Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Niðurgreiða rafmagn til gróðurhúsa!

Þetta er góð tillaga og hefur verið nokkuð lengi í umræðunni. Nú er hinsvegar lag að láta hana verða að veruleika. Við erum heimsmeistarar í sykuráti sem að leiðir af sér allskyns lífstílsvanda. Ekki bara sykursýki og offitu, heldur dansar sykurneyslan með stressástandi þjóðarinnar. Það er mín tilgáta (sem ég ætlaði að fá doktorsnafnbót fyrir) að taugaspenningurinn kalli á sykurinn. Þannig að hin raunverulega lausn vandans felst ef til vill ekki í því að hafa vit fyrir fólki með verðstýringu. Ekki frekar en sérstakar álögur á tóbak og áfengi eru ekki öruggar til að draga úr neyslu.

Því hefur verið fagnað að íslensk ungmenni hafi aukið neyslu á mjólkurvörum, en rétt er að skoða það í samhengi. Neyslan jókst þegar búið var að breyta mjólkurvörum í sælgæti með allskyns útgáfum af bragðbættum vörum með viðbættum sykri. Við setjum sykur út í ótrúlega margar unnar vörur. Það er rétt skref að setja skatt á sykurinn, en við verðum líka að huga að því að búa í haginn fyrir framleiðslu á hollustu. Þar er nærtækast að líta til niðurgreiðslu á raforku til garðyrkju og gróðurhúsa.


mbl.is Sykurskattur fyrir lýðheilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kyrrðin í ferðalaginu

rólegur ferdamati
Líklegt er að margir upplifi tilveruna í öðru samhengi en fyrir ári síðan. Þó að kjörin séu þrengri og ýmislegt í minna magni en áður var, þá gæti hér einmitt verið gott tækifæri að breyta áherslum hversdagsleikans. Að beina athyglinni frá skortinum í veraldlegum og efnislegum lystisemdum að ilminum af birkinu og lynginu, söng fuglanna og lækjarniðnum, finna regndropana falla og sólina skína. Að vera og njóta tengsla við náttúruna á virkan hátt með öllum skilningarvitum. Verndun rolegur ferdamati2umhverfis og heilsuefling byggir á sameiginlegum þræði sem liggur í heilnæmi mannsins ganvart eigin tilvist og náttúrunni.
Vakning hefur orðið víða heim undir kjörorðinu Slow Travel eða rólegur ferðamáti. Hann felur það í sér að dvelja lengur á áhugaverðu svæði frekar en að krossa við alla áhugaverðu staðina í bílsætinu á hraðferð um landið. Stafafell í Lóni hefur verið skipulagt sem náttúrugarður (natural park) sem spannar um 400 rolegur ferdamati3ferkílómetra svæði og liggur frá fjöru til fjalla, um 40 kílómetra leið upp með Jökulsá í Lóni að vatnaskilum við Fljótsdal. Þetta er eitt af fáum svæðum landsins þar sem hægt er að skilja bílinn eftir við hringveginn og leggja af stað í viku ferðalag með nesti og nýja skó. Vera á hverjum degi að komast í kynni við ný ævintýralönd. Upplifa fjölbreytileika íslenskrar náttúru eins og hann verður hvað mestur.
Á síðustu árum hafa göngubrýr, skálar rolegur ferdamati4og tjaldstæði gert aðstöðu til gönguferða ákjósanlega. Þetta er svæði þar sem að er tiltölulega lítið af ferðamönnum. Víðáttan er það mikil að svæðið mun seint verða of fjölsótt. Helstu þjónustusvæði með skálagistingu og tjaldstæðum eru í byggð, Eskifelli og Kollumúla. Göngufólki er keyrt til fjalla eða sótt að morgni dags og á kvöldin. Daglegar ferðir eru í Austurskóga og farið af stað klukkan 11 að morgni. Áning með hádegishressingu er í "Friðrikslundi". En þar er grenjakofi Friðriks rolegur ferdamati5Jónssonar frá Hraunkoti en hann var sannkallað náttúrubarn. Var veiðimaður á hreindýr, nytjafugla s.s. endur og gæs, silung og ál, ásamt því að vera minka- og refaskytta. Í anda hans verður leitast við að efla tengslin við náttúruna og fjölbreytilegar afurðir hennar.
Á síðasta sumri hitti ég tvenn íslensk hjón sem dvöldu í sínum braggatjöldum í fjórar nætur á fjallatjaldstæði í Smiðjunesi Stafafelli. Þau gátu í eina fimm daga búið sér til ný ævintýri. Skoða sig um, ganga á tinda, vera í leti. rolegur ferdamati6Kynnast umhverfinu og nýta tækifærin. Þetta voru Íslendingar og kunnu svo sannarlega að ferðast og skapa eftirminnilega reisu á ódýran hátt.

Að stokka upp spilin

Næstu sveitarstjórnarkosningar væru tilvaldar sem vettvangur fyrir fyrstu útfærslu persónukjörs hér á landi. Miklar útstrikanir af listum sýna áhuga kjósenda á að velja einstaklinga af framboðslistum flokkana. Persónukjörið myndi innleiða þessa hefð með jákvæðum formerkjum. Að velja þá sem taldir eru líklegir til góðra verka frekar en að strika út þá sem að fólk vill ekki að nái árangri.

Ég hef lengi verið áhugamaður um þróun lýðræðis. Þar hafa verið ýmis tækifæri með íhaldið við taumana í landsmálum og sveitarstjórn. Við höfum búið við tvö meingölluð form við val á frambjóðendum. Annarsvegar uppstillinganefndir þar sem fámennar klíkur raða sjálfum sér og velunnurum á lista eða hinsvegar prófkjör þar sem fjármagnið og smalamennska hafa ráðið úrslitum. Persónukjör stuðlar að virkum samskiptum og auðmýkt gagnvart umbjóðendunum, kjósendum.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var ég þátttakandi í umræðu innan Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ um að framboðið yrði að láta félagsmenn raða upp listanum með einhverjum hætti. Þeir sem að voru í forsvari bæjarmálana töldu að lítil þátttaka yrði í slíkri kosningu og sáu henni allt til foráttu. Ákveðið var að setja málið í hendur uppstillinganefndar og ég var ósáttur. Mér fannst þetta ekki nógu opið og lýðræðislegt fyrirkomulag.

Samfylkingin verður að vera samfélagsafl með þræði sína virka út um allt bæjarfélagið, en varast að vera fámennur eða einsleitur hópur. Á síðasta aðalfundi flokksins hér í Mosfellsbæ voru það mér vonbrigði að félagsmálatröll í sveitarfélaginu sem buðu sig fram til stjórnar náðu ekki kosningu. Fólk sem staðið hefur vaktina um brýn og verðug hagsmunamál. Það má aldrei verða svo að það eitt að kveða sér hljóðs og vera þátttakandi verði talið til ókosta í flokki samræðunnar. 

Lýsi því hér með yfir að ég gef kost á mér á þann lista sem stillir upp persónukjöri og setur áherslur á umhverfismál, íbúalýðræði og eflingu mannlífs í Mosfellsbæ. Hlýt að eiga góða möguleika ef þetta gengur út á sjarma og málefni Heart W00t. Amma mín, Ragnhildur, notaði oftast einn mælikvarða á ókunnugar persónur. Það var hvort viðkomandi væri "þægilegur". Þannig sagði hún stundum; "Þetta var sérlega þægilegur maður .... ég gæti alveg trúað að hann væri framsóknarmaður".


mbl.is Persónukjör á næsta ári?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland

Það er viðeigandi að Norræna húsið hafi verið einn helsti vettvangur við lokamótun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Það er okkar fyrsti hlekkur í alþjóðlegu samstarfi og á þeim vettvangi verða stilltir saman strengir inn í stefnumótun í Evrópusambandinu. Þannig ná norrænu þjóðirnar sameiginlega viðunandi þunga inn í samstarfið.

Það er eina rétta leiðin miðað við þær aðstæður sem uppi eru að fela Alþingi að taka afstöðu til þingsályktunartillögu þess efnis að óskað verði eftir viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Nú reynir sem aldrei fyrr á virðingu þingsins og að þeir sem þar sitja fylgi eigin sannfæringu en ekki flokkslínum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Bjarni Benediktsson greiðir atkvæði. Hann er greinilega hlynntur samstarfi lýðræðisríkja í álfunni en túlkar nú opinberlega stefnu landsfundar sem ákvað að láta LÍÚ ráða ferðinni á lokametrunum.

Margt bendir til þess að félagslega og lýðræðislega sinnuð öfl geti náð meirihluta um nokkuð langt skeið. En vinstri flokkarnir verða heldur betur að halda vöku sinni og ávallt vera í virkum tengslum við fólk og fyrirtæki til að endurreisa efnahag þjóðarinnar.


mbl.is Ætla að treysta á andstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó, vaknað þú minn Árni Páll

Samkvæmt fréttum af málefnahópi Vinstri grænna gera þeir tillögu að leiðréttingu á húsnæðislánum vegna gengis og verðtryggingar. Haft er eftir Ámunda Loftssyni að hann telji leið greiðsluaðlögunar óframkvæmanlega.

Vissulega þarf að setja ákveðin skilyrði á leiðréttingu lána, þannig að hún beinist sértækt að því að vernda eignarhluta fólks í íbúðarhúsnæði. Þannig verði til dæmis miðað við eitthvað hámark veðsetningar t.d. 10 milljónir á hvern lögaðila.

Helstu stofnanir stjórnarflokkana funda í dag um þessi mál og mér finnst það hart ef að Samfylkingin fer að verða eini flokkurinn sem ekki skynjar vandann. Árni Páll Árnason hefur verið helsti talsmaður greiðsluaðlögunar, sem vissulega léttir greiðslubirgði en skuldirnar vaxa.


mbl.is Funduðu ekki með ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskoðun sjávarútvegsstefnu nauðsynleg

Brýnt er að endurskoða sjávarútvegsstefnuna, en þó þannig að ekki verði spillt fyrir rekstri öflugra fyrirtækja sem eru meginstoðir byggðarlaga. Um fátt hafa verið meiri deilur hér á landi en fiskveiðistjórnina eða svonefnt kvótakerfi. Margt bendir til að gjafakvótinn hafi hleypt af stað þeirri peninga- og neysluhyggju sem varð okkar efnahagslífi að falli.

Hér þarf því að móta stefnu sem tekur tillit til þeirra fyrirtækja sem eru í góðum rekstri og nýta vel sínar heimildir. Skera þarf burt meinsemdirnar og LÍU lýsir sig reiðubúið að endurskoða framsal og leigu á kvóta. Tryggja þarf að rekstraumhverfi haldist sem best. Til dæmis með möguleikum útgerða að skipta á heimildum. Ástæðulaust er að óttast "óvissu og átök" meira en verið hefur. 

En allir geta verið sammála um að það er óeðlilegt að einhverjir sem ekki eiga skip eða stöð til útgerðar maki krókinn á kvótaleigu. Þá er eðlilegt að slíkt gjald gangi til ríkissjóðs. Skuldsetning sjávarútvegs er gífurleg og þó nokkur fjöldi fyrirtækja komin í þrot. Ríkisbankarnir eru oftast stærstu kröfuhafar og því eðlilegt að ríkið haldi fiskveiðiheimildunum til sanngjarnrar útleigu.

Í framhaldi af niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna lýsti ríkisstjórn Geirs Haarde yfir vilja til að laga kerfið að athugasemdunum. Ekkert var gert. Nú er rétti tíminn að fara í skurðaðgerðir á helstu meinsemdum fiskveiðistjórnunarinnar. Opna á nýliðun, sem tryggir athafnafrelsi og sanngirni í umgengni við þessa sameiginlegu auðlind.


mbl.is Bæjarráð Hornafjarðar varar við fyrningarleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fairytale Helgarlagið

Ein af mörgum ánægjulegum afurðum samstarfs þjóða í Evrópu er söngvakeppnin. Margir láta þannig að þetta sé fyrir neðan þeirra virðingu og vissulega má öllu ofgera. Til dæmis fannst mér forkeppnin hér á landi vera alltof umfangsmikið sjónvarpsefni. En þegar á hólminn er komið þá laumast allir fyrir framan imbakassana eða flatvörpurnar og horfa á keppnina. Líkt og allir horfðu á Dallas þó að sumir hefðu ekki hátt um það.

Þó Íslendingar séu með mjög gott lag í keppninni, þá finnst mér það vanta meiri neista, geggjun, orku, líf. Út frá þessu viðmiði er ég búin að velja mér sigurvegara. Það er Noregur með hinn mikla gleðigjafa og tónlistarsnilling Alexander Rybak. Hann er að nokkru á heimaslóð því hann fæddist í Minsk í fyrrum Sovétríkjum. Hann flutti fjögurra ára gamall með foreldrum sínum til Noregs, en þau eru þekkt tónlistarfólk þar í landi.

Ísland, Rússland og sennilega Noregur eig það sameiginlegt að þar eru flestir eru að eltast við ástina sem þeir misstu eða ekki fengu. Í textanum lýsir Alexander því að hann ætli halda ást sinni á  "fairytale" þó að hann gæti misst vitið. Þetta er maður að mínu skapi, með góðan smell inn í sumarið. Sagt er að Norðmenn séu það stoltir af þjóðerninu að á tyllidögum segist þeir vera norskir norðmenn, en ég ætla að vera stoltur íslenskur norðmaður þegar piltur stendur með pálmann í höndunum í Moskvu.


Einungis fjórðungur landsmanna á móti aðildarviðræðum

Samkvæmt skoðanakönnun Gallup eru 61.2% landsmanna afgerandi hlynnt því að sótt verði um aðild að sambandi lýðræðisríkja í Evrópu, en 26,9% á móti. Þeir sem að taka ekki afstöðu eru 11,8%. Ef skoðaðar eru tölur í undirskriftasöfnunum með (www.sammala.is) og á móti (www.osammala.is) þá eru þrefalt fleiri sem vilja aðildarviðræður.

Þetta er mikilvægt mat á vilja landsmanna fyrir þingmenn þegar þeir gera upp hug sinn í þessu máli nú á sumarþinginu. Meirihluti allra flokka nema Sjálfstæðisflokks vill aðildarviðræður. Þar er þó innan við helmingur (48%) á móti aðildarviðræðum en stuðningsmenn litlu færri (41%). Guðbjörn Guðbjörnsso lýsir í færslu á sinni síðu hvernig gömlu valdaklíkunni í flokknum tókst að loka á þetta mál og ná fram andstöðu flokksins á landsfundi. Telja má líklegt að margir kjósenda flokksins séu því ósjálfstæðir í þessu máli og lúti flokkslínunni.

Það er vissulega til umhugsunar að svo virðist sem Bjarni Benediktsson hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins sé að hóta því að beitt verði flokksaga og spillt fyrir þessu máli. Að flokkurinn muni ekki "losa ríkisstjórnina úr snörunni" í þessu máli. Hann segir líka; „Það má vel vera að menn í flokknum hafi ólíkar skoðanir en það eru allir sammála um að það sé óskynsamlegt að veita umboð sem gengur út á það að Samfylkingin fari til Brussel og semji um aðild Íslands að Evrópusambandinu."

Það er vitað að stuðningur við aðildarviðræður er mikill í öllum flokkum og því verður málið prófsteinn á virðingu Alþingis og hvort þingmenn fylgi eigin samvisku í umræðum og afgreiðslu þess. Vitað er að þingmeirihluti er fyrir því að hefja aðildarviðræður og þeir þingmenn sem að óttast refsivönd fyrrum einvalds Davíðs Oddssonar eða trúa á algilda visku Hjörleifs Guttormssonar frænda þá geta þeir sótt styrk til meirihluta þjóðarinnar.

Það er því eðlilegt að sýna landi og þjóð hollustu og reyna ekki frekari skemmdarverk á lýðræðislegri framvindu málsins.


mbl.is 61,2% vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilningsleysi Sighvats Björgvinssonar

Helsti kostur stjórnmálamanns hlýtur að vera ef honum tekst að halda auðmýkt gagnvart því hlutverki að vera fulltrúi fólksins. Ganga fram með heildarsýn sem skilar sem flestum viðunandi úrbótum og lausnum, grundvöll til framtíðar. Með bankahruninu kipptu gengisbreytingar og verðtrygging fjárhagslegu öryggi stórs hluta heimilanna í landinu.

Hagsmunasamtök heimilanna og nú talsmaður neytenda hafa talað fyrir leiðréttingu á þessum hluta húsnæðislána. Íbúðarhúsnæðið sé kjölfesta fjölskyldulífs og útgangspunktur í sparnaði. Yfirvinna til margra ára hefur safnast í eignarhluta í húsnæði, sem gengi og verðtrygging hafa brennt upp að verulegum hluta á síðasta ári.

Um þetta vandamál talar Sighvatur Björgvinsson ekkert í grein sinni í Fréttablaði dagsins. Greinin er andsvar til Benedikts Sigurðarsonar á Akureyri. Sighvatur heldur þeirri staðreynd ekki til haga að það var pólitísk aðgerð að veita 200 milljörðum í peningamálasjóði og 600 milljörðum til að tryggja tapað sparifé að fullu.

Megininntak greinar hans fer í að verja verðtryggingu fjárskuldbindinga. Hann rekur réttilega þann vanda sem að var á verðbólgutímanum þegar bæði sparifé og lán urðu að engu á litlum tíma. En hann virðist ekki átta sig á því að ungt fólk og á miðjum aldri stendur nú frami fyrir vandanum með öfugum formerkjum. Höfuðstóllinn rýrnar hratt í verðbólgu síðustu mánaða.

Sighvatur segir; "Mér er ljóst, að margt fólk á nú við erfiðleika að etja vegna skuldsetningar. Þeim þarf að bjarga, sem hægt er - en sumum er einfaldlega ekki hægt að bjarga. Þeim, sem farið hafa offari í að reyna að lifa á sparnaði annarra verður ekki bjargað". Það er enginn að biðja um ölmusu heldur leiðréttingu. Réttlæti að eignir þessa hóps séu verndaðar líkt og sparifjáreigenda.

Því miður hefur trú mín á skilningi Sighvats Björgvinssonar á kjörum alþýðunnar minnkað með þessari grein. Svo virðist vera að hann vilji eingöngu tryggja hlut sparifjáreigenda og lífeyrissjóða í efnahagskerfi landsins. Hann skynjar ekki vandann og að það er betri leið að gera slíka leiðréttingu á húsnæðislánum frekar en að stefna hinum mikla fjölda í þrot.


Hinn nýi siður

ThorgeirÞjóðin skiptist í tvær fylkingar um hvort ávinningur sé af fullgildingu samstarfs okkar við önnur lönd í álfunni með aðild að Evrópusambandinu. Samkennari minn benti mér á að þessu mætti að nokkru líkja við aðstæður sem ríktu við kristnitökuna á Þingvöllum árið 1000. Því er eðlilegt að spurt sé hver gæti nú tekið að sér hlutverk Þorgeirs ljósvetningagoða og leitt okkur að skynsamlegri ákvörðun í málinu. Persónulega finnst mér eðlilegt og lýðræðislegt að það verði samviska þeirra sem nú sitja Alþingi sem tekur ákvörðun um aðildarviðræður og þjóðin kjósi um niðurstöðuna.

Það er erfitt að taka undir sjónarmið þeirra sem vilja ekki að þetta mál fái farveg til ákvörðunar. Þá munu fylkingarnar halda áfram vopnaskakinu og ganga á orkubirgðir þegnana með málþófi án niðurstöðu. Uppskeran verður sundrung og sundurlyndi meðal þjóðarinnar. Sitt hvor fylkingin reynir að kaffæra hina með gífuryrðum og allir standa hálfringlaðir. Gætum við ekki lengur keypt cheerios og korn flakes eftir að við værum gengin í ESB? Þessari grundvallarspurningu hefur verið velt upp á bloggsíðum nýlega. Við verðum þá allavega að vona að hægt verði áfram að snæða hina amerísku morgunhringi á laun í skúmaskotum.

Fyrir árið 1000 var kristniboð reynt með misjöfnum árangri á Íslandi þar sem heiðinn siður var enn fastur í sessi.  Sumarið 1000 dró til tíðinda á Alþingi á Þingvöllum.   Upplausn var yfirvofandi í hinu unga samfélagi þar sem þingheimur hafði skipst í tvær fylkingar heiðinna manna og kristinna. Fylkingarnar höfðu hvor sinn lögsögumann og sögðu sig úr lögum hvor við aðra. Lögsögumennirnir tveir sammæltust um að Þorgeir ljósvetningagoði lögsögumaður heiðinna skyldi ákveða hvaða trú Íslendingar allir skyldu taka.   Þorgeir lagðist undir feld og hafðist þar við nóttina og næsta dag.  Eftir það gekk hann að Lögbergi og kvað upp þann úrskurð að Íslendingar skyldu taka kristna trú en heiðnir fengju áfram að stunda sína trú þótt leynt skyldi fara. 

Ræða Þorgeirs ljósvetningagoða markaði þáttaskil á Íslandi en með henni hóf kristin trú innreið sína í íslenskt samfélag án vopnaskaks og blóðsúthellinga.  Með kristni áttu erlendir menningarstraumar greiðari leið til landsins og bókmenning hófst með kennslu í lestri og skrift. 

http://www.thingvellir.is/saga/kristnitaka/


mbl.is Flokkarnir eru ósammála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband