Fallegur hægri piltur

Silvio&VeronicaAuðvitað er Berlusconi endurkjörinn út á fegurðina eina og ætlar að taka nokkrar sætar hægri stelpur með sér í ríkisstjórn. Ítölsk pólitík er engu lík. Veit ekki hvaða málefni Berlusconi stendur fyrir, önnur en þau að halda stöðu sinni og ríkidæmi.

Myndin er af Silvíó og konu hans Veróniku eftir að hún hafði krafist þess að hann bæðist afsökunar á ummælum sínum við aðrar konur. Meðal annars "ef ég væri ekki giftur myndi ég giftast þér samstundis" og "með þér færi ég hvert sem er".

Nýlega ráðlagði hann konu með fjárhagsáhyggjur að gisftast syni sínum. Síðan toppaði hann eigin yfirlýsingar í síðustu viku með því að flokka konur til hægri og vinstri með tilliti til fegurðar. En nú er hann byrjaður að finna til ábyrgðar.


mbl.is „Finn til ábyrgðar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorið kemur á morgun

Haft er eftir Árna Sigurðssyni veðurfræðingi og nágranna mínum í blaði nú um helgina að vorið komi með hlýrri suðrænum vindum á þriðjudag, sem sagt á morgun. Hann er fjalltraustur maður þannig að við getum farið að gera okkur klár fyrir betri tíð með blóm í haga. Er reyndar ekki viss um að hann hafi verið að lofa sumri heldur vísaði hann til þess að þessi hlýji loftmassi séu fyrstu merki um að vorið sé að koma. Blaðamaðurinn rúnnar síðan aðeins frásögnina og fréttin verður "Vorið kemur á þriðjudag".


Heiðarhorn

Þriðja fjall í undirbúningi fyrir Hvannadalshnjúk afgreitt. Hvílíkur dagur! Sólskin, stillt veður og frábært útsýni til allra átta. Heiðarhorn sem er hæsta fjallið (1.054 m) í Skarðsheiði. Bílum var lagt skammt frá Efra-Skarði í Svínadal. Gengið var upp dal með Skarðsá og Skarðshyrnu á vinstri hönd. Áfram upp á brún Skarðsheiðar í 600-700 m hæð og þá opnaðist sýn á Heiðarhornið.

Framundan var síðasti og erfiðasti kaflinn á sjálft hornið. Samfelld snjóbreiða og harðfenni í hlíðinni. Þar kom sér vel ísöxin sem ég kippti með frá Árna veðurfræðingi, fjallamanni og nágranna á Reykjaveginum. Í tuttugu mínútur gekk ég fyrstur og slóst við harðfennið með hæl og öxi. Loks náðum við út á öxlina, þar sem varð grýttara og minni hliðarhalli.    

Þarna opnaðist stórkostlegt útsýni til vesturs og norðurs. Áður höfðum við séð langt til suðurs og austurs. Meðal annars yfir Hvalfjörð og til Skjaldbreiðar. En nú opnaðist sýn yfir Hafnarfjall til Snæfellsjökuls og norður til Eiríksjökuls. Útsýnið af Heiðarhorni var ótrúlegt og það var ágæt tilfinning að afgreiða þetta fjall sem að er sléttur helmingur af hæð Hvannadalshnjúks.

Þakka skapara alls auðmjúklega fyrir fagran dag - Þúsund þakkir.

Topplið á HeiðarhorniHeiðarhornHafnarfjall SnæfellsjökullMagnús Óttar Helgi


Helgarlagið Ishq Kameena

Indversk kvikmyndagerð er stundum kennd við Bollywood, enda sumar kvikmyndir þeirra með svipuðum glamúr og í vestrinu. Hef stundum hrifist af lögum með orkumiklum og óreiðukenndu yfirbragði. Rakst á lagið Ishq Kameena fyrir fimm árum síðan og tók ég stundum orku og gleðidans með syni mínum og vinum hans. Í Furubyggðinni þar sem við bjuggum þá var mikið pláss í stofu og holi. Þar var slett úr klaufunum undir þessu lagi með hátt í tíu gaurum úr hverfinu.

Prófaði svo að leita upplýsinga um lagið og þá kom í ljós að það var úr kvikmyndinni Shakti; The Power. Þetta lag er sagt vera sett sérstaklega inn til þess að "sykra" myndina, þar dansar einn þekktasti Bollywood leikarinn, hjartaknúsarinn Shah Rukh fremst í hópi karla á móti hinni glæsilegu Karisma Kapoor. Ef við slökum á okkar eigin viðmiðum hvað sé menning og setjum okkur í Bollywood stellingar nokkrar mínútur, þá má hafa gaman af flottum dansi og krafti tónlistarinnar. Tímamótaverk!?


Eru Laugvetningar Framsóknarmenn?

Á Laugarvatni horfir Jónas frá Hriflu yfir staðinn. Í ML man ég samt ekki eftir að nokkur maður gengist við því að vera Framsóknarmaður, enda töldu menn sig á leið inn í framtíðina. Bjarni Harðar fór síðan og tók sagnfræði og þjóðfræði. Komst að því að fortíðin væri framtíðin og gerðist Framsóknarmaður. Samúel Örn var íslandsmeistari í blaki og ekki tengdi maður þennan kvennaljóma við flokk neftóbaksklútanna. Nú virðast mál vera að skipast þannig að ML-ingar eru hver á eftir öðrum að koma út úr skápnum og birtast á þingi sem framarar.

En er það áhugavert hlutskipti okkar sveitapilta og stúlkna sem fórum á Laugarvatn að halda lífinu í Framsóknarflokknum. Samfylkingin er búin að fylla stöðuna sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur og fátt sem bendir til að Framsóknarflokkurinn eigi sóknarfæri í þéttbýlinu við Faxaflóa. Einnig er stór hluti íbúa á landsbyggðinni ósáttur við flokkinn. Kenna honum um kvótakerfin til sjós og lands sem séu meginafl hinnar miklu byggðaröskunar og skerðingar á athafnafrelsi. Því eru atkvæðin sem voru í fastri áskrift á landsbyggðinni líka horfin.

Ég óska fulltrúum Laugvetninga í framvarðasveit þjóðar alls hins besta, á sama tíma og ég er sannfærður um að framtíð flokks þeirra er langt frá því að vera björt. Flokkurinn færðist í gegnum áratugina frá því að hafa trausta samfélagslega skírskotun í það hlutverk að vera atvinnumiðlun, en núna þegar þeir hafa ekki lengur fingur á valdataumum þá er leitin að erindinu fálmkennd og örvæntingarfull.


mbl.is Nýtur hverrar mínútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóm vikunnar Skógarflétta

Fléttur eru sambýli þörungs og svepps. Mikið er af sjaldgæfum fléttutegundum í Austurskógum, Stafafelli í Lóni og nefnt hefur verið að ástæða sé til að friðlýsa þá af þeirri ástæðu. Tegundir sem vaxa á birki eru nokkuð algengar á Suð-Austurlandi. Þar eru nefndar flathyrna, skógarþemba, flatþemba, pípuþemba, gljádumba, kvistaskegg og birkiskegg. Flestar flétturnar á trjánum eru gráleitar, ýmist flatar eða pípulaga. En þó rakst ég þar á fléttuna á myndinni hér að ofan fyrir nokkrum árum. Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur var búin að finna út nafnið fyrir mig og verð ég að grafa það upp. Ekki er mynd af þessari fléttu í plöntuhandbókum eða á vefnum www.floraislands.is.

Besta vínið

Besta víniðÁ kynningarviku í Vínbúðinni í fyrra voru vín frá Chile. Þar kippti ég með einni flösku af rauðvíni sem nefnist TRIO. Þar er vísað til þess að notað eru þrjár gerðir af þrúgum merlot, carmenere og cabernet sauvignon. Fórum síðan nýlega í boði konu minnar á vínsmökkunarnámskeið sem haldið var af Tómstundaskóla Mosfellsbæjar þ.s. Dominique í Vínskólanum var með sérlega skemmtilegt og fræðandi námskeið.

Á námskeiðinu smökkuðum við á fjöldanum öllum af vínum og það var satt að segja erfitt að skirpa út úr sér sumum af dýrari sortunum, eins og átti að gera. Ég ákvað að fara nú út í Vínbúð aftur og finna þetta draumavín frá Chile. Við fengum okkur þetta síðan eitt kvöldið og ég sannfærðist um að þessi tegund er mitt uppáhald. Vínið fær fjórar og hálfa stjörnu af fimm hjá einhverju frönsku matsfyrirtæki. Frakkarnir eru auðvitað það þjóðræknir að þeir hafa ekki þorað að gefa fullt hús og tapa viðskiptum.

Getið þið mælt með einhverju hágæða rauðvíni?


Fjallmyndarlegar

Canon myndavélÍ menntaskóla og líffræðinámi hafði ég ekki mikinn áhuga á plöntum. Fannst það hálfgerð forheimskun að læra utanbókar heiti á mismunandi tegundum og ættkvíslum. Síðan hef ég í mörg ár farið með gönguhópa um æskuslóðir að Stafafelli í Lóni. Á þessum ferðum og með aldrinum hef ég fengið meiri áhuga á plöntunum. Það er uppörvandi að sjá útsprungið blóm á leið um mela og móa. Þá vaknar áhugi að vita meira um slíka vini og gleðigjafa.

PlönturTil að þekkja plönturnar og líka til að nýta í líffræðikennslu hef ég verið að leika mér að því að taka af þeim myndir. Vélin sem ég hef mest tekið á var stafræn Canon 2.1 sem að fór vel í vasa, en er ekki með mikla upplausn. Í gær ákvað ég að kaupa mér stafræna Canon 400 SLR vél. Þá er komin góð upplausn og möguleikar að skipta um linsur. Einnig er handgrip með aukabatteríi. Slíkt eykur tíma sem hægt er að vera með myndavélina fjarri hleðslu.

Ég er lukkulegur að vera komin með tæki til að taka fleiri plöntumyndir svo ég geti haldið áfram að setja nýjar tegundir á haus síðunnar í hverri viku. Vonandi ykkur og mér til fróðleiks og yndisauka.


Gullfoss með glæstum brag

 Gullfoss

Óskaplega er hægt að teygja lopann um þessa flugferð. Vinstri grænir reyna enn og aftur að nærast á nöldri og óánægju. Ögmundur Jónasson félagi minn fer mikinn. Mesta svigrúm sálartetursins fer í óvitræna dómhörku og vandlætingu út af mun á flugkostnaði, með einni leið eða annarri, upp á 200 þúsund krónur. Á sama tíma hækka húsnæðislán meðalfjölskyldu um hundruði þúsunda vegna gengisfellingar og gefið er upp að hluti ástæðunnar hafi verið meira svigrúm til umræðna og viðbragða við efnahagsástandinu.

Þeir eyða ekki orkunni í að krefjast þess að frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur um leiðréttingu á eftirlaunafrumvarpinu gangi í gegn á þessu þingi. Enda voru þeir stuðningsmenn þess, allir sem einn. Þeir kvarta heldur ekki undan því að þiggja laun fyrir að gegna tveimur eða fleiri hlutverkum. Ef þeir væru samkvæmir sjálfum sér í þessari þotuumræðu þá ættu þeir að leggja til að við hverfum aftur ein hundrað ár og ráðamenn tækju vorskipið eða haustskipið. Það skyldi þó ekki vera að þeir væru þátttakendur í "lúxusnum" .

Útþráin eykur mátt,  ung verður gömul þrá
G#7                           C#m  C#7                       F#7
syngjum og dönsum dátt,   dvelur oss gleðin hjá.
B                        F#7  B          A#     B
Lifum vér ljúfan dag,  létt eru þessi kjör
G#7                               C#m   F#7                     B
Gullfoss með glæstum brag,  greiðir oss heillaför.
B                     B7          E     Em   B                F#7   B       (Hækkun)
 G7
Gullfoss með glæstum brag,       greiðir oss heillaför.


mbl.is Þotuleigan var 4,2 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þríhyrningur

Þríhyrningur2

 Uppleið2Þakklæti2

Síðasta sunnudag var farið upp í skarðið við Móskarshnjúka eða eins hátt og veður leyfði. Í dag var ekið til móts við sólríkt Suðurland með það að markmiði að fara í Fljótshlíðina og ganga á Þríhyrning (667 m). Byrjað var á kirkjuskoðun að Breiðabólsstað hjá sr. Önundi Björnssyni. Hann er höfðingi heim að sækja og ánægjulegt að sjá myndarskap í margvíslegum framkvæmdum á staðnum.

Keyrðum upp hjá Tumastöðum, en eftir göngu á tindinn héldum við áfram hring fram hjá Keldum á Rangárvöllum. Nokkuð stífur vindstrengur var í fjallinu en ekki snjór til vandræða. Við fengum frábært útsýni til allra átta. Út til Eyja, yfir Eyjafjallajökul, í átt að Hlöðufelli og yfir sunnlenskar sveitir. Ég var með tuttugu kílóa hlunk til að þyngja mig og auka þrekið fyrir göngu á Hvannadalshnjúk. Hann var mjög þakklátur þegar búið var að skila honum niður aftur.

Næsta fjall er Heiðarhorn í Skarðsheiði á sunnudegi eftir viku. Allir eru velkomnir að slást í hópinn. Lagt verður af stað frá bílastæðinu við Krónuna í Mosfellsbæ klukkan tíu að morgni.

____________________________

Farið verður á morgun, laugardag, vegna verri veðurspár á sunnudag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband