrar umræðu um nektardans sem að er fastur liður að hafa sem lokaatriði. Þeir eru gerðir ábyrgir fyrir mansali og kúgun kvenna, ásamt því að vera sakaðir um að breytast þarna einu sinni á ári úr virðulegum fjölskyldufeðrum í slefandi klámhunda.
Sú ímynd hangir við hestamenn að geta gengið glannalega um gleðinnar dyr. Hestar, konur og vín. En ef til vill snýst þetta mál um tvennt. 1) Var dansinn ætlaður til að vekja kynóra þannig að hægt sé að líta á að farið hafi verið út fyrir siðferðileg viðmið? 2) Var einhver þvingaður til að gera eitthvað sem að hann vildi ekki? Hefur einhver karl sem var þarna eða dansarinn móral. Að þeir hafi gert eitthvað siðferðilega rangt. Það er besta mælistikan.
Í Mosfellsbæ liggja mörg tækifæri og ef til vill er hægt að gera skrautlegar hestasýningar þar sem vaskir riddarar ná fram sínum besta góðgangi í hringnum undir seiðandi dansi fagurra meyja. Það er ekki hægt að líta framhjá því að dans með áherslu á kvenleika er hluti af menningu flestra þjóða. Við þurfum að geta haft slíkt í okkar kúltúr án þess að tengja það sektarkennd eða skömm. Fáum samba drottningar og magadansmeyjar til samstarfs um að gera næsta stórmót Harðar sem líflegast.
Harðir á strippinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.4.2008 | 23:05
Fallegur hægri piltur
Auðvitað er Berlusconi endurkjörinn út á fegurðina eina og ætlar að taka nokkrar sætar hægri stelpur með sér í ríkisstjórn. Ítölsk pólitík er engu lík. Veit ekki hvaða málefni Berlusconi stendur fyrir, önnur en þau að halda stöðu sinni og ríkidæmi.
Myndin er af Silvíó og konu hans Veróniku eftir að hún hafði krafist þess að hann bæðist afsökunar á ummælum sínum við aðrar konur. Meðal annars "ef ég væri ekki giftur myndi ég giftast þér samstundis" og "með þér færi ég hvert sem er".
Nýlega ráðlagði hann konu með fjárhagsáhyggjur að gisftast syni sínum. Síðan toppaði hann eigin yfirlýsingar í síðustu viku með því að flokka konur til hægri og vinstri með tilliti til fegurðar. En nú er hann byrjaður að finna til ábyrgðar.
Finn til ábyrgðar" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.4.2008 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2008 | 17:41
Vorið kemur á morgun
Haft er eftir Árna Sigurðssyni veðurfræðingi og nágranna mínum í blaði nú um helgina að vorið komi með hlýrri suðrænum vindum á þriðjudag, sem sagt á morgun. Hann er fjalltraustur maður þannig að við getum farið að gera okkur klár fyrir betri tíð með blóm í haga. Er reyndar ekki viss um að hann hafi verið að lofa sumri heldur vísaði hann til þess að þessi hlýji loftmassi séu fyrstu merki um að vorið sé að koma. Blaðamaðurinn rúnnar síðan aðeins frásögnina og fréttin verður "Vorið kemur á þriðjudag".
12.4.2008 | 22:27
Heiðarhorn
Þriðja fjall í undirbúningi fyrir Hvannadalshnjúk afgreitt. Hvílíkur dagur! Sólskin, stillt veður og frábært útsýni til allra átta. Heiðarhorn sem er hæsta fjallið (1.054 m) í Skarðsheiði. Bílum var lagt skammt frá Efra-Skarði í Svínadal. Gengið var upp dal með Skarðsá og Skarðshyrnu á vinstri hönd. Áfram upp á brún Skarðsheiðar í 600-700 m hæð og þá opnaðist sýn á Heiðarhornið.
Framundan var síðasti og erfiðasti kaflinn á sjálft hornið. Samfelld snjóbreiða og harðfenni í hlíðinni. Þar kom sér vel ísöxin sem ég kippti með frá Árna veðurfræðingi, fjallamanni og nágranna á Reykjaveginum. Í tuttugu mínútur gekk ég fyrstur og slóst við harðfennið með hæl og öxi. Loks náðum við út á öxlina, þar sem varð grýttara og minni hliðarhalli.
Þarna opnaðist stórkostlegt útsýni til vesturs og norðurs. Áður höfðum við séð langt til suðurs og austurs. Meðal annars yfir Hvalfjörð og til Skjaldbreiðar. En nú opnaðist sýn yfir Hafnarfjall til Snæfellsjökuls og norður til Eiríksjökuls. Útsýnið af Heiðarhorni var ótrúlegt og það var ágæt tilfinning að afgreiða þetta fjall sem að er sléttur helmingur af hæð Hvannadalshnjúks.
Þakka skapara alls auðmjúklega fyrir fagran dag - Þúsund þakkir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2008 | 23:46
Helgarlagið Ishq Kameena
Indversk kvikmyndagerð er stundum kennd við Bollywood, enda sumar kvikmyndir þeirra með svipuðum glamúr og í vestrinu. Hef stundum hrifist af lögum með orkumiklum og óreiðukenndu yfirbragði. Rakst á lagið Ishq Kameena fyrir fimm árum síðan og tók ég stundum orku og gleðidans með syni mínum og vinum hans. Í Furubyggðinni þar sem við bjuggum þá var mikið pláss í stofu og holi. Þar var slett úr klaufunum undir þessu lagi með hátt í tíu gaurum úr hverfinu.
Prófaði svo að leita upplýsinga um lagið og þá kom í ljós að það var úr kvikmyndinni Shakti; The Power. Þetta lag er sagt vera sett sérstaklega inn til þess að "sykra" myndina, þar dansar einn þekktasti Bollywood leikarinn, hjartaknúsarinn Shah Rukh fremst í hópi karla á móti hinni glæsilegu Karisma Kapoor. Ef við slökum á okkar eigin viðmiðum hvað sé menning og setjum okkur í Bollywood stellingar nokkrar mínútur, þá má hafa gaman af flottum dansi og krafti tónlistarinnar. Tímamótaverk!?
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2008 | 17:58
Eru Laugvetningar Framsóknarmenn?
Á Laugarvatni horfir Jónas frá Hriflu yfir staðinn. Í ML man ég samt ekki eftir að nokkur maður gengist við því að vera Framsóknarmaður, enda töldu menn sig á leið inn í framtíðina. Bjarni Harðar fór síðan og tók sagnfræði og þjóðfræði. Komst að því að fortíðin væri framtíðin og gerðist Framsóknarmaður. Samúel Örn var íslandsmeistari í blaki og ekki tengdi maður þennan kvennaljóma við flokk neftóbaksklútanna. Nú virðast mál vera að skipast þannig að ML-ingar eru hver á eftir öðrum að koma út úr skápnum og birtast á þingi sem framarar.
En er það áhugavert hlutskipti okkar sveitapilta og stúlkna sem fórum á Laugarvatn að halda lífinu í Framsóknarflokknum. Samfylkingin er búin að fylla stöðuna sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur og fátt sem bendir til að Framsóknarflokkurinn eigi sóknarfæri í þéttbýlinu við Faxaflóa. Einnig er stór hluti íbúa á landsbyggðinni ósáttur við flokkinn. Kenna honum um kvótakerfin til sjós og lands sem séu meginafl hinnar miklu byggðaröskunar og skerðingar á athafnafrelsi. Því eru atkvæðin sem voru í fastri áskrift á landsbyggðinni líka horfin.
Ég óska fulltrúum Laugvetninga í framvarðasveit þjóðar alls hins besta, á sama tíma og ég er sannfærður um að framtíð flokks þeirra er langt frá því að vera björt. Flokkurinn færðist í gegnum áratugina frá því að hafa trausta samfélagslega skírskotun í það hlutverk að vera atvinnumiðlun, en núna þegar þeir hafa ekki lengur fingur á valdataumum þá er leitin að erindinu fálmkennd og örvæntingarfull.
Nýtur hverrar mínútu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.4.2008 | 00:11
Blóm vikunnar Skógarflétta
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)