7.5.2008 | 21:06
Aftur appelsínugulur
Það er gaman að sjá að símafyrirtæki undir merkinu Tal er komið aftur á markaðinn. Þar hafa sameinast fyrirtækin Sko (áður BTnet) og Hive. Þau hafa haft áhrif til verulegrar lækkunar á farsímamarkaði og nettengingum. Hef verið með nettengingu með ótakmörkuðu niðurhali og hröðum gagnaflutningi á 3.900 kr. sem voru og eru ein bestu kjörin. Nú hafa þeir bætt við heimasíma og gemsapakka fyrir 1000 kr. í viðbót. Frítt er að hringja milli allra heimasíma í þessum pakka og frítt í þrjá vini úr gemsa. Bíður einhver betur?
Fannst Tal vera flott og ferskt fyrirtæki undir forystu Þórólfs Árnasonar á sínum tíma. Var þar með gemsann og varð hálffúll þegar þessu var breytt í Og Vodafone. Appelsínuguli liturinn innsiglar síðan ímynd ferskleika og framfara. Hef væntingar til þessa nyja fyrirtækis og megi tilkoma þess verða neytendum til heilla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.5.2008 | 23:26
Bókstafurinn
Það er merkilegt að lesa skrif íhaldsmanna sem leitast við að túlka stjórnasáttmálann á þann veg að hann hindri undirbúning að aðildarviðræðum við ESB. Nú ef það er einhver glufa í þeim sáttmála, þá er bara vísað í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Fátt er nú þeim bókstaf æðra og sannara!
Ætli það standi ekki stjórnarsáttmálanum að það verði áframhaldandi góðæri en síðan koma þrengingar. Má nokkuð bregðast við niðursveiflu í efnahagslífinu af þeirri einföldu ástæðu að uppskriftina er ekki að finna í stjórnarsáttmálanum eða stefnu Sjálfstæðisflokksins?
Framsóknarflokkurinn hefur víðsýni til að taka Evrópumálin út úr því ferli að vera ýmist með aðild undir forystu Halldórs eða á móti aðild undir forystu Guðna. Við verðum að fara að marka vinnuferlið undir slíkum lýðræðislegum formerkjum en ekki bókstafstrú eða flokksræði.
Hugmyndir Framsóknarflokksins ganga út á að fara út í póstkosningu líkt og Samfylkingin gerði og láta niðurstöðu hennar verða hina opinberu stefnu flokksins. Þetta liðkar fyrir lýðræðinu. Sjálfstæðisflokkurinn þarf líka að ná sér út úr bókstafstrúnni og virða vilja meirihluta flokksfélaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.5.2008 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.5.2008 | 11:45
Tik, tak, tik, tak
Nú styttist í að ríkisstjórnin þurfi að greina frá viðbrögðum sínum við úrskurði mannréttindanefndar SÞ vegna löggjafar um stjórn fiskveiða. Einungis um mánuður er til stefnu. Sjálfstæðisflokkurinn er í vanda með þetta mál og gæti á kurteislegum nótum gert lítið úr inntaki þess í heild. Þar reynir á að Samfylkingin selji ekki málefnastöðu sína fyrir ráðherrastólana.
Það að Guðni Ágústsson geri sér grein fyrir því að það er ekki hægt að standa gegn vilja 70% þjóðarinnar um aðildarviðræður að ESB sýnir að hann hefur skynbragð á það hvernig klukkan slær. Á sama tíma kemur Geir Haarde endurtekið fram eins og sendiboði yfirsiðameistara á Svörtu loftum og segir að málið sé ekki á dagskrá. Þar reynir á að Samfylkingin selji ekki málefnastöðu sína fyrir ráðherrastólana.
Á nokkrum mánuðum breyttist íslenskur efnahagur úr ævintýri í þrengingar. Vaxtaokur og lánsfjárskortur gera fyrirtækjum og fjölskyldum erfitt fyrir. Davíð segir að fólk hafi farið óvarlega í fjármálum og Geir segir að fólk eigi að keyra minna. Margt bendir til að þróun verði áfram á verri veg næstu misseri. Jafnvel þó ráðamenn geri fátt, þurfa þeir að eiga samræður við fólk um vanda heimilanna í landinu. Þar reynir á að Samfylkingin selji ekki málefnastöðu sína fyrir ráðherrastólana.
Ingibjörg Sólrún verður sem formaður Samfylkingarinnar, á þessum tímapunkti, að gera hlé á ferðum sínum til landa nær og fjær og huga að innviðum flokks og samfélags. Okkur vantar forystumenn sem tala inn í vitund þjóðarinnar og gefa okkur tilfinningu um að þeir viti hvað þeir gjöra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.5.2008 | 21:05
Möppudýr
Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið í burðarliðnum um allnokkurt skeið. Margt bendir til að fæðingin geti orðið erfiðari en gert var ráð fyrir. Því það gleymdist að hugsa það til enda hverjir ættu að vera hagsmunir landeigenda í þessu samhengi. Komið hefur verið á flókinni stjórnsýslu, þar sem hver silkihúfan er sett yfir aðra. En landeigendur eru hvergi með í ráðum eða að það sé gert ráð fyrir því að þeir séu mótandi og gerandi aðilar. Ef að þessi hugsun um að kaupa ekki eignarlönd en vilja ná þeim undir þjóðgarðinn á að ganga upp, þá verður að gera samninga um náttúruvernd við landeigendur í líkingu við þá sem gerðir hafa verið við bændur varðandi skógrækt.
Ég hef verið tvístígandi hvort það séu fleiri kostir en gallar við að taka þátt í þessu verkefni. Stafafell í Lóni hefur verið skipulagt af landeigendum sem útivistar- og verndarsvæði. Það vantar fjármagn til uppbyggingar. En er framsal sjálfstæðis og ákvarðanatöku of mikið. Er þetta endanlegt afsal eða er hægt að gera samning til 20-30 ára og segja honum upp ef reynslan er slæm. Æskilegast væri að hafa samvinnu við ríkið en hafa svigrúm til að vera gerendur og ráðandi. Þannig er þetta að nokkru hliðstætt vangaveltum um kosti og galla við þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi.
Hitti áðan á reynslubolta í náttúruverndarmálum og prófessor í líffræði. Farið var að ræða um Hornstrandir og friðlýst svæði í framhaldi. Þá skelti ég á hann þeirri spurningu hvort að hin landmikla jörð Stafafell í Lóni og þar með það svæði sem síðustu árin hefur kallast Lónsöræfi, ætti að verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Lýsti áhyggjum landeigenda þess efnis að sjá sig áhrifalausa í þessu ferli. Þá var hann snöggur til svars og sagði; "Það er verið að hlaða undir möppudýr". Hér talar maður með áratugareynslu af þessum málaflokki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.5.2008 | 15:44
Byggingarmat
Fékk í morgun Kristinn Hugason fyrrverandi hrossaræktarráðunaut til að koma og vera með forskoðun á byggingu kynbótahrossa. Þó hann sé ekki allra í hrossaræktinni þá er hann mjög góður í þessu, skemmtilegur og gefur raunsætt mat. Ég mætti með tvö trippi merina Sælu frá Stafafelli og stóðhestsefnið Topp frá Stafafelli. Þau tilheyra bæði vindóttu ræktinni minni. Merin móálótt og hesturinn bleikálóttur. Hafa bæði "sebra" þverrákir á fótum.
Merin fékk 8 fyrir höfuð, 8 fyrir háls, 7,5 fyrir bak, 8 fyrir samræmi, 8 fyrir fótagerð, 7,5 fyrir réttleika, 8,5 fyrir hófa og 7 fyrir prúðleika. Þetta gerir um 8 í heildareinkunn. Margt er enn óljóst með hestinn enda er hann bara þriggja vetra. Hann mætti vera stærri og bolléttari. En hver veit nema að hann taki vaxtarkipp núna þegar græna grasið er komið í haga. Hann var hjá 12 merum að Svínhóli í Dalasýslu síðastliðið sumar.
Íslenskir hestalitir eru einstakir að fjölbreytileika og er rétt að minnast starfs Friðþjófs Þorkelssonar í að taka myndir fyrir plaköt með hestalitum og skrifa um litaafbrigði. Hann lést nýlega. Mig langar að gera eina Mendelska tilraun síðsumars. Hún væri fólgin í því að fá nokkrar brúnar merar í hólf til Lokks. En brúnt er í raun að tjá engan lit nema grunnlitinn. Ef stóðhesturinn er arfhreinn þá ættu öll folöldin að vera vindótt undan brúnum merum. Ef ég skil erfðirnar rétt.
2.5.2008 | 00:51
Aldingarður
Fór á hlöðuball í Laxnesi í gærkvöldi. Feikifjör og mikið dansað. Ingólfur Kristjánsson læknir á Reykjalundi hefur skipulagt þetta í nokkur ár. Hann er þar með eigin hljómsveit sem spilar undir balli eftir að mannskapurinn hefur fengið sér súpu. Riðið var fram og til baka á skemmtunina. Það var engu líkt að fara á þeysireið í myrkri undir stjörnubjörtum himni í nótt. Bætti svo um betur og reið í dag á móti Fáksmönnum sem komu í kaffihlaðborð í Mosfellsbæ. Ljómi minn stóð sig vel.
Á fögrum vordegi eins og í dag þá vaknar löngunin að hefjast handa í garðinum. Hér á Reykjaveginum er mikið verk að vinna. Verðlaunagarður bæjarins frá 1989. Mikið af tegundum sem gaman er að læra meira um. Það er gefandi að hafa slíkan garð í góðri umhirðu, en honum hafði ekki verið nægjanlega sinnt um árabil. Þessir tugir tegunda minna á hverjum degi á fjölbreytileika lífsins. Líffræðilegur breytileiki er stærsta gjöf skaparans og ábyrgð mannsins er mikil að ganga ekki þannig fram að honum sé ógnað.
Þessi garður hefur vakið hjá mér áhuga á berjarækt. Við fluttum inn síðsumars fyrir tveimur árum og þá var mikið af stikilsberjum. Mér fannst þá strax yndisauki að fá mér nokkur ber þegar á leið í vinnu að morgni dags eða að koma heim að kvöldi. Berjategundirnar eru nokkrar í garðinum og langar mig að fjölga þeim. Spennandi að eiga mismunandi sultutegundir og jafnvel vín þegar hausta tekur. Kirsuberjatréð í garðinum blómstrar alltaf, en það gefur ekki af sér ber. Veit ekki hvort það er algilt hér á landi.
Síðan erum við með garðhús þar sem að eru rósir, eplatré og vínberjaplanta. Áætlað er að lagfæra það hús, þannig að það verði í senn gróðurhús og vinnustofa leirkerasmiðsins og málarans á heimilinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.4.2008 | 17:49
Varmársamtökin 2ja ára
Þrátt fyrir að Varmársamtökin hafi ekki náð markmiði sínu um verndun Álafosskvosar og að beina umferð að nýju Helgafellsshverfi í annan farveg heldur en í gegnum útivistar- og verndarsvæðið meðfram Varmá, þá hafa þau haft veruleg áhrif og geta gegnt mikilvægu hlutverki til framtíðar. Í fyrsta lagi sér fólk hversu hratt sveitin er að breytast í borg með litlum kössum á lækjarbakka og í öðru lagi skynjar það mikilvægi þess að vandað sé til skipulagsvinnu. Meginþema aðalskipulags Mosfellsbæjar "sveit í borg" má ekki verða orðin tóm. Almenningur þarf að vera virkur og mótandi aðili um eigin umhverfi. Fyrir þessi gildi, mikilvægi útivistar, tengsl við náttúruna og þátttöku íbúa í mótun bæjarfélagsins, hafa Varmársamtökin staðið vaktina.
Þann 8. maí eru tvö ár frá stofnun Varmársamtakanna og því við hæfi að halda framhaldsaðalfund samtakanna þann dag. Hann verður í Listasal Mosfellsbæjar í Kjarna og hefst kl. 20.30. Áður en aðalfundur hefst mun fulltrúi frá Mosfellsbæ segja frá undirbúningi að nýju miðbæjarskipulagi. Gert er ráð fyrir almennum umræðum um skipulagið að lokinni kynningu. Á dagskrá fundarins er tillaga að lagabreytingu og kosning í stjórn. Ljóst er að mörg áhugaverð verkefni eru framundan og mikilvægt að fjölmenna á fundinn. Einnig er nauðsynlegt að fá til stjórnarsetu dugmikið fólk, með hjartað á réttum stað, sem er tilbúið í að taka þátt í góðu flæði hugmynda og sköpunar, til eflingar mannlífs í Mosfellsbæ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.4.2008 | 18:18
Alvöru jökladrama
Hvað er helst til ráða á jökli í snjóbyl, þegar leiðsögumaðurinn hefur fallið ofan í stóra sprungu, svarar ekki kalli og engin hreyfing er merkjanleg á línunni? Þesssari spurningu stóð ég frammi fyrir ásamt fimm öðrum ferðafélögum í 1450 m hæð á Öræfajökli í gær. Engin möguleiki var að ná símasambandi og láta hina ferðafélagana, sem voru tengdir saman á þremur öðrum línum, vita að við værum stödd í miklum vanda. En þeir höfðu því miður orðið viðskila við okkur á leiðinni niður. Við höfðum gengið upp í 1700 m hæð á leið okkar á Hvannadalshnjúk, þar af fjóra tíma í skafrenningi og nokkuð sterkum vindi. Í þeirri hæð var ákveðið að snúa við þar sem það væri fullreynt að ekki væri fært á hnjúkinn að sinni.
Á leiðinni niður þá fara þrír hópar sem tengdir eru saman hver í sína línuna af stað og fjórða línan er örlítið á eftir. Þá hrasar ferðafélagi lítillega og við þurfum að stoppa og hinar tvær línurnar halda áfram og hverfa úr augsýn. Leiðsögumaðurinn var með gps tækið í bakpokanum og treystir á að hann sé á sama niðursporinu, en eftir rúmar tíu mínútur sé ég að þriðji, fjórði og fimmti maður frá mér eru sestir niður. Skafrenningurinn er það mikill að það er lélegt skyggni og erfitt að kallast á milli. Sá sem var næstur mér segist ekki vita hvað er um að vera. Eftir nokkurra mínútna biðstöðu ákveð ég að losa mig úr línunni til að kanna aðstæður, en ég var aftastur. Hélt helst að vandamálið snérist um að einhver hefði aftur dottið.
Þegar ég kom að þriðja ferðafélga á línunni sem áður hafði hrasað sagðist hún halda að eitthvað alvarlegt hafi gerst framar. Ég færi mig áfram meðfram línunni og spyr fjórða mann, sem veit ekki hvað er í gangi, sama er með fimmta mann. Þegar komið er að sjötta manni sést hvað hefur gerst. Framundan blasir við stór sprunga sem hefur opnast þvert á stefnu okkar. Sprungan er um tíu metrar á breidd og nokkurra metra haf yfir. Sjötti félagi á línu hafði kastað sér til hliðar svo hún færi ekki ofan í sprunguna líka. Við það hafði hún farið úr réttri átaksstefnu við tog línunnar ofan í sprunguna, en hafði náð öxinni af bakpokanum og barðist hetjulega við að halda sér fastri. Ég kallaði til félagana að færa sig til vinstri svo að togið frá línunni hjálpaði henni frá því að dragast líka ofan í sprunguna.
Þegar álagið hafði dreifst jafnt á félagana ákvað ég að ganga örlítið nær sprungunni og kalla nokkrum sinnum og heyrði ekkert svar. Ekki var heldur hægt að greina neitt líf með hreyfingum á hluta línunnar sem lá upp úr sprungunni. Ákvað að vissara væri að reyna að hringja í 112 og láta þá koma skilaboðum til hinna um að snúa við. En þá var ekkert samband. Spurði aðra hvort þeir væru með síma og fékk að prufa hjá einum, en þar náðist ekki heldur samband. Nú var mannskapurinn að verða kaldur og fáir góðir kostir. Ég fór til fimmta manns í línunni og kallaði til hinna að byrja að toga. Öskraði endurtekið 1, 2 og 3! Við mjökuðumst smáspöl, aftur smáspöl og aftur smáspöl. Þegar að nálgaðist að bilið að brúninni væri jafn langt og milli okkar hinna, þá vildi ég fara örlítið í átt að brúninni og kalla til leiðsögumannsins. En sú sem næstum hafði farið ofan í sprunguna bannaði mér að fara. Ég hafði einhvers staðar heyrt að erfiðast væri fyrir þann sem fellur ofan í sprungu að komast yfir brúnina.
Við héldum áfram þunganum á línunni. Eftir smástund sáum við leiðsögumanninn koma í augsýn skríðandi á fjórum fótum. Það var mikill léttir að sjá að hann væri á lífi og með meðvitund. Þegar hann er kominn um tvo til þrjá metra frá sprungunni þá staðnæmist hann og leggur höfuðið fram á handleggina ofan á snjóínn eins og í bænastöðu. Hann dvelur svona kyrr. Annaðhvort er léttirinn svona mikill eða að eitthvað er að. Ákveð að ganga í rólegheitum í attina til hans, tek yfir öxlina á honum og spyr hvort að hann sé óslasaður. Þá segir hann; "Þið hefðuð ekki átt að draga mig upp, þið hefðuð getað klippt mig í sundur á brúninni". Einmitt það sem að ég hafði haft áhyggjur af að væri vissara að kanna, hvort hann væri komin að brúninni og myndi svara. Hann hafði náð að vagga sér eins og selur yfir skörina. Þarna var leiðsögumaðurinn óslasaður og það var aðalmálið.
Nú var okkar vandi þó ekki allur leystur. Hann varð að skilja pokann eftir ofan í sprungunni og í honum var gps tækið. Ein af félögum í hópnum var með slíkt tæki, en það var nýlega keypt og hafði ekki verið látið safna staðsetningarpunktum yfir leiðina þegar við fórum upp. Í nokkra stund ráfuðum við í skafrenningnum til að sannfærast um rétta leið. Sáum síðan smá hrygg sem að við fórum niður eftir og þá lentum við inn á slóð. Sporin sáust ósljóst í snjónum eftir þá sem farnir voru á undan. Eftir nokkur hundruð metra göngu fór vindinn að lægja eftir því sem við komum neðar og færðumst út af ísbreiðunni. Í um 700 m hæð hittum við á tvo af hinum leiðsögumönnunum sem að voru snúnir til baka. Við höfðum tafist um tvo klukkutíma í okkar ævintýri miðað við hina hópana.
Vissulega voru það vonbrigði að ná ekki að komast á Hvannadalshnjúk, en í staðinn fengum við merkilega lífsreynslu og þjálfun í því að begðast við óvæntum aðstæðum. Í lokin var aðalfögnuðurinn að allir hefðu haldið lífi og limum. Ferðalangar voru sáttir við ferðina og við erum sannfærð um að það má af þessu sitthvað læra.
Hópurinn fagnar þegar komið var niður í betra veður og búið að hitta á hina leiðsögumennina
Búin að taka sólgleraugu niður og losa um trefil frá andliti. Hann var orðinn nokkurra sentimetra klakabrynja. Sibba samkennari, sem næstum var farin í sprungu, með slatta af klakahröngli
Ferðalög | Breytt 2.5.2008 kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
27.4.2008 | 16:19
Blóm vikunnar Maríustakkur
Maríustakkur er algengur um allt land nema ef vera skyldi á sumum svæðum inn á miðhálendinu. Til eru einnig nokkrar undirtegundir. Blómið er einnig nefnt daggarblaðka vegna þess að raki vill safnast á opin og bylgjótt blöðin. Á þessari mynd má einmitt sjá nokkra dropa. Marústakkur vex oft í grónum bölum og meðfram lækjum. Þessi planta var á grasbala innarlega í Hvannagili, Stafafelli í Lóni, í júlí 2005.
Þar sem nú er komið fram yfir fyrsta sumardag ætla ég að taka hlé yfir sumartímann í von um að allir sjái nóg af blómum á komandi vikum. Held áfram með haustinu að skipta vikulega um blómategund á toppi síðunnar.
24.4.2008 | 23:10
"Fólk er búið að fá nóg"
Síðustu daga erum við búin að heyra endurtekið af "aðgerðaleysi" ríkisstjórnarinnar og jafnvel oftar hefur verið sagt "fólk er búið að fá nóg". En það er skrítið að fá nóg af þeim sem ekkert er sagður gera. Erum við ef til vill búin að fá nóg af góðærinu, eyðslunni og spennunni? Eru nýju trukkarnir sem fengnir voru með bílaláni orðnir of margir og samkeppnin það hörð að það er ekki rekstrargrundvöllur? Erum við það skuldsett að niðursveifla stuðlar að alls herjar rótleysi og taugaveiklun. Sennilega eigum við nóg af efnislegum gæðum?
Nú þurfum við að læra að lifa lífinu í jafnvægi og sátt. Ekki sveiflast frá því að vera þjóðin sem var fyrir áramót að kaupa upp Danmörku, Bretland og lönd um álfur allar og í þjóðina sem var eftir áramótin að stefna með alla banka landsins í gjaldþrot. Þetta eru merki um alvarlega taugaveiklun í þjóðarsálinni. Sennilega var skynsamlegast fyrir ríkisstjórnina að gera fátt og vera ekki þátttakandi í óróanum. Þannig gefst líka svigrúm til að við áttum okkur á því hvert og eitt að við berum ábyrgð.
Í löndum þar sem að er slíkt undirliggjandi óöryggi og misskipting verður áherslan á að efla lögregluna. En meðalið sem við þurfum helst og mun reynast best og mest er kærleikur og innri ró. Það á við jafnt um vörubifreiðastjóra sem eru "búnir að fá nóg" og víkingasveitir sem eru komnar með hátt hlutfall af einstaklingum sem hafa litla hæfni í mannlegum samskiptum en snöggir til að lenda í hasar. Af þeim sökum treystir almenningur ekki lögreglunni nægjanlega vel.
Kærleiksmiðstöðvar og skilningur væri betri sending en að efla lögreglustöðvar og valdbeitingu. Kirkjurnar gætu gegnt slíku hlutverki ef þaðan yrði miðlað margvíslegu mannbætandi starfi. Þar er trúlega of mikið klerkaveldi til að blómstri farvegur sjálfsprottins manngildis og ástúðar. Staður þar sem við getum glaðst án tilefnis, þar sem við getum þakkað fyrir að vera búin að fá nóg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.4.2008 kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)