Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
29.4.2009 | 00:09
Samvinnustjórn - S V O B
Skýrustu skilaboð kjósenda voru þau að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að vera utan landstjórnar næstu fjögur árin. Verkefnin framundan eru gríðarleg og reyna á að leita eftir sátt og samlyndi innan þings og meðal þjóðar. Það er áhugi meðal almennings á eflingu lýðræðis og bent er á þörfina á þjóðstjórn við þessar aðstæður sem ríkja í landinu.
Það var sameiginlegur tónn meðal S, V, O, og B lista að vonast eftir samstarfi til vinstri. Þörfin fyrir að áherslur nýrra valdhafa verði á heilbrigði og heildarsýn. Efla atvinnuástand og skapa grunn fyrir heimilin og fyrirtækin að lifa af þrengingarnar. S og V hafa meirihluta og það er eðlilegt að út frá félagslegum áherslum vinni þessir flokkar að enduruppbyggingu í landinu.
En gleymum ekki kröfunni um lýðræði, skilvirkni, gegnsæi og árangur. Þó að vinstri flokkarnir hafi meirihluta þá endurspeglar hann ekki þann meirihluta sem er í þinginu að óska eftir aðildarviðræðum að ESB og taka á þeim mikla vanda sem að krónan skapar efnahagslífinu, allri áætlanagerð í ferðaþjónustu og útflutningsgreinum.
Vonandi leiðir Jóhanna Sigurðardóttir stjórnarmyndun inn á samvinnu S V O B. Við megum ekki eyða mikilli orku í innnanbúðarátök og flokkaríg. Með því að mynda slíka breidd í bakland ríkisstjórnarinnar næst að endurheimta virðingu fyrir Alþingi. Leyfum okkur að hugsa út fyrir flokkslínur og meirihluta. Finnum samnefnara.
Slík stjórn væri með Samfylkingu og Vinstri græna sem burðarás undir vagninum, en með samstarfi við hina flokkana tvo yrði farið í átt að kröfunni um þjóðstjórn, en þó þannig að einnig er tekið tillit til þeirrar meginniðurstöðu kosningana að Sjálfstæðisflokkurinn verði í orlofi næstu misserin.
Margir leita til kirkjunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.4.2009 | 00:43
Maður gærdagsins
Það er í heildina mjög lítil eftirspurn eftir söguskýringum Kjartans Gunnarssonar fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins varðandi "skrílslætin" á Austurvelli eða að hann sé nothæfur í að túlka niðurstöður kosningana.
Þó ég sé ekki haldin persónulegri óvild gagnvart honum eða öðrum þá verður það að viðurkennast að það gefur ónotahroll að hlusta á hann og skynja fyrir hvaða pólitík og gildi hann stendur. Það er eitthvað ekki alveg í lagi þarna!!
Nú þegar bakland fyrirtækjanna færir sig í meira mæli yfir á Samfylkinguna, sem vill tryggja hlutdeild okkar í heilbrigðu alþjóðlegu rekstrarumhverfi til framtíðar, þá verður Sjálfstæðisflokkurinn einangrað fyribæri sem einungis hentar forpokuðum íhaldsmönnum.
Flokkurinn verður á næstu árum hvorki gerandi aðili í mótun velferðarsamfélags né með tromp á hendi fyrir fjárhagslegan stöðugleika. Þar gæti fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokks verið rétti aðilinn til að festa flokkinn í hugmyndalegri stöðnun.
Hans tími er liðinn nema hjá sönnum afturhaldsöflum. Ekki kom hann heldur vel út úr stóra styrkjamálinu sem að hann nefnir nú "dapurleg tíðindi". Sagðist fyrst hafa verið hættur í starfi fyrir flokkinn en reyndist svo hafa verið að setja nýjan framkvæmdastjóra inn í starfið.
Á endanum kvað nýr formaður upp úr um að Kjartani Gunnarssyni hefði átt að vera fullkunnugt um stóru styrkina út frá vinnu sinni innan flokksins og trúlega einnig út frá stöðu sinni sem formaður bankaráðs Landsbankans.
Það er merkilegt hvað þessir menn geta endalaust haldið áfram að bera sig digurbarkalega í stað þess að skammast sín, setja skottið á milli lappana og byrja að fikra sig áfram við smásagnagerð eða eitthvað sem færist þeim betur úr hendi.
Fótbrotinn Sjálfstæðisflokkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
27.4.2009 | 14:22
Alþingi ákveði viðræður við ESB
Vinstri grænir geta komið standandi frá Evrópumálinu með því að lýsa yfir að það sé enn þeirra afstaða að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið utan sambandsins. Þeir feti hinsvegar þá lýðræðislegu leið að Alþingi greiði atkvæði um hvort farið verði í aðildarviðræður og að síðan verði samkomulag sett í þjóðaratkvæði.
Nokkuð ljóst er að 20 þingmenn Samfylkingar eru hlynntir aðildarviðræðum, 9 þingmenn Framsóknarflokksins, 4 þingmenn Borgarahreyfingarinnar, allavega 3 þingmenn VG og um helmingur eða 8 þingmenn Sjálfstæðisflokks. Þannig má búast við að um 44 þingmenn vilji fara í viðræður, láta reyna á samninga og bera útkomuna undir þjóðaratkvæði.
Þjóðin verður að ráða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.4.2009 | 21:30
Kjölfesta lýðræðis og réttlætis
1. Með því að kjósa Samfylkinguna eru aðildarviðræður að ESB á dagskrá. Þannig fá komandi kynslóðir tækifæri og sjálfstæði til fullrar þátttöku í samstarfi frændþjóða og lýðræðisríkja.
2. Með því að kjósa Samfylkinguna eru tvinnaðar saman á heilbrigðan hátt áherslur á frumkvæði og sköpun einstaklingsins og samfélagslega ábyrgð og réttlæti.
3. Með því að kjósa Samfylkinguna verður efld lýðræðisvitund í landinu og haldið vakandi kröfunni um nauðsynlegar úrbætur á stjórnarskrá.
4. Með því að kjósa Samfylkinguna verður losað um þau bönd sem að kvótakerfi til lands og sjávar halda frumatvinnugreinunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.4.2009 kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.4.2009 | 09:40
Gljúfrasteinn-Grótta á sumardaginn fyrsta
ATORKA -mannrækt & útivist skipuleggur í fjórða skipti hjóla- og línuskautaferð frá Gljúfrasteini að Gróttu á sumardaginn fyrsta. Farið er eftir göngustígum meðfram ströndinni norðan megin og í gegnum Eliðaárdalinn og áfram með ströndinni sunnan megin.
Mæting er við Gljúfrastein upp úr kl. 9:30. Lagt er af stað kl. 10 að morgni úr Mosfellsdalnum. Leiðin er í heildina tæpir 40 kílómetrar. Gert er ráð fyrir að vera kl. 10:30 við Íþróttamiðstöðina að Varmá, kl. 11:00 við bensínstöð gegnt Gufunesbænum og 11:30 við rafstöðvarhúsið í Elliðaárdalnum. Hvílt er og borðað nesti í dalnum í hálftíma. Lagt af stað aftur kl. 12:00, komið í Nauthólsvík kl. 12:30 og komið út í Gróttu kl. 13:00. Endað er á að skoða vitann. Hægt er að vera með hluta leiðarinnar og bætast í hópinn á áðurnefndum stöðum.
Í Elliðaárdalnum verður ávarp frá Hagsmunasamtökum heimilana. Sumarið er komið, fuglarnir syngja, gróðurinn að lifna og við þurfum að hrista af okkur slen veturs og kreppumánuða. Það væri gaman að sjá sem flesta. Veðurspáin gerir ráð fyrir hlýju veðri, hugsanlega smá golu og skúrum. Ekkert sem að er ekki hægt að lifa við og klæða af sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2009 | 22:10
Atvinna, heimilin, Evrópa
Á tímabili leit ekki út fyrir að Evrópumálin yrðu áberandi í kosningabaráttunni. Félagi Bjarni Harðar pakkaði saman í sínum herbúðum. Vinstri grænir og Sjálfstæðismenn höfðu ályktað gegn aðildarumsókn og reynt enn og aftur að gera þetta að hliðarmáli.
Eftir stóð hið hrópandi tómarúm um trúverðuga stefnu í peningamálum og við því er Sjálfstæðisflokkurinn að bregðast með útspilinu um einhliða upptöku evru. Vinstri grænir virðast ætla að komast upp með að tefla fram sinni krónu og þjóðgarðasósialisma.
Margt bendir til að atvinnumálin, hagsmunir heimilanna og framtíðarstaða okkar innan Evrópu verði helstu kosningamálin.
ESB blandar sér í kosningabaráttu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2009 | 00:49
Sumarið er tíminn
Andstæðingar þess að leita samninga og bera afurðina undir þjóðina eru yfirleitt á því að það sé aldrei rétti tíminn til að hefja aðildarviðræður. Það er ekkert í samþykkt landsfundar VG sem útilokar aðildarviðræður. Þar er heldur ekkert minnst á tvöfalt þjóðaratkvæði.
Eðlilegt er að fylgja því sem Guðfríður Lilja hefur útskýrt prýðilega að þetta mál fari í dóm þjóðarinnar. VG sé lýðræðislegur flokkur þar sem að dugi að 15% þjóðar óski eftir atkvæðagreiðslu um mikilvæg mál til að þau verði sett á vogarskálar. Tökum framtíðinni fagnandi.
VG ekki tilbúinn í aðildarviðræður í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.4.2009 | 00:56
Er CCP á leið úr landi?
Fréttir af því að CCP og fleiri útflutningsfyrirtæki sem byggja á sköpun og hugviti íhugi að flytja úr landi er sérstakt áhyggjuefni. Að Ísland festist á komandi árum í frumatvinnugreinum sjávarútvegs og landbúnaðar, að viðbættum áliðnaði er afturhvarf um rúman áratug. Vinstri grænir segja; "Það eru miklir möguleikar í ferðaþjónustu". Staðreyndin er sú að þetta er ekki fast í hendi og ef vel árar í heimsbúskapnum þá eyðum við líka miklu í ferðalög. Sjálfstæðismenn segja; "Byggjum upp álver í Helguvík og sköpum störf". Staðreyndin er sú að tími smáskammtalækninga er liðinn og ekkert vit í að setja fleiri álegg í hreiðrið meðan að álverð er jafn lágt og það er um þessar mundir.
Eini flokkurinn sem að hefur plan sem að dugar atvinnulífinu í landinu, ásamt því að tryggja gengisumhverfi heimilanna er Samfylkingin. Aðildarviðræður við ESB og upptaka evru er forgangsmál. Það skapar sjálfstæði og frelsi fyrir Íslendinga. Það væri líka svo gott fyrir hina taugaveikluðu þjóðarsál sem er svo undirlögð af öfgum og andstæðum. Þjóð sem einn daginn er full af sjálfsöryggi og ríkidæmi sem dugar til að kaupa upp heiminn og næsta orðin að smáríki á leið í þjóðagjaldþrot. Þjóð sem að einn daginn er hamingjusamasta og langlífasta þjóð í heimi og næsta er hún skráð með mestu neyslu þunglyndis- og taugalyfja í heiminum.
Það er eins og ein eldri kona sagði við mig í fyrradag, kankvís á svip og óttalaus gagnvart Evrópu; "Við hefðum svo gott af því að vera í meiri tengslum við eðlilegt fólk!".
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.4.2009 | 02:35
La Camisa Negra - Helgarlagið
Hinn kólumbíski söngvari og gítarleikari Juanes er einn vinsælasti suðurameríski tónlistarmaðurinn. Hann hefur unnið til fjölda Grammy og MTV verðlauna. Tónlist hans er blanda af rokki og suðrænum takti. Þekktasta lag hans er La Camisa Negra (svarta skyrtan). Lagið olli deilum þegar nýfasistar á Ítalíu tóku það upp á arma sína og töldu nafnið vísa til svartra skyrtna sem voru einkennandi fyrir Mussólíni. Juanes afneitaði öllu slíku og sagði tengslin vera við sambandslit og ástarsorg. Respiré de ese humo amargo de tu adiós y desde que tú te fuiste yo solo tengo la camisa negra segir í textanum sem gæti verið þýtt Andaði bitrum reyk kveðju þinnar og síðan hef ég bara svörtu skyrtuna".
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2009 | 09:49
Myljum niður íhaldið
Einbeittur brotavilji Sjálfstæðisflokksins birtist skýrt í stjórnarskrármálinu. Markmið tillagna að breytingum var að tryggja betri grundvöll undir lýðræðishefðir í landinu og árétta með skýrari hætti eign á sameiginlegum auðlindum. Hvorugt hugnast íhaldinu. Flokknum er ekki vel við hugmyndir sem lúta að íbúalýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslum. Að sjálfsögðu er flokkurinn líka hagsmunaklíka um LÍÚ og séreignarrétt á fiskveiðiheimildum.
Gamalreyndur Hafnfirðingur sem að er orðinn lúinn af lífsins göngu, bæði til líkama og sálar, las mér boðskapinn um daginn. Það færðist yfir hann lífskraftur, snerpa og ákveðni í röddina. Hann sagði; "Það er aðalmálið í þessum kosningum að mylja niður íhaldið, ef það gerist ekki núna þá verður það aldrei". Þetta er verðugt verkefni að brjóta niður þetta spillta valdakerfi sem þróaðist í kringum fjárhagslega fyrirgreiðslu.
Kjölfesta lýðræðis og réttlætis er öflug hreyfing jafnaðarmanna. Við þurfum líka flokk sem fer opinn og bjartsýnn inn í framtíðina. Flokk sem að mun gefa kjósendum möguleika á að hefja viðræður við Evrópusambandið. Undirbúa samning sem þjóðin úrskurðar um hvort að sé góður grunnur að samvinnu landsins við önnur lýðræðisríki í álfunni. Að svipta fólk þessum möguleika er ólýðræðislegt.
Stjórnarskrá ekki breytt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)