Blóm vikunnar Smjörgras

nullJanúar og febrúar eru mánuðir umhleypinga og fannfergis. Þessa dagana þekur snjórinn landið og verðbréfin falla hratt í verði. Þá er kjörið að láta hugann reika til hækkandi sólar og betri tíðar, er smjör mun drjúpa af hverju strái. Smjörgras finnst einkum í grónum brekkum og hlíðum til fjalla. Það er algengt inn til landsins því það getur vaxið í allt að 1000 metra hæð. Þessi planta var í tæplega 700 metra hæð í norðanverðum Vesturdal, Stafafelli í Lóni, þann 6. júlí 2004.

Heilsuefling ofar hátækni

Almannatryggingar

Á sínum tíma var ákveðið að leggja verulegan hluta af sölu Landsímans í byggingu hátæknisjúkrahúss. Orðið sjálft er fremur kuldalegt og fáir skilja fyllilega merkingu þess. En eitt er víst að samkvæmt þeim hugmyndum sem voru á sveimi þá átti það að taka mikið landrými. Þannig að hér átti að byggja stórt sjúkrahús, sem væri vel útbúið öllum tækjum og tólum. Orðið vísar til þess líka að það verði áherslur á "viðgerðir" og bráðalækningar. Nýta nýjustu tækni í að skipta um þetta og hitt. Þó fjármagn sé til staðar, þá er alltaf spurning hvar því er best varið. Áherslur heilbrigðisgeirans hafa að mestu legið í þróun tæknilegra inngripa og lyfja. Á endanum fer fólk að fá á tilfinninguna að það sé til fyrir heilbrigðiskerfið, en ekki að kerfið miði þjónustu sína við þeirra þarfir.

Nú er búið að skipa nýja nefnd, sem ekki á að takmarka skoðun sína við hið svonefnda hátæknisjúkrahús, heldur ennig að skoða húsnæðismál og þarfir heilbrigðiskerfisins í heild. Vonandi gefst tækifæri til að meta og endurskoða áherslur í þessum málum. Lýður Árnason farandlæknir á Vestfjörðum hefur skrifað gegn þessari ofuráherslu á risabyggingu og hátækni. Það þarf að gera meira en að tala um forvarnir og heilsueflingu á tyllidögum. Það þarf að þróa heilsueflingu þannig að hún byggi á góðum rannsóknum, tækjum og tólum. Það þarf að brúa bilið milli líkamsræktar og heilsugeirans og háskólasamfélagsins. Því var það ánægjulegt að nýlega var gert samkomulag milli World Class -Laugar og Íþróttaskólans á Laugarvatni (KÍ-Íþróttaskor) um rannsóknir.

Heilbrigðiskerfi

Við þurfum ekki síður að styrkja heilsueflingu, heldur en þann hluta sem bregst við sjúkdómum. Flestir kvillar sem herja á fólk hafa verið áratugi í þróun og það á ekki að þurfa að bíða eftir að einstaklingur detti niður með hjartaáfall til að kerfið bregðist við. Við þurfum að stuðla að kerfi þar sem fólk fær greitt fyrir að vera heilbrigt, stunda heilsueflingu, frekar en að binda greiðslur við sjúkdóma, það að viðkomandi sanni að hann sé veikur. Sjúkdómakerfi eins og nú tíðkast er mikið misnotað. Eina birtingarmynd þess sér maður í framhaldsskólum þar sem að er gróf misnotkun á veikindavottorðum. Verst er þó að vita af því að læknar taka iðulega þátt í þessum ósannindum með krökkunum. "Læknisvottorðið verður tilbúið í móttökunni" er ungmenninu sagt, sem hefur hringt inn og þarf að redda skólamætingunni. 

Áhersla á að umbuna heilsueflingu er rétt nálgun í því að vinna gegn lífstílstengdum kvillum eða menningarsjúkdómum. Meginþungi athyglinnar á ekki að fara í leit að veikindum heldur hvað sé hægt sé að gera til að styrkja og efla hreysti. Ekki að beinast eingöngu að ástæðum þess að nemandi hefur lélega skólasókn, heldur sé áherslan á gildi þess og umbun að mæta og vera virkur. Ég hef stungið upp á því, bæði í gríni og alvöru að koma upp augnskönnum á Esjunni og fellunum í kring um Mosfellsbæ. Síðan fengju þeir frádrátt frá skatti sem tækju þátt og hvati væri til staðar að fara sem oftast. Umbunin væri t.d. hundrað krónur per hundrað metra hækkun. Það myndu allir græða, ekki síst vinnuveitendur og ríkið.

Kerfið

Hliðstæðar hugmyndir eru uppi um svo nefndan "hreyfiseðil" sem að væri ávísaður af lækni líkt og lyf gegn hinum ýmsu kvillum. Ég held að sú hugsun að það sé nauðsynlegt að fá uppáskrift læknis stuðli að óþarfa sjúkdómsvæðingu á hollustunni. Nóg er að það sé vel rannsakað hvaða leiðir séu að skila bestum árangri við að stykja, efla eða tryggja jafnvægi í starfsemi líkamans. Síðan sé það ríkulega umbunað af samfélaginu að sem flestir leiti eftir hreysti.

 "Það er ekki mælikvarði á heilbrigði að hafa aðlagað sig vel að sjúku samfélagi" 

- Jiddu Krishnamurti


Áskorun

DómurLíta verður á það sem skyldu þegnana að bregðast við og láta skoðun sína í ljós þegar ráðamenn hafa misnotað vald sitt. Nú er svo komið að vinur, frændi og sonur sama manns hafa verið valdir til stöðu hæstaréttar og héraðsdómara. Sá maður var forsætisráðherra um langt skeið og dómsmálaráðherrar sem skipuðu í stöður eru vinir hans og samstarfsmenn til margra ára. Með slíkum stöðuveitingum er sótt að sjálfstæði dómstóla. Skrif Péturs Kr. Hafstein og Sigurðar Líndal undirstrika að þessar áhyggjur liggja þvert á allar flokkslínur. Hafin er undirskriftasöfnun á netinu með áskorun til alþingismanna að búa svo um hnútana með breytingum á lögum að tryggt sé að skipan dómara byggi ekki á persónulegum tengslum við stjórnsýsluna, heldur á faglegu mati.

 

Vefslóðin er www.domaraskipan.net


Kaffi og karlmennska

Karlmennska

Í samskiptum er oft gert ráð fyrir að allir séu eins. "Má bjóða þér kaffi". "Ja, júúuu eeen áttu nokkuð te". Þannig hefur maður æði oft þurft að beygja sig og bugta gagnvart hinni miklu hefð að kaffið sé tákn gestrisninnar. Það er því ekki góð byrjun, þegar gestgjafi ætlar að veita höfðinglega að vera þá með sérvisku og sérþarfir. Satt best að segja hef ég oft pínt í mig þetta eiturlyf af tómri kurteisi. Annað sem maður hefur lengi látið yfir sig ganga er þetta endalausa tal um fótbolta. Það virðist vera hornsteinn karlakúltúrsins. Man eftir því einn laugardag er Bjarni Fel var með getraunaþátt að þá var einhver "tippari" vestan af fjörðum sem hringdi inn og hann var harður og mikill aðdáandi Arsenal. Þá hafði nýlega hætt einn besti leikmaður liðsins. Bjarni spyr hann snöggt og alvöruþrunginn hvernig honum  hafi orðið við að heyra þessi tíðindi. Vestfirðingurinn svaraði að bragði; "Þetta var auðvitað mikið áfall!". Hann var svo djúpt hrærður og var ekki samur eftir þessi ósköp. Þetta var trúlega stærsta raketta tilfinningalífsins það árið. 

Hef æði oft þurft að sitja með mitt te og hlusta á karlana ræða boltann. Finnst gaman að spila fótbolta og hef gert töluvert af því í gegnum árin. En mér finnst fótboltaleikur lélegt sjónvarpsefni, sem endar iðulega með jafntefli og ekkert hefur gerst. En þó er fótbolti enn síðra umræðuefni.  Vinnufélagarnir eru núna á leiðinni til London á fótboltaleik í næsta mánuði. Þeirra ástaratlot þessa dagana eru því einkum að vera sem spertastir og æsa hvern annan í ferðagírinn. Hvar séu nú góðir pöbbar og svo framvegis. Ég var í London fyrir rúmum mánuði og fann þá tvo góða salsa staði. Salsa Fusion og Salsa Club. Ég stakk upp á því við hina ferðaglöðu karla hvort að ég ætti ekki bara að koma með og þessu yrði breytt í svona latin stemmingu og æfðir salsataktar. Engar undirtektir. Engar!!!  

Það kemur fyrir að ég reyni að taka þátt líkt og var áður með kaffið. Ég pantaði sem barn fótboltabúning frá sportvöruverslun Ingólfs Óskarssonar. Þeir sendu Stoke búning. Síðan sagði ég alltaf að ég héldi með Stoke. Saman fór ég með þessu liði niður í dal volæðis og tára. Uppskar litla aðdáun út á þessa hollustu.   En svo eignuðust Íslendingar liðið og þá gat ég sagt eins og spertur hani; "Ég held með Stoke!" Síðan veit ég ekki hvort það er ennþá í lagi að halda með Stoke? Þetta virðist ekki lengur vera eitt af óskabörnum þjóðarinnar eða ein af stjörnum í útrásinni. Þegar rætt er um íslenskan bolta eins og oft gerist á sumrin, þá sit ég og hlusta. En spyr e.t.v. svona bara til að taka þátt; "Vitið þið hvernig Sindra gengur". Ég man nefnilega að liðið heitir það á mínum slóðum í Austrinu. En slíkt opnar sjaldan á frjóar umræður.

Af þessu má sjá að það er ekki alltaf auðvelt að passa inn í hópinn. Satt best að segja óttast ég að vera einhvern tíma staddur í spjallþætti og þurfa að tjá mig um fótbolta. Hvaða lið ég telji að verði Íslandsmeistari og síðan er ætlast til að ég rökstyðji þann spádóm í löngu máli. Það virðist vera mikil samstaða fjölmiðlamanna um að allir eigi að hafa skoðanir og meiningar um einstök lið og leikmenn. En líkt og ákveðniþjálfunin mín hefur gert mér kleift að segja nei við kaffi, þá held ég haldi bara áfram að lifa samkvæmt mínu áhugasviði. Alltaf til í að ræða málin, en ef til vill í stað fótbolta kæmi rope yoga, zumba þolfimi, öndun og fleiri leiðir til að efla vellíðan og gott flæði. Það á líka erindi í karlakúltúrinn.


Hesthúsahverfin

Gustur

Var að koma í hús eftir að hafa lokið fyrsta almennilega útreiðatúr vetrarins, í góðu veðri en frekar köldu. Fórum upp í Laxnes. Tókum hring að Helgadal og Æsustöðum. Hann Ljómi minn tekur framförum, verður átta vetra í vor. Þarf að fella betur hausinn til að eiga auðveldara með töltið. Það verður verkefni næstu vikna að fara eitthvað með hann í reiðhöllina, þar sem að ágætt er að ríða honum á hring. Styrkja á báðar hliðar og auðvelda honum að bæta töltið, því ekki vantar hann kraftinn.

Hesthúsahverfið hér í Mosfellsbæ hefur verið mekka hestamennskunnar með góðri aðstöðu. Byrjað er á nýrri reiðhöll. Það verður þó að segjast eins og er að byggðin þrengir smátt og smátt að náttúrustemmingunni og möguleikum til útreiða. Sama þróun er víða annars staðar með hesthúsahverfin í borginni. Allir þekkja það hvernig Gustshverfið í Kópavogi lokaðist inni og fer undir íbúabyggð. Mikið hefur þrengst að Víðidal og Heimsenda.

Það hesthúsahverfi sem mér sýnist að eigi bjartasta framtíð fyrir sér eru Fjárborgir. Fór nýlega í útreiðatúr þar, eftir fallegum skógarstígum í átt að Rauðavatni og hinum megin Vesturlandsvegar eru spennandi reiðleiðir um Rauðhóla og í átt að Heiðmörk. Fátt bendir til að íbúabyggð muni þrengja að þessu svæði. Nú hefur hestamannafélagið Fákur byrjað mikla uppbyggingu húsa á þessu svæði. Ég hef trú á því að þetta verði, eftir nokkur ár, áhugaverðasta hesthúsabyggðin á höfuðborgarsvæðinu.


Bara brjóst

Bara brjóstÁnægjulegt er að frétta af skeleggri jafnréttisbaráttu frændsystra okkar á Norðurlöndunum. Styð hana af heilum hug og vona að þær nái fram rétti sínum. Aðgerðirnar byrjuðu í Svíþjóð og nú í kvöldfréttum Sjónvarps var sýnt hvar danskar konur stormuðu til laugar einungis með streng um sig miðjar. Eitt kjörorðið er að þetta séu "bara brjóst" og það hafi nú allar konur eitthvað svipaðan útbúnað.

Gunnar Þorsteinsson í Krossinum sagði eitt sinn að sundlaugar og pottarnir væru uppsprettur syndsamlegra hugsana. En þegar málið var á þeim tíma borið undir Pálma Matthíasson séra, séra, þá fannst honum ekkert athugavert við það að menn og konur virtu fyrir sér sköpunarverk Guðs. Það er því vandséð hvort að baráttan gleðji þann í efra eða neðra.

Gera má ráð fyrir að þessi vakning kvenna muni berast að Íslandsströndum. Það má því búast við að á sólbjörtum sumardegi t.d. í Laugardalnum, muni hópur kvenna forma kröfu sína, brjótast úr hlekkjum og svífa um með full réttindi og frelsi.


Verði þinn vilji

Jesú tárast

Eitt af því sem komið hefur mér á óvart síðustu mánuði eru fyrirferðarmikil skrif þeirra sem spá allsherjarstríði milli kristinna manna og múslima. Sótt er að þeim persónulega sem viðra önnur sjónarmið. Dómharka og hroki í nafni trúar. Þeir sem hafa takmarkaða þekkingu á rúnum trúarrita og sjá ekki þessi teikn á lofti eru afgreiddir sem vitgrannir einfeldningar. En ef til vill er það ekki versta hlutskiptið að vera einfaldur, ef það væri raunin. -Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það eigi, því þeirra er Guðs ríki-. Það getur enginn útnefnt sjálfan sig sem hinn rétta fulltrúa almættisins eða að geta á þeim forsendum talað niður til fólks. Þó trúarrit geti verið góðir leiðarvísar þá eru innsæi og hlýja, vilji og hjartalag þau fjöregg sem að okkur eru gefin til að framkvæma vilja Guðs. Þessir eiginleikar mannsins eru þau vopn sem við eigum að nýta, því bókstafurinn einn skilar okkur skammt í áttina að bættum heimi..

Tók rökræðu við Vilhjálm Örn Vilhjálmsson um friðarferli í Miðausturlöndum.


Langflestir vilja upprunalegan stíl

Það er alltaf sitt hvað að gera skoðanakannanir og túlka niðurstöður þeirra. Þannig er ekki rétt að stilla fólki gagnvart spurningunni viltu rífa húsin eða vernda þau. Fyrirsögn þessarar fréttar hefði átt að vera á þeim nótum að draga fram að um 70% vilja byggja í upprunalegum stíl, hvort sem að þar koma ný hús eða þessi verði endurbyggð. Þessi áhersla á að viðhalda gamla stílnum er meginniðurstaða, ef að menntamálaráðherra er í óvissu. Hún hefur lýst yfir að hún muni byggja ákvörðun sína á vilja fólksins.
mbl.is Meirihlutinn vill ný hús við Laugaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóm vikunnar Dýjamosi

nullPlanta vikunnar er Dýjamosi og tilheyrir því lágplöntum. Þörungar og mosar hafa ekki æðar sem að skýrir afhverju þær haldast lágvaxnar. Dýjamosinn er fallegur fyrir sinn sterka sígræna lit. Oft er hann nálægt lækjum og lindum. Úði eða ragn myndar dropa sem að perlast á yfirborðinu, því rakinn í undirlaginu er yfirleitt það mikill. Þessi mosi hafði safnað á sig nokkrum dropum 2. ágúst 2002 hjá læk í Víðidalshjöllum, Stafafelli í Lóni.

Réttindi sótt og fengin

Það er merkilegt til þess að hugsa að margar þær breytingar sem orðið hafa til bóta hér á landi á sviði réttinda almennings hafa komið frá erlendum stofnunum og samningum. Þannig hafa ýmsar umbætur sem tryggja aðkomu almennings að skipulagsmálum komið í gegnum löggjöf og reglur sem innleiddar eru á evrópska efnahagssvæðinu. Nú kemur þetta frá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Loksins staðfestir einhver þá tilfinningu almennings að takmörkun aðgangs og úthlutun til sérvaldra einstklinga var óréttlát. Það hefur ekkert með vernd fiskistofnana að gera, heldur er hér eingöngu verið að tala um þann þátt að meina einum en leyfa öðrum, að hafa frían aðgang að sameiginlegri auðlind.

Nokkrir landeigendur í Austur-Skaftafellssýslu bíða nú afgreiðslu Mannrétindadómstóls Evrópu varðandi þann úrskurð Hæstaréttar að þinglýstir hlutar jarða hafi verið dæmdar eign ríkisins. Eitt þessara mála er úrskurður í máli Stafafells í Lóni þar sem stór hluti lands sem ríkið seldi 1912, er tekinn aftur endurgjaldslaust undir ríkiseign. Helstu röksemdir eru þær að þrátt fyrir fleiri hundruð ára eignarsögu að þá sé "óljóst um landnám". Krafa er gerð fyrir dómi að landeigendur geti sannað ferðir með kvígur og elda fyrir rúmum þúsund árum. Hæstirétturinn er með Landnámu sem sitt meginviðmið varðandi stórjarðir á Íslandi, sem að allir sérfræðingar í því fornriti telja hæpna heimild.

Með þessum úrskurði myndast sterkar forsendur um endurskoðun kvótakerfisins og vonandi fáum við fljótlega niðurstöðu frá Strassburg sem knýr á um endurskoðun á forsendum úrskurða við ákvörðun þjóðlendna eða ríkislendna, sem er í sumu tilfellum hrein og klár eignarupptaka ríkisins. Þetta eru ólík mál en eiga það sameiginlegt að margt bendir til þess að þau stangist á við alþjóðleg viðmið varðandi mannréttindi.


mbl.is Íslensk stjórnvöld breyti fiskveiðistjórnunarkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband