Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Sorgleg þróun

Þetta er stigmögnun sem ég hef haft áhyggjur af. Fólk er hætt að hlusta og sjá, er gengið inn í samsömun hóps. Öfgakennd og ofbeldisfull framganga húfugengisins að okkar sameiginlegu stofnunum gaf tóna sem réttlætt geta að okkar opna og frjálsa samfélag breytist í lögregluríki.

Nú verðum við að fara að vinna saman en ekki í sundur, tala saman en ekki hrópa, leysa málin en skapa ekki glundroða. 


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bylur hæst í tómri tunnu

 Tunnutromma

Nú er fjöldi manns búin að fara um með eldi og óhljóðum síðasta sólarhring og krefjast breytinga. Pottar og pönnur í hundraðavís hafa verið lamdar. Krafa er uppi um kosningar strax í vor. En stærstur hluti þjóðarinnar á ekki neina valkosti. Formaður VG segir að ekki sé þörf á nema stuttri og snarpri kosningabaráttu. Hann gerir ráð fyrir að brennuvargar geti fleytt hans fólki langt ef kosið væri nú.

Í Kastljósinu áðan var það athyglisvert hversu fátt var um svör þegar Steingrímur J Sigfússon var spurður að því hvaða aðgerða hann myndi grípa til ef að hann tæki við stjórnartaumunum. Hvort hann myndi segja sig frá láninu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, sem hann barðist gegn? Það á vissulega að fara af stað með margskonar uppstokkun, strax í dag. En mér fannst það ágæt tímasetning hjá forsætisráðherra að stefna að kosningum næsta vetur.


mbl.is „Þið eruð öll rekin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi og lýðræði

Ofbeldi

Við stöndum frammi fyrir alvarlegum afleiðingum þess að Íslendingar kunnu ekki að fara með aukið frelsi í fjármálum. Nú erum við komin á þann punkt að við virðumst ekki geta komið okkur saman um hvað sé lýðræði. Það virðast vera tveir kostir í stöðunni að styðja það að víkingasveitin verði efld og draumar Björns Bjarnasonar verði að veruleika eða öfl reiðinnar undir handleiðslu Ögmundar Jónassonar innleiði allsherjar ringulreið í landinu.

Lýðræðið byggist á því að við finnum einhvern samhug og leiðir. Hverjar sem þær eru. Það hefur vissulega engin rétt á því að segjast tala í umboði þjóðarinnar. Nauðsynlegt endurmat og uppstokkun á lýðræðislegum leikreglum mun ekki eiga sér stað undir þessum ofbeldisfullu formerkjum á báða bóga. Slík vinna er gerð af fólki með góða og djúpa þindaröndun en ekki af fylkingum ofbeldis, hvort sem það felst í beitingu piparúða eða berja ræðupúlt í þingsölum.


mbl.is Óslóartréð borið á bálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innsetningaræði

Forseti Obama

Eftir að einn óvinsælasti forseti í sögu Bandaríkjanna lætur af völdum tekur við sá sem hvað mestar væntingar hafa verið bundnar við. Þó sagt sé að slíkum vonum um miklar breytingar muni vafalítið fylgja vonbrigði, þar sem erfitt verður að uppfylla þær allar, þá er þetta mikill gleðidagur. Demókratar hafa nú forseta og meirihluta í báðum deildum þingsins.

Mikill fólksfjöldi hefur safnast saman í Washington til að vera við athöfnina og samhliða hefur verið sett upp gríðarleg öryggisgæsla. Lokað aðliggjandi götum og öryggisverðir verða víða á röltinu. Passað er upp á nýja forsetabílinn sem að er með töluna 44 á númeraplötunni. Vegferð Obama hefur verið ævintýri líkust og megi völd hans nýtast til farsældar fyrir heiminn allan.

Forsetabifreið


mbl.is Eftirvænting í Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallelujah

SönghópurMótlæti og sigrar eru lífsins gangur. Lagið Hallelujah eftir Leonard Cohen er óður þakklætis til skaparans. Við útskrift í Borgarholtsskóla nú í desember flutti sönghópur Borgarholtsskóla tvö lög og annað þeirra var þetta lag. Samviskusöm stúlka sem ég var nýlega búin að gefa fullt hús stiga í líffræði var forsöngvari. Flutningurinn hafði meiri vigt vegna hinnar einlægu trúar og vitneskju um að hún hafi fengið sinn skerf af erfiðleikum á tímabili. Naut þess að hlusta á hana syngja lagið ásamt bakröddunum.

Séreignasparnaðurinn

Jóhanna Sigurðardóttir kynnti fyrir rúmum mánuði að einn möguleiki sem væri verið að skoða væri heimild til nýtingar séreignasparnaðar. Ég var svo ánægður með þetta að ég fór á Austurvöll með spjald sem stóð á; "Áfram Jóhanna, Áfram Jóhanna!". Fannst hún vera að hugsa í lausnum. Hún benti réttilega á að möguleikar einstaklinga til að nýta þessa fjármuni sína gætu riðið baggamun fyrir fjölda heimila í landinu.

Síðan eru liðnir margir dagar og vikur. Hringdi fyrir tveimur vikum í félagsmálaráðuneyti og spurði um málið. Svarið var að þetta væri í nefnd Ingibjargar Sólrúnar og Þorgerðar Katrínar. Enginn vissi innan hvaða tímaramma niðurstaða ætti að liggja fyrir. Hringdi aftur nú í morgun til að kanna málið í sama ráðuneyti. Þeir vísuðu þá til fjármálaráðuneytis. Þar fékk ég þau svör að pólitísk ákvörðun lægi ekki fyrir en málið væri í nefnd Steinunnar Valdísar og Ólafar Nordal.

Þetta er bara lítið dæmi um hvernig tómarúm og aðgerðaleysi virðist ráðandi hjá stjórnvöldum. Skortur á að upplýsa og hjálpa fólki til að gera raunhæfar áætlanir. Að fóta sig í þessum ólgusjó. Það er ekki nóg fyrir einstaklinga og heimili að heyra að "málin séu í nefnd". Nú þarf aðgerðir


mbl.is Heimili að verða gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helsti kosturinn að hafa aldrei verið Framsóknarmaður

Nýr formaður Framsóknarflokksins var á síðasta ári skipaður í nefnd á vegum borgarinnar af Framsóknarflokknum. Þegar hann var spurður um hvort að hann væri í flokknum þá undirstrikaði hann það með allnokkrum þunga að hann væri ekki flokksmaður heldur skipaður út á fagþekkingu sína í byggingar- og skipulagsmálum.

Hann gekk síðan í flokkinn til að geta boðið sig fram til formanns Framsóknar sem að hann afneitaði fyrir skömmu. Mér finnst það nokkuð bratt, þó ég sé ekki hlynntur neinu flokkseigendavaldi. Það er líka athyglisvert að flokksmenn vilji helst þann til forystu sem að er algjörlega hreinn og óspjallaður af verkum flokksins.

Kjósendur geta nú undirbúið sig að fá gjafir og hlunnindi frá nýrri Framsókn ef þeir merki við B. Þeir verði til í að gera allt fyrir heimilin ef kjósendur merki við B. Verði miðjuflokkur sem er að mestu án inntaks en viljugur til valda.


mbl.is Eygló Harðardóttir ritari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum

Fréttir eru af helmings aukningu atvinnuleysis í Þingeyjarsýslum. Steingrímur J Sigfússon veit að ekki er nóg að bjóða kjósendum sínum eingöngu upp á focking fock ríkisstjórnarandúð. Þar binda heimamenn vonir við uppbyggingu álvers á Bakka.

Í gær heyrði ég í formanni VG lýsa yfir þeirri skoðun sinni að mun skynsamlegra sé að stefna að uppbyggingu kísilverksmiðju. Ekki sé æskilegt að setja öll eggin í sömu körfuna og að verksmiðjan sem hann nefndi gæti skapað störf fyrir 300 manns.

Það var svo nýr og sannur tónn í þessari orðræðu. Velta upp möguleikum til að leysa vandann í stað þess að láta pólitíska stefnu sína snúast um fuss og svei vegna aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnvalda.

Ég var fyrir nokkrum árum í tengslum við fulltrúa The European March Society sem vildu koma upp geimrannsóknarstöð í nágrenni Mývatns. Hin rauða og berangurslega stemming Kröflusvæðis átti að minna á yfirborðið á Mars.

Meiri og fleiri áherslur á lausnir!


Hver fær viðbótarkvóta?

Mér finnst vanta í fréttina hvernig þessum viðbótarheimildum verður úthlutað. Það má ef til vill rökstyðja það að skuldsett sjávarútvegsfyrirtæki sem að eru búin að fara í gegnum magurt tímabil eigi rétt á viðbót. Hinsvegar væri fáranlegt að úthluta kvóta til einstaklinga eða fyrirtækja sem eru að leigja hann frá sér. Þá væri nær að ríkið fengi slíkar tekjur frekar en einhverjir sægreifar sem selt hafa skip sín geti haft af því tekjur að leigja sameign þjóðarinnar.
mbl.is Þorskkvóti aukinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bestu óskir

Er búin að vera að setja mig í stellingar með að skrifa færslu um nauðsyn þess að efla og opna alla umræðu innan Samfylkingarinnar. Að flokkur og félagsmenn einbeiti sér að fullri þátttöku í hinu samfélagslega endurmati.

Í stað þess að setja orkuna meira í þann farveg þá sendi ég bestu óskir til Ingibjargar í hennar vinnu framundan við að ná góðri heilsu og starfsorku. Það hlýtur að vera erfitt að losa hugann frá þeirri ólgu sem er í landinu.

Virðing fyrir heilsunni og lífinu verður að ganga þvert á flokkslínur.


mbl.is Ingibjörg Sólrún lengur frá en áður var talið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband