Gleðilegt sumar!

Fórum nokkur árlega línuskautareisu úr Mosó á Seltjarnarnes. Gaman er að festa þennan sið í sessi og hvet ég alla að skrá nú þegar í minnisbók næsta árs að hjóla, skauta, hlaupa Mosó-Nes. Línan. Ég og Guðfinnur bílasali styttum okkur reyndar leið í miðbæinn. Fannst ég geta komist upp með þetta, þar sem að gangan á Hvannadalshnjúk er næstu nótt, aðfaranótt laugardags.

Lína-MosóLína-SkúlagataLína-Victor


Ofbeldi elur af sér ofbeldi

Í landinu hafa hinar og þessar mælistikur efnahagslífs þróast á verri veg á síðustu vikum. Aðalvandinn fyrir heimilin er vaxtaokur. Flutningabílstjórar hafa því miður gengið of langt. Þeir hafa af einhverjum ástæðum ofmetnast af þeim stuðningi sem að mótmæli þeirra fengu í byrjun. Kröfur þeirra eru óljósar og illskiljanlegt að beina aðgerðum sínum gegn almenningi í umferðinni eða að lítilsvirða heimsókn leiðtoga úr stríðshrjáðu landi.

Mótmælin hafa nú staðið um nokkurt skeið og ekki hefur verið gripið inn í þessar aðgerðir. Sjónvarpið sýndi lögreglumenn í þessu tilfelli biðja bílstjóra að fjarlægja bílana og opna þessa mikilvægu samgönguæð eftir allnokkurn biðtíma. Það gekk ekki eftir. Þá var tilkynnt með fyrirvara að gripið yrði til aðgerða af hálfu lögreglu til að opna veginn. Tekið fram að piparúða yrði beitt. Þá sáust bílstjórarnir fara í bíla sína og sækja allskyns vökva, WD40 og fleira. Svona fíflagangur gefur Birni Bjarnasyni réttlætingu fyrir því að breyta samfélagi okkar í lögregluríki.


mbl.is Mótmælin fóru úr böndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Línan - Sumardaginn fyrsta

SkauthjólhlaupÁ sumardaginn fyrsta hefur myndast hefð fyrir því að fara milli Mosfellsbæjar og Seltjarnarness skautandi, hjólandi eða hlaupandi. Tekin smá upphitun undir góðum tónlistartakti fyrir brottför. Lagt af stað klukkan 10 að morgni frá Varmárlaug og endað í Seltjarnarneslaug. Farið eftir göngustígum norðan megin Mosfellsbæjar og Grafarvogs. Gert hádegishlé í Elliðaárdalnum og farið meðfram suðurströnd Reykjavíkur og út á Seltjarnarnes. Strengirnir látnir líða úr líkamanum í lauginni.

Helgarlagið Como Quieres Que Te Quiera

Held hér áfram að setja inn tengingu á myndbönd með lögum sem að hafa gripið mig í leit að suðrænni sveiflu á síðustu tveimur árum. Lagið þessa helgi er Como Quieres Que Te Quiera með Rosario Flores. Móðir hennar var þekkt á Spáni sem "flamenkó drottningin" fyrir söng sinn og faðir hennar innleiddi katalónska blöndu af rúmbu- poppi í þeim anda sem gert var alþjóðlega frægt af hljómsveitinni Gipsy Kings.

Rosario hefur unnið til verðlauna fyrir tónlist sína, sem er með áhrifum frá sigaunastíl og flamenkó tónlist, en hún er einnig þekkt fyrir leik sinn í kvikmynd Pedro Almadovar Talaðu við hana frá 2002.

 


Nýjan dagskrárstjóra

ÍslandEvrópa 

Það munar ansi miklu á yfirlýsingu Geirs Haarde frá því í gær um að upptaka evru og aðild að ESB komi ekki til greina og niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins í dag, þess efnis að tæp 70% íslensku þjóðarinnar vilja hefja umsóknarferli sem gæfi af sér drög að samningi til þjóðaratkvæðis.

 

Samfylkingin verður að standa fast á sínum stefnumálum sem að eru í miklum samhljómi við væntingar kjósenda. Í gær var flokkurinn með glæsilega ráðstefnu "kvótakerfi á krossgötum". Þar sem áhersla var á nauðsyn þess að taka tillit til niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í dag sjáum við muninn á stefnu forsætisráðherra gærdagsins og framtíðarsýnar þjóðarinnar í Evrópumálum.

 

Í báðum þessum málum þarf flokk sem að er eins afgerandi og mögulegt er. Þingflokkur og ráðherrar Samfylkingarinnar geta ekki látið eins og þau séu "innmúruð" í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru grundvallarmál þar sem jafnaðarmenn hafa unnið vel heimavinnuna. Ef eitthvað á að vera á dagskrá þá eru það þessi mál.

 

Það þarf einfaldlega að skipta um dagskrárstjóra, ef hann er með ómögulega efnisskrá. Lýðræðið og vilji kjósenda þarf að verða partur af prógramminu.


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir Esjuna

Lífið er að lifna úr vetrardvala og mannlíf að eflast í borginni við sundin. Fór í miðbæjarreisu í gærkvöldi til móts við nema úr Borgó sem voru með dimmision fagnað á Sólon. Rölti svo aðeins um miðbæinn og það var áberandi mikið af útlendingum. Tók meðal annars stutt spjall við Norðmenn og Bandaríkjamenn.

Þetta útstáelsi sem var vel fram yfir miðnætti var ekki að öllu leyti skynsamlegt. Planlögð var 22 km ganga upp á Þverfellshorn, á Hábungu, eftir hryggnum, niður Laufaskörð og Móskarðshnjúka. Fór til móts við göngufólk að bílastæðinu við Esju kl. 9. Ákveðið var að endurmeta gönguplön í ljósi þess að trúlega væri mikill snjór í Laufaskörðum og vandræði að þurfa að snúa til baka eftir langa göngu.

Um næstu hlegi á laugardegi verður gengið á Hvannadalshnjúk. Hópurinn er nú orðinn 15 manns. Sjö af þeim fóru á Esjuna, en einn fór aðeins upp að steininum og til baka. Aðrir héldu áfram og upp úr klettabeltinu og upp á háhrygginn þannig að útsýni opnst til norðurs og vesturs.

Ákveðið var að fara ekki til hægri um Hábungu til Laufaskarða og Móskarðshnjúka, heldur til vinstri og fara norðan Kerhólakambs niður á Kjalarnesið og koma niður af fjallinu um kílómeter norðan við Grundarhverfi.

Gangan gekk vel þó að enn væri töluverður snjór í yfir 600 m hæð og þar neðar tækju við aurbleytur á köflum. Farið var í um 850 metra hæð, gengið um 14 km á sex tímum. Göngufólk var sannfært um að allir væru tilbúnir fyrir hæsta fjall landsins.

Veðurspá Sigga storms um mikla sólartíð föstudag og laugardag gekk ekki alveg eftir þó veðrið væri mjög gott. Mikið var af fólki á göngu í Esjunni. Meðal annars rákumst við á fleiri að þjálfa sig fyrir hnjúkinn. En eftir að við vorum komin upp á Þverfellshornið mættum við engum og sáum ekki nokkurn mann.

Esjuganga


Á skóli fyrst og fremst að vera skemmtilegur?

Unglingarnir okkar, sem hafa athyglina í tónhlöðunni, tölvuleikjum, kvikmyndum, tónleikum, böllum, gera það skilyrði að allt sem þau taka sér fyrir hendur uppfylli öll helstu viðmið um skemmtilegheit. Þau eru iðulega ofdekruð eða á að segja spillt, af eltingarleik okkar eftir veraldlegum gæðum og tímaleysi foreldrana til að virkja þau inn í  metnaðarfull verkefni. Þessi kynslóð hefur þó fleiri tækifærum úr að moða en nokkur önnur, sem Ísland hefur alið.

Rótleysi samfélagsins skapar hinsvegar þörfina fyrir endalausar flugeldasýningar tilfinningalífsins. Nemandinn mætir með þær væntingar að skólinn sé með skemmtiefni daginn út og inn. Það að nemendur nái aukinni færni eða skilningi á eðli og fyrirbærum náttúrunnar verður aukaatriði. Á endanum gefum við öll eftir í kröfum og skólinn fer að verða eins og dagvistun. Þannig bendir margt til þess að hlutur raungreina innan fjölbrautakerfisins sé að verða óviðunandi undirbúningur að háskólanámi.

Nú er otað að stórum hluta ungmenna tækifærum sem þau nýta sér ekki. Allur útbúnaður í húsnæði og tækni til kennslu er til fyrirmyndar. Á háskólastigi eru fjöldi greina í raunvísindum, verkfræði, heilbrigðisvísindum og íþróttafræðum þar sem færni og þekking í raungreinum kemur að góðum notum. Nemar hafa aftur á móti tilhneigingu til að safnast fyrir í félagsgreinum af því að þær eru sagðar léttar og skemmtilegar. En á sama tíma eru þau búin að fækka tækifærum til háskólanáms.

Sveitungar mínir Kvískerjabræður náðu einstakri færni í tungumálum og náttúruvísindum í mikilli einangrun með útvarp og bækur sem einu kennslutækin. Í kyrrð og þögn sveitabúskaps var það umbun allri annarri æðri að ná betri tökum á lærdómi af ýmsum sviðum. Það var nægjanleg skemmtun ein og sér að skilja ferðir farfugla eða framgang jökla. Þeir bjuggu sér til tækifæri úr engu.

 


Að vera eðlilegur

Skil mjög vel að karlar hafi áhuga á konum. Ekki síður að þeir hafi stundum áhuga á að sjá þær naktar. Skil hinsvegar ekki þá sem tala af óvirðingu til kvenna, né þá sem taka þátt í að greiða fyrir dans eða afnot af kvenlíkamanum. Skil vel femínista sem berjast gegn öllum aðstæðum þar sem konur eru þvingaðar til athafna í nafni fjármagns. Skil hinsvegar ekki að þær mæti ekki aðstæðum af opnari huga og telji ætíð að þær séu réttbærar til að dæma. Skil ekki að þær ætli öllum körlum að vera mögulegir ofbeldismenn. Með því setja þær málin í gagnslausan stríðsrekstur, án umbóta og skilnings.

Kynvíddin verður ekki afgreidd með rökræðum menntakvenna. Þar eru tilfinningar og innbyggð líffræðileg ferli sem móta hugsanir og hegðun. Því þarf að efla skilning á eðli og ástæðum tilhneiginga okkar og hvata. Karlar þurfa að axla ábyrgð á sínum veruleika, væntingum og þrám. Þannig að þeir finni skynsamlegri farveg en að vera að pukrast á karlakvöldum undir einhverjum dónabröndurum. Ekki er heldur hægt að ætlast til þess að þeir fari að tjá sínar upplifanir samkvæmt einhverri rökrás femínista. Það verður að gefa körlum svigrúm að vera kynverur á eigin forsendum, en án þess að í því felist réttur til að sýna öðrum virðingarleysi.

NormalÞetta eru svona hugrenningar í framhaldi af færslu um "frjósemisdansa". Ég fékk viðbrögð við þeim skrifum á báða vegu, sem ég er ánægður með. Hörðustu karlarnir vilja fá að gera hvað sem er og hörðustu konurnar vilja ekki leyfa körlum að hafa neinar meiningar um þessi mál. Segi iðulega hvað mér finnst án þess að það sé eftir flokkslínum eða að ég hugsi mikið út í það hvað ég eigi að segja miðað við stétt og stöðu. Því geta fylgt ókostir til skamms tíma litið, en það skilar sér að lokum að vera bara blátt áfram og ...... eðlilegur!

 

 


Blóm vikunnar Ólafssúra

Í sveitinni gat það verið ígildi sjoppuferðar að fá sér hundasúru eftir ærslagang um tún og engi. Það var hinsvegar ekki fyrr en ég fór að arka með ferðamenn um gil og gljúfur að ég fór að meta Ólafssúru sem fóðurbætir. Þessi mynd var tekin af Ólafssúru í Hvannagili, Stafafelli í Lóni í byrjun júlí 2005. Hún vex um mest allt land, einkum til fjalla. 

Frjósemisdansar í Mosó

Amma sagði eitt sinn við mig þegar ég var strákur, að ekkert væri fegurra en kvenlíkaminn. Þá var Bjarni Fel að lýsa listdansi á skautum. Man að ég varð hugsi. Fannst það vera skrítið að hún tiltæki sérstaklega líkama kvenna, en ekki karla, þegar hún hugsaði um fegurð.  Hún væri jú kona. En sennilega er hægt að tengja mýkt, dulúð og hinn seiðandi kraft einvörðungu við hin líkamlegu form kvenna. Það er engin synd að viðurkenna þessa staðreynd. Það má dást að slíkri fegurð jafnt og annarri fegurð.

Hef verið með hesta í Mosfellsbæ í 15 ár en hef aldrei verið boðaður á karlakvöld hestamannafélagsins Harðar. Sennilega er ég of mikil kerling! En félagar mínir þarna eru búnir að kynda elda kröftugrar umræðu um nektardans sem að er fastur liður að hafa sem lokaatriði. Þeir eru gerðir ábyrgir fyrir mansali og kúgun kvenna, ásamt því að vera sakaðir um að breytast þarna einu sinni á ári úr virðulegum fjölskyldufeðrum í slefandi klámhunda.

Sú ímynd hangir við hestamenn að geta gengið glannalega um gleðinnar dyr. Hestar, konur og vín. En ef til vill snýst þetta mál um tvennt. 1) Var dansinn ætlaður til að vekja kynóra þannig að hægt sé að líta á að farið hafi verið út fyrir siðferðileg viðmið? 2) Var einhver þvingaður til að gera eitthvað sem að hann vildi ekki? Hefur einhver karl sem var þarna eða dansarinn móral. Að þeir hafi gert eitthvað siðferðilega rangt. Það er besta mælistikan.

Í Mosfellsbæ liggja mörg tækifæri og ef til vill er hægt að gera skrautlegar hestasýningar þar sem vaskir riddarar ná fram sínum besta góðgangi í hringnum undir seiðandi dansi fagurra meyja. Það er ekki hægt að líta framhjá því að dans með áherslu á kvenleika er hluti af menningu flestra þjóða. Við þurfum að geta haft slíkt í okkar kúltúr án þess að tengja það sektarkennd eða skömm. Fáum samba drottningar og magadansmeyjar til samstarfs um að gera næsta stórmót Harðar sem líflegast. 


mbl.is Harðir á strippinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband